Fara í efni

UM ÁBYRGÐ ÍSLENDINGA OG ÖFGAHÓP VG

Hverjir eru þessir kröfuhafar? Heimóttarskap Íslendinga og skorti á sjálfsgagnrýni eru lítil takmörk sett. Það eru afar fáir sem taka upp hanskann fyrir það fólk, félagssamtök og fyrirtæki sem töpuðu miklum fjármunum á gjaldþroti Íslands. Það er talað um svífirðilega óbilgirni þessara aðila þegar þeir reyna að fá hluta af því fé til baka sem þeir lánuðu. Hér er meðal annars um að ræða fólk sem hefur tapað ævisparnaði sínum. Að ekki sé talað um þá erlendu aðila sem lánuðu Íslendingum í góðri trú um það að þjóðin væri heiðarleg.
Ég held því fram að öll þjóðin beri ábyrgð á gjaldþroti Íslands, bæði lýðræðislega ábyrgð og einnig þá ábyrgð sem fólst í því að njóta mikils kaupmáttar. Það er komið að skuldadögum og það skiptir verulega miklu máli að skynsamlega verði staðið að uppgjöri og endurreisn. Skynsemi virðist ekki fyrirferðamikil hjá Íslendingum og margt bendir til þess að við vinnum okkur og framtíð þessa lands verulega í óhag með þvermóðsku og röngum ákvörðunum.
Við féllum á fyrsta prófinu með því að neita að standa við skuldbindingar okkar í Icesave-málinu, en þar á forseti Íslands meiri sök en aðrir. Við verðskuldum víst svona forsetafígúru. Það er mikill misskilningur að halda að það bæti hag landsins að endurgreiða ekki Icesave.
Lýðskrum virðist eiga greiða leið að hjarta Íslendinga og þess vegna getur t.d. formaður Framsóknarflokksins enn haldið því fram að erlendar þjóðir bíði í röðum eftir að fá að hjálpa Íslendingum, en vondur Steingrímur og Jóhanna vilji ekki þiggja hjálpina. Rétt er að Sigmundur svari hvar norsku lánin séu?
Þó ríkisstjórnin hafi ekki komið mikilvægasta málinu í endurreisn Íslands í gegn, Icesave, hefur hún gert margar réttarbætur sem hefðu verið óhugsandi með Framsókn eða Sjálfstæðisflokki við stjórnarvölinn, eins og t.d. lögin sem heimila kyrrsetningu eigna.
Ábyrgð öfgahópsins innan VG, sem ekki greinir á milli auka- og aðalatriða, verður því nokkur þegar hann fellir ríkisstjórnina.
Pétur

Þakka bréfíð. Það er ekki rétt að enginn taki upp hanskann fyrir þá sem töpuðu sparnaði erlendis í íslenska bankahruninu. Bréf þitt er einmitt til marks um þetta. Auðvitað er afleitt að tapa fé á banka. Það finnst mér þótt ekki deili ég þessum mikla harmi ykkar félaganna sem hafið tekið þessa aðila upp á ykkar arma. Miklu verra finnst mér þegar þjónusta og greiðslur til fátæks fólks og lasburða eru skertar til að geta staðið vörð um eignarrétt þeirra sem þó eiga peninga á bók. En þetta þykja þér sennilega vera öfgafull sjónarmið. 
Kv.
Ögmundur