Fara í efni

UM AFSTÖÐU TIL HUNDAHALDS

Sæll Ögmundur.
Ég var að velta fyrir mér hvar flokkurinn stendur varðandi hundahald í Reykjavík. Ég og fleiri hundaeigendur erum mikið að velta þessum málum fyrir okkur vegna komandi borgarstjórnarkosninga. Ummæli Stefáns Jóns frá síðasta vetri eru mörgum hundaeigandanum minnisstæð. Sjá hér 2 tengla: http://canis.is/index.php?option=com_content&task=view&id=111&Itemid=42 http://canis.is/index.php?option=com_content&task=view&id=110&Itemid=42
 Ég hef þegar sent svipaða spurningu til Stefáns Jóns en ekki fengið svar enn. Allavega þá er ég félagi í VG og uppgötvaði að ég hafði ekki hugmynd um stefnu flokksins í þessum málum, ef hún er þá til. Í framhaldinu ætti ég væntanlega að beina þessari spurningu til frambjóðenda til 1. sætis Vg í borgarstjórnarkosningunum. Þetta liggur okkur mörgum þó þungt á hjarta og því sendi ég þér þetta nú. Ég vona að þú sjáir þér fært að svara mér.
Með bestu kveðju,
Erla Hlyns
Félagsfræðinemi og ráðgjafi á BUGL

Sæl Erla og þakka þér fyrir bréfið. Fyrir nokkrum árum var gerð skoðanakönnun um hundahald í Reykjavík og var þá meirihluti andvígur hundahaldi. Ég hygg að borgarfulltrúar telji sig bundna af þessum niðurstöðum þegar stefnumótun til framtíðar er annars vegar. Sjálfum þætti mér ekki úr vegi að leita að nýju álits fólks.
Mín skoðun í þessu efni er þó sú að meirihlutinn hafi ekki rétt á því að skerða frelsi fólks til eins eða neins nema sýnt sé að það skaði aðra eða sé andfélagslegt og niðurbrjótandi á einhvern hátt. Hvað hundahald snertir finnst mér þetta vera fráleitt. Margt fólk hefur af því mikla ánægju að eiga hund og ekki er að sjá að hundarnir séu almennt illa haldnir. Hið gagnstæða virðist uppi á teningnum. Hins vegar eru til grimmir hundar og til er í dæminu að fólk hafi ofnæmi fyrir hundum eða óttist þá. Í slíkum tilvikum þarf að taka tillit til þessa ef fólk býr í sambýli við aðra. Ef fólk hins vegar veldur ekki öðrum skaða með því að halda hund finnst mér engin réttlæting fyrir því að leggja bann við hundahaldi. Þetta er mín persónulega skoðun.
Með kveðju,
Ögmundur