Fara í efni

TVENNT TIL UMHUGSUNAR Í TILEFNI SKRIFA TALSMANNS SAMORKU

Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, skrifar grein í Morgunblaðið um raforkuverð til stóriðju.
Gústaf Adolf segir tal um að stóriðja búi við mjög hagstætt raforkuverð hér á landi vera ýkjur og spyr hvort menn "trúi því í alvöru að að íslensk orkufyrirtæki hafi áhuga á því að leggja út í miklar fjárfestingar og stofna til umfangsmikils rekstrar til þess að selja raforku með tapi. En auðvitað stenst slík ályktun ekki skoðun. Eða hvers vegna ættu íslensk orkufyrirtæki að hafa áhuga á því? Og hver ætti ávinningurinn að vera og fyrir hvern?"

Fyrir hvern var virkjað?

Þetta er vissulega til umhugsunar. Nú er það svo að æðstu fjármálastjóranr hjá Landsvirkjun hafa margoft lýst því yfir að hefðu þeir verið að stýra hlutafélagi hefðu þeir aldrei ráðist í Kárahnjúkavirkjun og hef ég skilið það svo að þeir mætu arðsemi ónóga. Já, fyrir hvern er þetta þá gert? Það er von að menn spyrji. Gætu það verið fyrir stjórnmálamenn og flokka og þá sérstaklega einn tiltekinn stjórnmálaflokk?  Framsóknarflokkurinn, sem farið hefur með inðaðarráðuneytið síðan 1995, hafði nefnilega lofað Austfirðingum álveri og álverið skyldu þeir fá hvað sem tautaði og raulaði. Þeir sem gæfu sér tíma til að rannsaka allt ákvarðanaferlið kæmust að raun um að fyrst var tekin ákvörðun og síðan var hagkvæmnin skoðuð – að því leyti sem það yfirleitt var gert! Síðan er það saga út af fyrir sig hvernig til hefur tekist varðandi búsetuþróun og hverjar afleiðingarnar hafa orðið fyrir efnahagslíf þjóðarinnar.

Virkjanir fyrr og nú varla samanburðarhæfar

Annað til umhugsunar úr skrifum Gústafs Adolfs er eftirfarandi: "Stórir samningar um sölu á raforku til stóriðju hafa ...í gegnum tíðina meðal annars gert íslenskum orkufyrirtækjum kleift að reisa virkjanir og flutningsvirki með hagkvæmari hætti en ella og þannig má færa rök fyrir því að raforkusala til stóriðju hafi beinlínis haft áhrif til lækkunar á raforkuverði til almennra notenda." Þetta hefur verið umdeilt í gegnum tíðina. Ekki skal ég dæma um þessar vangaveltur um raforkuverðið en færa má rök fyrir því að þjóðhagslega hafi þetta verið hagkvæmt. Upp úr miðri liðinni öld voru aðstæður frábrugðnar því sem nú er. Til þess að geta reist öflugar og afkastamiklar virkjanir var þörf á stórkaupendum í bland við innlendan atvinnurekstur og heimilin í landinu. Þótt menn reiddsut þeirri mismunun sem fram kom í raforkuverðinu má ætla að þjóðhagslega hafi verið um hagstæð viðskipti að ræða og vísa ég þar í rök Gústafs Adolfs. Allt öðru máli gegnir hins vegar um virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun. Hún er reist fyrir einn og aðeins einn notanda og hagkvæmni hennar hlýtur að vera metin á forsendum eins samnings, hvað hann gefur af sér. Í lósi samningsins verða menn svo að meta hvort þetta var vænleg fjárfesting til atvinnusköpunar á Austurlandi. Þar þyrfti einnig að meta þjóðhagsleg áhrif með hliðsjón af ruðningsáhrifum í atvinnulífinu, þenslu og spennu með háum vöxtum sem eru að sliga heimilin og atvinnulífið í landinu.