Fara í efni

TVÖ MINNINGARBROT ÚR VIRKJUNARSÖGU ÍSLANDS

Raflínur
Raflínur

Í vikunni var sagt frá því í  forsíðufrétt Morgunblaðsins að fulltrúar Landsvirkjunar hafi strax morguninn eftir samþykkt Alþingis um  setja Hvammsvirkjun í Þjórsá í „nýtingarflokk", hringt í sveitarstjórnarmenn á svæðinu til þess að ræða fyrirhugaðar framkvæmdir. Greinilega með vatn í munni.
Við þetta komu tvö minningarbrot upp í hugann.

Landsvirkjun boraði við Kárahnjúka ...

Fyrri minningin er frá gönguferð á Kárahnjúkasvæðið löngu áður en leyfi til virkjunarframkvæmda lágu fyrir. Stórvirkar vinnuvélar voru engu að síður á svæðinu og var óspart grafið og borað. Þegar spurt var hverju þetta sætti var svarið á þá leið að þetta væri allt til rannsókna og könnunar. Enda hefðu framkvæmdaleyfi ekki verið veitt!

... og setti niður mælistikur við Þjórsá

Síðara minningarbrotið er frá því í ágúst 2007. Félagar úr VG höfðu efnt til gönguferðar með Þjórsá. Í þessari ferð sannfærðist ég um að Hvammsvirkjun mætti ekki rísa og spilla landinu. Það vakti athygli göngufólksins að með ánni hafði verið komið fyrir mælistikum. Hverju sætti það? Okkur var sagt að þær væru frá Landsvirkjun sem væri að búa í haginn fyrir framkvæmdir. Þetta væri gert ef svo færi að framkvæmdaleyfi yrði veitt!

Hvaða lærdóma má draga af þessum minningarbrotum?

Það má á þessu skilja að virkjunarsinnar telja sig hafa vissu fyrir því að á endanum gangi öll þeirra áform upp. Spurningin sé aðeins um tíma. Þetta er í hæsta máta óheilbrigt og verður að breytast.
En fyrir þessari tilfinningu stóriðjusinna er því miður nokkur innistæða. Fyrir löngu var ég búinn að skynja það að Hvammsvirkjun yrði að veruleika. Í vor beið ég þess dapur í sinni að hún yrði aðskilin frá þeim virkjunarkostum sem enn hefðu ekki staðist formprófin. En líka það er spurning um tíma. Að því mun koma að þessum virkjunarkostum verður þröngvað í gegnum þingið.  Það mun gerast þegar stóriðjan þarf að teygja sig eftir nýjum kosti í kjörbúð orkuframleiðslunnar, svo stuðst sé við líkingamál Hjörleifs Guttormssonar.

Deilurnar snerust fyrst og fremst um form

VG greiddi atkvæði gegn Hvammsvirkjun og einn þingmaður Bjartrar framtíðar. Aðrir þingmenn voru hlynntir, stöku þingmaður sat hjá. Allt hafði dottið í dúnalogn eftir að formsatriðum hafði verið fullnægt.
Deilurnar í þinginu í vor snerust hjá fæstum þingmönnum um hvar þeir teldu ásættanlegt að virkja, það er, hvað þeim sjálfum fyndist. Deilurnar snerust fyrst og fremst um form. Hvort farið væri að lagabókstaf og ítrustu reglum um Rammaáætlun. Deilt var um nokkra virkjunarkosti. Hvammsvirkjun þótti standast formreglur. Þar með mátti vita að örlög Þjórsár á því svæði væru ráðin.

Eru lögin í samræmi við markmið þeirra?


Auðvitað er grundvallaratriði að fara að þeim lögum og reglum sem við setjum okkur. En þar á ofan verðum við einnig að starfa og hugsa samkvæmt þeirri hugsun að náttúran eigi jafnan að njóta vafans ef hann á annað borð er uppi.
Í þessu samhengi verður einnig að spyrja hvort lögin og reglurnar sem við setjum, í þessu tilviki Rammaáætlun, séu í samræmi við þau markmið sem þeim var ætlað að tryggja. Ekki telur Hjörleifur Guttormsson, guðfaðir Rammaáætlunar, svo vera ef dæma skal af skrifum hans.

Byrjað á röngum enda

Í grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið 8.júlí vitna ég í greinargerð Hjörleifs frá því í nóvember 2011. Þar segir m.a.: „Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að þau áætli það heildarmagn framleiddrar orku sem þau telji nauðsynlegt að afla út frá þjóðhagslegri nauðsyn og með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga (loftslagsmál) í fyrirsjáanlegri framtíð og að Rammaáætlun taki mið af því. Þannig væri hægt að gera sér grein fyrir heildaráhrifum slíkrar áætlunar... Á meðan ekkert liggur fyrir í því efni birtist okkur Rammaáætlun sem eins konar „kjörbúð", sem hver og einn geti leitað inn í og heimtað sitt í tímans rás. Slíkt fyrirkomulag er ógnun við verndarþáttinn. Sérstaklega blasir þetta við þegar um er að ræða raforkusölu til orkufreks iðnaðar. Því ætti að stöðva frekari orkusölu í þessu skyni að mestu eða öllu leyti á meðan dæmið er gert upp, nema þegar um er að ræða framleiðslu á vistvænum orkugjöfum í stað jarðefnaeldsneytis til nota í samgöngum og fiskiskipum.
Undirritaður
(þ.e. HG) flutti á árinu 1997 tillögu til þingsályktunar um sjálfbæra orkustefnu (701 mál á 122. löggjafarþingi. Sjá fylgiskjal). Þá var heildarraforkunotkun í landinu tæpar 6 terawattstundir á ári (TWh/a) og Orkuspárnefnd gerði þá ráð fyrir að heildarraforkunotkun landsmanna árið 2025 yrði 9,4 TWh að óbreyttri stóriðjunotkun. Nú 14 árum síðar er framleidd orka hins vegar orðin 17 TWh/a og hefur vaxið um 11 TWh/a fyrst og fremst vegna aukinnar sölu til stóriðju. Þetta sýnir ljóslega afleiðingar þess að hafa „opið hús" fyrir raforkustölu til orkufreks iðnaðar. Í umræddri þingsályktunartillögur gerði ég ráð fyrir að raforkuframleiðsla með vatnsafli og jarðvarma fram til ársins 2050 færi ekki yfir 30 terawattstundir á ári, enda væri í þeirri tölu innifalið að innlend orka hafi þá leyst innflutt jarðefnaeldsneyti að fullu af hólmi.
Ljóst er að núverandi hugmyndir orkufyrirtækja landsins um framleiðsluaukningu stefna langt yfir þessi mörk, t.d. áformar Landsvirkjun ein að bæta á næstu 15 árum við framleiðslu sína 11 TWh/ári frá nýjum virkjunum."