Fara í efni

TRÚARBRÖGÐ OG UMBURÐARLYNDI

Trúarbrögð og lífsskoðanir
Trúarbrögð og lífsskoðanir

Ég er sammála Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, að jólasálmar og boðskapur um kærleika skaðar engan. Þvert á móti er að mínu mati ágætt að næra gamlar menningarhefðir eins og þær birtast í jólahaldi okkar. Og siðfræðiboðskapur trúarbragða og heimspeki eiga einnig að mínu mati að eiga greiðan aðgang að uppvaxandi æsku. En það skiptir máli á hvaða forsendum það er gert. Um það efni hefur átt sér stað talsverð og stundum harðvítug umræða á liðnum árum.  Mikilvægt er að vanda til hennar.

Ég velti fyrir mér inntaki eftirfarandi orða í ávarpi ráðherrans á nýafstöðnu Kirkjuþingi:

„Á tímum þar sem eðlilega er mikið rætt um víðsýni, umburðarlyndi og fjölbreytni er þannig markvisst unnið að því að halda öllu sem skilgreina má sem trúarlegt frá skólabörnum.  Ég er ekki sammála þeirri stefnu ... Á sama tíma og börnin okkar kynnast flestu ef ekki öllu sem gerist í samfélaginu; heimsækja reglulega á vegum skólans fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, fá í heimsókn boðbera ólíkra sjónarmiða í skólana sína, að því ógleymdu að dvelja flest óáreitt langdvölum í netheimum - er Gídeonfélagið hins vegar sett á bannlista samhliða því sem af alvöru er rætt um að heimsóknir barna í kirkjur landsins, einstaka Faðir vor eða jólasálmar geti skaðað æsku þessa lands. Á ögurstundum í lífi þessarar þjóðar getur það varla verið forgangsmál að forða börnunum okkar frá boðskap um kristni og kærleika - enda hlýtur skólastarf nútímans að eiga að einkennast af fjölbreytni, vali og trú á því að einstaklingarnir sjálfir fái með fræðslu og upplýsingu tækifæri til að móta sínar lífsskoðanir, trú og sannfæringu..."

Vill ráðherrann auka kristinfræðikennslu í skólum eða er verið að boða aukinn aðgang trúarsafnaða almennt að skólastarfi - og þá væntanlega einnig þeirra hópa sem byggja mannræktarstarf sitt á trúleysi? Í þjóðfélagi umburðarlyndis er annað ófært.

Auðvitað getur það verið fróðlegt, menntandi og upplýsandi að fá mismunandi trúarsöfnuði til að kynna boðskap sinn í skólum.
Samkeppni trúfélaga um sálir okkar þykir mér hins vegar ekki eftirsókarverð og hef ég viljað styðja við Þjóðkirkjuna sem eins konar kjölfestu í trúarlegum efnum á sama hátt og ég hef horft til starfs á vegum Siðmenntar um veraldlega nálgun í mannrækt. Hófsöm kjölfesta slær á samkeppninstilburði.

Þjóðkirkjan og ríkisvald þurfa að sýna hófsemi og minnast þess að trúfrelsi verður að virða í reynd. Ef opna á skóladyrnar fyrir trúarfræðslu í ríkari mæli en nú er, þá þarf að opna þær dyr upp á gátt.  Það þýðir aukin trúvæðing samfélagsins. Ekki held ég að hún yrði til góðs.