Fara í efni

TVEIR LEIÐIR LEIÐARAR


Tveir undarlegir dagblaðsleiðarar birtust á þjóðhátíðardaginn. Í leiðara Fréttablaðsins þann dag gagnrýnir Jón Kaldal ritstjóri Evu Joly ráðgjafa íslenskra stjórnvalda í rannsókn á efnahagsbrotum sem tengjast hruni bankakerfisins.
Eva Joly hefur sem kunnugt er varað við hagsmunatengslum við rannsóknina - nokkuð sem Íslendingar taka almennt undir enda búnir að fá upp í kok á afleðingum slíkra tengsla. Það á þó ekki við um Jón Kaldal. Í leiðara sínum gerir hann því skóna að Eva Joly sé vafasöm sending inn í rannsóknarvinnuna enda sé hún stjórnmálamaður: "Í gærkvöldi sagði hún til dæmis í frettatíma Stöðvar 2  að réttarkefi Vesturlanda væri sniðið að því að dæma fólk í lægri lögum samfélagsins en þeir ríku og valdmiklu slyppu gjarnan". Ummæli af þessu tagi þykir ritstjóranum "trufla verulega.. stöðu hennar sem sérfræðiráðgjafa ríkisstjórnarinnar í rannsóknum á efnahagsbrotum og auka tortryggni" í samfélaginu! Það er nefnilega það. Skyldi ritstjóri Fréttablaðsins virkilega vera svo úr tengslum við samfélagið að hann átti sig ekki á því að tortryggni fer vaxandi við það að á sama tíma og fólk missir atvinnu sína og heimili sín umvörpum skuli útrásarmilljarðamæringarnir áfram fara sínu fram margir hverjir og sitja enn á verðmætum eignum. Það er ekki langt síðan að efnt var til mótmæla að Fríkirkjuvegi 11 - glæsihúsi í eigu Björgólfs Thors - einmitt til að vekja athygli á þessu.
(Upp í hugann kemur lesendabréf sem birtist hér á síðunni fyrir nokkrum vikum https://www.ogmundur.is/is/greinar/samlokur-sibrota-og-tvibrotamenn )
Svo var það Morgunblaðið. Leiðarinn á þjóðhátíðardaginn var gamli, gamli Moggi. Eldgamli Moggi sem skrifar um hið illa ríki annars vegar og góðu þegnana hins vegar.: "Ólíkt hafast þeir að, herrarnir og þegnarnir. Stjórnvöld ætla aðeins að skera niður útgjöld hjá sér um 1%, en þau hika ekki við að leggja þegar í stað á stóraukna skatta á þegna þessa lands."
Nú er ritstjórn Morgunblaðsins fullkunnugt um að á þessu ári er verið að draga saman ríkisútgjöld verulega; um sex þúsund og sjö hundruð milljónir í heilbrigðiskerfinu en þar er að finna stærsta útgjaldalið hins opinbera.
Til að stoppa upp í fjárlagagatið hefur verið ákveðið að ganga enn lengra það sem eftir lifir árs; og hvað heilbrigðiskerfið varðar, skræla af því einum milljarði til viðbótar - fyrrnefndu 1%.
Þetta er hægara sagt en gert. Engu að síður verður þetta framkvæmt. Morgunblaðið virðist vilja ganga enn lengra gagnvart heilbrigðisþjónustunni: Herrunum! Gerir höfundur sér ekki grein fyrir því að um er að ræða velferðarþjónustu landsmanna - okkar allra?!!!
Eru þetta sæmandi skrif? Ég hélt að ritstjórn Morgunblaðsins gerði meiri kröfu til sjálfrar sín.