Fara í efni

ÚKRAÍNA, SNOWDEN OG FÁTÆK BÖRN Á ÞINGI EVRÓPURÁÐSINS

Ögmundur á Evrópuráðsþingi
Ögmundur á Evrópuráðsþingi

Þing Evrópuráðsins í Strasbourg, sem stóð 7. til 11. apríl síðastliðinn var óvenjulegt að einu leyti, nefnilega því að allt féll í skugga eins máls: Úkraínu. Það var fullkomlega eðlilegt enda miklir og ógnvænlegir atburðir að eiga sér stað þar. Óeðlileg utanaðkomandi afskipti voru ærið tilefni umræðu og fordæmingar.

Úkraína í forgrunni

Greidd voru atkvæði um það hvort vísa ætti Rússum úr Evrópuráðinu eða svipta þá tímabundið öllum réttindum vegna afskipta þeirra af málefnum Úkraínu. Síðari kosturinn varð niðurstaðan. Þá var samþykkt ályktunartillaga um Úkraínu og þær hættur sem steðjuðu að lýðræðisþróun þar. Um báðar tillögurnar varð talsverður ágreiningur og fylgdi ég þar minnihluta að málum. Fyrir afstöðu minni mun ég gera ítarlega grein á opinberum vettvangi.

Internetið

Auk þessa stórmáls var fjöldi annarra mála á dagskrá en sjálfur tók ég þátt í umræðu um fátækt og internetið, kosti þess og galla. Tók ég undir með þeim sem hvöttu til áframhaldandi vinnu á vettvangi Evrópuráðsins um þróun netsins. Þarna hefur Tiny Kox, holllenskur þingmaður og formaður vinstriflokkanna á Evrópuráðsþinginu (sem ég tilheyri), haft ákveðna forgöngu.  Það var að hans tillögu að efnt var til opins umræðufundar meðan á þinginu stóð, með þátttöku Edwards Snowdens (um gervihnött) þar sem fjallað var um uppljóstranir hans og spurningar sem þeim tengdust.
Í ræðu minni vék ég að Snowden og hvernig hann hefði svipt hulu af njósnum bandarísku leyniþjónustunnar sem svo aftur hefði vakið spurningar um persónuvernd.

Hluti af almannarýminu

Ég sagði að margar hliðar væru á þessum málum. Þannig yrðum við að horfa á internetið sem hluta af almannarýminu og gera sömu kröfur á báðum stöðum. Lýsti ég ánægju með að þessi skilningur kæmi fram í skýrslunni sem var til umræðu. Vék ég að persónuvernd í þessu samhengi og einnig aðgengi ofbeldisiðnaðar að börnum.
Hvað varðar vafasöm afskipti stjórnvalda af internetinu nefndi ég nýafstaðnar kosningar í Tyrklandi þar sem yfirvöld takmörkuðu fréttamiðlun á netinu.

Ritskoðun Tyrkja gagnrýnd

Fagnaði ég yfirlýsingu Anne Brasseur, forseta þings Evrópuráðsins, sem í sérstakri yfirlýsingu gagnrýndi tyrknesk yfirvöld og sagði að lokun á internetinu eða sérstökum rásum þess eins og gert hefði verið í Tyrklandi, stríddi gegn samþykktum Evrópuráðsins og dómum sem Mannréttindadómstóllinn í Strasbourg hefði fellt.
Ég lagði að lokum áherslu á það í þessari umræðu að internetið væri alþjóðlegt viðfangsefni sem yrði að  takast á við á heimsvísu og vísaði ég þar til Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins eins og reyndar væri gert í þeirri ályktunartillögu sem lá fyrir þinginu.

Fátæk börn

Annað mál sem ég tók þátt í umræðu um, var hlutskipti fátækra barna en fyrir þinginu lá tillaga um að hvetja aðildarríki Evrópuráðsins til að gera stórátak til að útrýma fátækt barna. Í skýrslunni komu fram óhugnanlegar staðreyndir um hlutskipti hundruða þúsunda evrópskra barna, sem væru vannærð, hefðu ekki aðgang að menntun, lítilli heilbrigðisþjónustu og kannski það sem verst væri, nytu ekki nærveru foreldra sinna, sem vegna fátæktar og atvinnuleysis hefðu verið tilneydd til að yfirgefa heimahagana og þá einnig börnin sín,  til að afla lífsviðurværis.
Mikið riði á að ríki, sveitarfélög og alþjóðasamfélagið sammæltust um að setja þetta málefni í forgang og horfa á allar ákvarðanir sínar á sviði félags- og efnahagsmála með hliðsjón af þessu þjóðfélagsböli. Þetta var hinn rauði þráður skýrslunnar sem var grundvöllur umræðunnar. Undir þetta sjónarmið tók ég mjög eindregið.