Fara í efni

TVÍSKINNUNGUR STÓRVELDANNA – OG MORGUNBLAÐSINS

Birtist í Morgunblaðinu 30.07.06.
Heimurinn verður nú vitni að hrikalegum mannréttindabrotum í Palestínu og Líbanon. Eftir að ísraelski herinn hóf árásir á Gaza, Vesturbakkanum í Palestínu og innrás í Líbanon, að sögn til þess að krefjast þess að Hizbollah samtökin létu einn eða tvo ísraelska hermenn lausa úr haldi, hafa um 800 manns fallið, flestir óbreyttir borgarar. Tjón á mannvirkjum, þar á meðal sjúkrahúsum, samgöngumannvirkjum, vatnsveitum og skólum er gríðarlegt. Dómbærum og óvilhöllum aðilum ber saman um að atferli ísraelska hersins flokkist undir stríðsglæpi eins og þeir eru skilgreindir í alþjóðalögum og samningum.
Tvö stórveldi, Bandaríkin og Bretland, láta sér þetta í léttu rúmi liggja. Fréttamenn tóku upp samtal þeirra Bush Bandaríkjaforseta og Blairs, forsætisráðherra Bretlands að þeim óafvitandi. Þar kom í ljós hversu óumræðilega smáir í sniðum forsvarmenn mestu hervelda heimsins eru.
Sökin á vandanum liggur í þeirra huga algerlega hjá Palestínumönnum. Ísraelar séu fyrst og fremst að verja hendur sínar. Þessi skýring er endurómuð í mörgum fjölmiðlum, þar á meðal í leiðara Morgunblaðsins 18. júlí sl. Þar segir um upptökin af hernaði Ísraela: “Annars vegar réðust skæruliðar í Hamas-samtökunum á Gaza-svæðinu á suðurhluta Ísraels með eldflaugaárásum, felldu ísraelska hermenn og rændu einum félaga þeirra. Hins vegar gerðu öfgamenn úr röðum Hizbollah í Suður-Líbanon árásir á norðurhéruð Ísraels. Þeir hafa einnig rænt ísraelskum hermönnum. Í báðum tilfellum voru viðbrögð Ísraela fullkomlega fyrirsjáanleg - og það nýta skæruliðarnir sér.”
Morgunblaðið telur þó að Ísraelar hafi gengið of langt að þessu sinni því undir lok leiðarans segir: “Ennfremur er nauðsynlegt að Ísraelsmenn læri að hemja viðbrögð sín við árásum skæruliða. Það mun þó ekki gerast á meðan Bandaríkin halda áfram að bera blak af Ísraelum við sérhvert tækifæri. Bandaríkjamenn þurfa að taka þátt í að sannfæra ísraelsk stjórnvöld um að ekki sé alltaf skynsamlegt að beita öllu því afli, sem hinn vel þjálfaði herafli Ísraels býr yfir.”
Hvernig væri að menn reyndu að sannfæra Ísraela um að fara að samþykktum Sameinuðu þjóðanna um landamæri Ísraels og Palestínu og að þeir virtu sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar. Samkvæmt tillögu Sameinuðu þjóðanna um skiptingu Palestínu frá árinu 1947 var Ísraelsríki ætlað rúmur helmingur landsins (55%). Núverandi stjórnvöld í Ísrael ætla Palestínumönnum innan við 10% af sundurtættri Palestínu. Og þegar það gerist að kosin er ríkisstjórn, með 77% þátttöku og niðurstaðan verður ísraelskum yfirvöldum ekki að skapi, þá ákveða þau að halda eftir tollum og sköttum sem Ísraelar innheimta, því ekki má láta hinni hernumdu þjóð slíkt eftir. Ekki nóg með þetta, þingmönnum er meinaður aðgangur að þinghúsi og sumir þeirra fangelsaðir.  Jafnframt er haldið uppi stöðugum manndrápum og ofbeldisaðgerðum. Allt þetta gerist eftir að Hamas samtökin, sem kjörin voru lýðræðislega til valda, höfðu einhliða virt vopnahlé í 16 mánuði. Í kjölfar þessara atburða sauð upp úr og bæði Hamas og Hizbollah í Suður-Líbanon gripu til vopna.
Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið höfðu stutt Ísraela í ofbeldinu og eftir að til átaka kom, var viðkvæðið: “Ísraelar hafa rétt til að verja hendur sínar.” Gott ef ekki heyrðist eitthvert taut um þetta í Stjórnarráði Íslands líka, frá umsækjendunum um fulltrúasæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Nú ætla ég ekki að gera lítið úr hlutskipti þessa ísraelska hermanns, Gilat liðþjálfa í hernámsliðinu, sem numinn var á brott og verður hugsanlega drepinn af palestínskum skæruliðum eða kannski líklegar í ísraelskum eldflauga og stórskotaárásum. En menn skyldu þó hafa stærðargráður í huga. Síðan 1967 hafa 650 þúsund Palestínumenn setið í ísraelsku fangelsi eða 40% allra karla í Palestínu! Núna eru 9800 Palestínumenn í fangelsi af pólitískum ástæðum, einnig hundruð kvenna og barna.
Ívitnaður leiðari Morgunblaðsins bar yfirskriftina Vítahringurinn í Mið-Austurlöndum. Í niðurlagi hans segir að með einhverjum ráðum verði “að reyna að rjúfa vítahringinn í Mið-Austurlöndum.”
Þessu er ég hjartanlega sammála. Mín spurning er hins vegar þessi: Væri nú ekki ráð að hætta að stilla upp að jöfnu ísraelska stórveldinu annars vegar og hernumdri palestínskri þjóð hins vegar; krefjast þess að Ísraelar fari að samþykktum Sameinuðu þjóðanna og láti þegar í stað af stríðsglæpum og öðrum mannréttindabrotum? Á sínum tíma agnúaðist Morgunblaðið iðulega út í þá sem stilltu upp á jafnræðisgrunni, lýðræðisríkjum annars vegar og einræðisríkjum hins vegar. Ekki væri saman að jafna sagði Morgunblaðið, ríkjum sem virtu lýðræði og mannréttindi og hinum sem á þessum réttindum træðu. Þetta er rétt. En á þetta ekki við um Ísraela og Palestínumenn líka? Eru þetta aðeins “deiluaðilar”, sem verði að setjast að samningaborði? Skyldi Morgunblaðið vera haldið sama tvískinnungi og stórveldin í vestri, sem ekki eru reiðubúin  - ekki einu sinni í orði - að verja alþjóðlega samninga um stríðsglæpi og mannréttindabrot, hvað þá samþykktir Sameinuðu þjóðanna? Ekki verður annað skilið.
Ef Ísraelsríki virti alþjóðlega samninga yrði friðvænlegra í Mið-Austurlöndum. Yfir 75% kjósenda Hamas í Palestínu, vilja frið framar öllu öðru, enn hærra hlutfall er friðelskandi þegar horft er til allra Palestínumanna samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum. Kannanir á meðal íbúa Ísraels sýna að hlutfall friðelskandi fólks þar er einnig hátt. Hlustum á raddir þeirra sem þrá frelsi og frið. Segjum hernaðarofbeldismönnum að þeirra tími sé liðinn.