TVEIR MENN SKRIFA
Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson skrifa báðir minningarbækur sem þeir hafa verið að kynna á undanförnum dögum.
Hvoruga bókina hef ég lesið upp til agna en tel mig í þann veginn að fá heildarmynd af þessum ritsmíðum.
Bók Össurar - Ár drekans - er leiftrandi fjörug eins og höfundurinn og bráðskemmtileg aflestrar, þótt ekki sé ég sammála öllu. Um er að ræða dagbókarfærslur frá árinu 2012, sem í tímatali Kínverja er ár drekans. Þetta eru færslur Össurar, hans upplifanir og hans skoðanir. Hvort það hafi einhverja táknræna þýðingu að velja heiti bókarinnar með hliðsjón af tímatali Kínverja skal ósagt látið.
Bókin er létt og leikandi skrifuð og kveður þar almennt við jákvæðan og vinsamlegan tón í garð flestra samferðamanna Össurar. Allir eru þeir duglegustu, harðdrægustu, skemmtilegustu, gáfuðustu og yfirleitt frábærustu einstaklingar sem fyrirfinnast á jörðu hér! Á þessu eru þó undantekningar og verða þær þeim mun meira áberandi sem þær eru fáar. Hinar hástemmdu mannlýsingar draga nokkuð úr gildi þeirra en segja okkur þeim mun meira um höfundinn sem langar til að lifa í sátt og samlyndi við alla menn - eða flesta.
Sumar frásagnir í bókinni eru óborganlega fyndnar og nefni ég þar sem dæmi frásögn af íssölumanni í Djúpinu, sem kom að Össuri afvelta á nærbrókinni innan um húsgögn sem brotnað höfðu í langdregnu falli utanríkisráðherra eftir að hafa flækt sig í buxnaskálm sinni er hann reyndi að sinna hvoru tveggja í senn, að klæðast í tæka tíð til að taka á móti hinum aðvífandi íssölumanni og ljúka símtali við forseta lýðveldisins!
Bók Steingríms nefnist Frá Hruni og heim. Hún er af allt öðrum toga, útskýringar og uppgjör við atburði á liðnu kjörtímabili. Bókin gefur innsýn í hugarheim Steingríms, sýn hans á sjálfan sig og samferðamenn sína. Þeir skiptast í grófum dráttum í þá sem höfðu bein og hugrekki til að standast ágjöfina - með Steingrími, og svo hina sem ekki höfðu sambærilega mannkosti.
Spyrja má hvort bókin hefði haft gott af því að vera skrifuð örlítið síðar en ljóst er af lestrinum að höfundi er niðri fyrir og liggur á að létta af sér. Það hefur sína kosti að menn tali hreint út. Að sumu leyti kemur þessi bók á óvart. Þannig hafði ég búist við því að hún gæfi stærri mynd af höfundi sínum en raun ber vitni.
Þegar sagt er frá mótun efnahagstillagna VG frá haustinu 2008 fáum við að heyra af glímu Steingríms við sjálfan sig í háloftunum, á flugi víða um heim eins og skrásetjara bókarinnar var sýnt í minnispunktum sem skráðir voru aftan á „brottfararspjöld og farmiða".
En kannski var hann ekki alveg einn. Við lesturinn fór ég í nafnaskrá til að fletta upp nafni Ásgeirs Jónssonar, hagfræðings, sem ásamt fleirum kom við sögu í ráðgjöf um tillögusmíð á haustmánuðum árið 2008 þótt ekki væri hann sérstakur skoðanabróðir okkar liðsmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Hann naut hins vegar mikils trausts - hafði gert vandaðar skýrslur, m.a. um þróun atvinnumála og þótti sérlega fær hagfræðingur. Minnist ég þess að leitað var til hans um ráðgjöf á þessum tíma. En nafnið fann ég hvergi á skrá. Ásgeir er sonur Jóns Bjarnasonar.
Ég saknaði þess líka að fá ekki að heyra umfjöllun um tillögur og hugmyndir Lilju Mósesdóttur í skatta- og efnahagsmálum, sem aldrei fengu að njóta sín úr hennar munni. Það var ekki fyrr en löngu síðar, þegar aðrir voru búnir að meðtaka þær og gera að sínum að þær þóttu eftirsóknarverðar. Þá vildu margir Lilju kveðið hafa, en nú undir breyttu höfundarnafni.
Álit á einstaklingum byggir á mati hvers og eins. Hitt er verra ef röngum upplýsingum er haldið að lesendum. Þannig er það ósönn fullyrðing að ég hafi séð eftir afsögn minni haustið 2009 einsog Steingrímur fullyrðir. Það gerði ég aldrei og geri ekki enn! Ég var hins vegar afar ósáttur að Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir skyldu stilla dæminu þannig upp að ríkisstjórnin stæði og félli með afstöðu þeirra í Icesave. Að sjálfsögðu var ég ósáttur við að sjá mig nauðbeygðan að hverfa úr ríkisstjórninni og vildi mjög eindregið komast þangað inn aftur en þá á mínum forsendum en ekki þeirra og án þess að láta þröngva mér til undirgefni. Ég sá aldrei eftir því að standa með sannfæringu minni. Enda hafði afsögnin þýðingu og varð til góðs. Án hennar hefði margt farið á annan veg.
Þá er það fullyrðingin um að ég hafi hrakist úr ríkisstjórninni vegna þess hve þungt niðurskurðurinn í heilbrigðisráðuneytinu hafi tekið á mig. Þetta lét Steingrímur hafa eftir sér við afsögn mína og ítrekar nú í bók sinni, varla ómeðvitaður um að slíkar fullyrðingar hafa þótt góðar að kjamsa á í rógskrifum. En framar öllu öðru þá er með þessum fullyrðingum reynt að drepa á dreif kjarna málsins sem var andstaða mín við Icesave samninginn og barátta fyrir því að beina því máli í annan farveg.
Varðandi veru mína í heilbrigðisráðuneytinu þá er staðreyndin sú að sjaldan hef ég eins vel fundið mig í starfi og einmitt í starfi mínu sem heilbrigðisráðherra. Það er svo allt önnur saga að ég varð vægast sagt undrandi og fyrir miklum vonbrigðum með fylgispekt fjármálaráðherrans við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og taldi að öðru vísi ætti að halda á niðurskurðarhnífnum en hann gerði á þessum tíma og stundum einnig síðar. Þetta ræddum við og skýrir það eflaust hvers vegna Steingrími þótti ég vera „vanstilltur" eins og hann kýs að orða það í bók sinni.
Velferðarkerfið er viðkvæmt. Því má líkja við trjágrein sem má sveigja en ekki brjóta. Því miður skorti á dómgreindina í þessu efni og var því margt brotið einsog við erum að upplifa þessa dagana. Allt þetta hefði mátt forðast með meiri yfirvegun og sjálfstæðri hugsun. Um nauðsyn á aðhaldi og samdrætti í ríkisrekstrinum efaðist ég hins vegar aldrei einsog málflutningur minn á fundum með heilbrigðisstarfsfólki víðs vegar um landið sumarið og haustið 2009 ber með sér. Þar voru ófá vitni. Ég nefni þetta sem dæmi um rangfærslur sem draga úr gildi bókarinnar.
Það olli jafnan miklu írafári þegar óskað var eftir bókun í ríkisstjórn og var, sérstaklega af hálfu forsætisráðherrans, jafnan reynt að koma í veg fyrir að sérstaða væri bókuð. Lengi vel taldi ég að bókanir í ríkisstjórn hefðu litla þýðingu. Nú er ég kominn á aðra skoðun.
Í bók sinni minnist Steingrímur ekki andstöðu minnar við Icesave! Aðeins að ég hafi haft efasemdir: „Ögmundur Jónasson hafði efasemdir um hvort rétt væri að semja, en hann lagðist ekki gegn málinu og lýsti ekki andstöðu við inntakið hvorki með bókunum í ríkisstjórn né öðrum hætti."
Ekki trúi ég öðru en Steingrímur tali hér gegn betri vitund því varla hefur hann gleymt umræðum í ríkisstjórn og þá ekki síður á fundum okkar þriggja, mín, Jóhönnu Sigurðardóttur og hans sjálfs, þessa örlagaríku daga þegar skrifað var undir fyrsta Icesave samninginn nánast óséðan og óræddan í ríkisstjórn og þingflokki, enda "einkaréttarlegt plagg" sem trúnaður þyrfti að ríkja um. „Þú verður að treysta okkur", sagði forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann kinkaði kolli.
En án bókana hafa menn að sönnu frírra spil til að skrifa söguna á þann veg sem þeim þykir best hljóma.
Slík skrif fá þó ekki breytt þeirri staðreynd að ég var andvígur málsmeðferð Icesave-samningsins í ríkisstjórn og lagðist eindregið gegn honum í þingflokki VG í júní árið 2009. Og í septemberlok það ár sagði ég af mér ráðherraembætti vegna andstöðu minnar við málsmeðferð þessa samnings.