Um annála, skaupið og áramótaávörp: Markús Örn með vinninginn
Hér á þessari heimasíðu hefur Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri sætt nokkurri gagnrýni að undanförnu og þá einkum í tengslum við hans eigin gagnrýni á fréttaþáttinn Spegilinn. Hefur okkur mörgum þótt þar vegið að góðri fréttamennsku. Meintur glæpur þeirra Spegilsmanna virðist hafa verið að vilja opna fyrir upplýsingu og mismunandi viðhorf. Þetta er ekki ámælisvert heldur eðlileg vinnubrögð á fjölmilði. Það er athyglisvert að ekki virðast þeir trufla útvarpsstjórann fréttamennirnir, sem eru minna gefnir fyrir andlega áreynslu en þeir Spegilsmenn eru (með Friðrik Pál Jónsson í farabroddi) eða eru einfaldlega samdauna ríkjandi viðhorfum.
Annálar sjónvarpsins – því miður missti ég af annálum hljóðvarpsins hjá RÚV og einnig af annálum Stöðvar tvö – færðu okkur heim sannninn um að ríkissjónvarpið er óþægilega nærri því að vera valdhafafréttamiðill.
Vissulega sáum við í annálum andóf gegn Írak við Sjórnarráðið hér í Reykjavík, en hvar voru fjöldafundirnir sem haldnir voru í höfuðborginni og reyndar víðar, í aðdraganda stríðsins? Allt andóf var smækkað og tekið úr því allur safi og kraftur sem fylgir oftast fjölmennum fundum, nema þá helst varðandi Kárahnjúka. Þar sáust þó fleiri en tíu, tuttugu manns. En það sem ég á við með hugtakinu valdhafafréttamiðill birtist í sinni nöktustu mynd þegar talsmaður Bandaríkjaforseta, hvort sem er í Bagdad, Pentagon eða Hvíta Húsinu, er nánast orðinn fréttaskýrandi fréttastofu Sjónvarpsins. Hann stendur nú orðið við míkrófóninn og talar til okkar beint fyrir milligöngu RÚV. Við skulum ekki gleyma því að úr þessum míkrófóni hafa menn orðið uppvísir af grófum fölsunum bæði fyrr og síðar.
Þessi gagnrýnislausa afstaða til valdsins var einkennadi bæði í innlenda og erlenda fréttaannál Sjónvarpsins. Eftir átakaár, þar sem eignir þjóðarinnar hafa nánast verið gefnar, þar sem hvert hneykslismálið hefur rekið annað, hvort sem er í Landssímanum og gegndarlausu sukki með almannaeignir þar á bæ, störfum einkavæðingarnefndar sem borgaði sjálfri sér milljónatugi fyrir að ráðleggja sjálfri sér; sölu ríkisbankanna þar sem rétt fyrir áramót var verið að ganga frá 700 milljón króna bónus til nýrra eigenda, þrátt fyrir metgróða; eftir vægast sagt vafasöm vinnubrögð stjórnvalda við útboð og síðan framkvæmdir við Kárahnjúka, fylgispekt og undirgefni gagnvart Bndaríkjamönnum í Íraksstríðinu og fullkomið andvarleysi varðandi þá eðlisbreytingu sem er að verða á NAT'O og felur í sér aukna hættu á að bandalaginu verði beitt sem árásartæki Bandaríkjanna víðs vegar um heiminn – þá hefði maður búist við hressilega krassandi annálum. Skyldi það sem hér er fram talið og margt, margt annað af svipuðu tagi hafa komið fram í fréttaannálum Sjónvarpsins? Nei.
Steininn tók þó úr við ávörp forsætisráðherra og forseta Íslands. Sá síðarnefndi varði mestum tíma sínum í að dásama þá sem hann kallaði "athafnaskáld" og varaði við því að þrengt yrði að þessum mönnum! Hann sagði að við yrðum að viðurkenna hina miklu menn, sem hefðu sótt fram á sviði lyfjaiðnaðar og síðan fylgdi mikil upptalning á afrekum þeirra. Ég ætla nú að leyfa mér að segja, að full ástæða er til að setja stórt spurningamerki við hvað þessir aðilar eru að gera víða um lönd. Og fyrst minnst er á lyfjaiðnað og Balkanskagann, sem ég held að hafi einnig verið nefndur á nafn, þá er það staðreynd að þangað var haldið með fríðu föruneyti, helstu valdamanna landsins og fulltrúum stærstu fjölmiðlanna, fyrir ekki svo ýkja löngu, þegar skáldjöfrarnir voru að taka yfir lyfjverslun ríkisins í Búlgaríu. Og sömu aðilar hafa nú tekið höndum saman við bandarísk "athafnaskáld", sem með aðstoð bandaríska sendiráðsins í Búkarest beita þumalskrúfum til að þvinga búlgörsk stjórnvöld til að einkvæða og í kjölfarið afhenda þeim búlgarska landssímann. Þætti okkur í lagi ef útlenskir auðmenn kæmu svona fram við okkur – með hjálp bandarísku utanríkisþjónustunnar?
Ólafur Ragnar Grímsson hefur sagt margt ágætt í ávarpsorðum sínum til þjóðarinnar á nýjársdag á liðnum árum og vissulega var sitthvað ágætt í ávarpinu að þessu sinni. En það á ekki við um meginstefið, nefnilega, að við megum ekki vera vond við ríka fólkið, því það þurfi svigrúm til að "athafna sig". Þessi áskorun var sett í búning sanngirninnar! Á öðru var þörf frá Bessastöðum nú, í samfélagi vaxandi misskiptingar.
Davíð Oddsson var ánægður með sig og sína í sínu ávarpi. Hér á landi væri allt í stakasta lagi. Á gamlárskvöld værum við sem betur fer laus við allt "nöldrið" sem fyllti síður blaðanna allan ársins hring. Hér var forsætisráherra væntanlega að vísa í málflutning náttúruverndarsinna og talsmanna Öryrkjabandalgs Íslands, verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðu, allra þessara aðila sem sífellt eru "nöldrandi".
En það er rétt, að á gamlárskvöld er ekkert nöldur. Í áramótaskaupinu er þeim yfirleitt hyglað sem gera það gott, þeir eru kankvíslega og góðlátlega mærðir, en hinir sem verða undir, fá eiturpílurnar. Þær stóðu að þessu sinni út úr bakinu á fyrrverandi dómsmálaráðherra og eignmanni, fyrrverandi Skeljungsforstjóra. Vinningshafar ársins voru hins vegar hafnir upp til skýjanna, þar skinu þeir skærast Davíð og Björgólfur.
En viti menn, undir miðnættið á gamlárskvöld birtist síðan Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri með aldeilis bráðgóða hugvekju, þátt um Sigvalda Kaldalóns tónskáldið mikla. Það var einstaklega vel til fundið af Markúsi Erni að flétta saman lífshlaup og list Sigvalda sinni hugvekju og á útvarpsstjóri lof skilið fyrir. Markús Örn Antonsson hefur þróað áramótaávarp útvarpsstjóra í sínum anda og hefur hann mótað sína eigin formúlu. Það er erfitt að endurtaka stemningsþátt eins og þennan, sem bundinn er tiltekinni stund – sjálfum áraskiptunum - en mér þykir það engu að síður vel koma til greina – en þá þarf það að gerast strax á nýjársdag eða annan janúar. En í ávarpaflórunni hafði Markús Örn tvímælalaust vinninginn að mínu mati. Með eigin orðum, stórbrotinni tónlist Sigvalda og með hjálp góðra listamnna, skapaði Markús Örn Antonsson eftirminnilega stund, sem reis svo sannarlega undir þeim væntingum sem kröfuharðir áhorfendur hafa.
Séra Karl Sigurbjörnsson, biskup á einnig þakkir skilið fyrir þá áherslu sem hann lagði á börn og góða aðhlynningu þeirra á tímum penigahyggjunnar. Þetta er rétt hjá séra Karli. Börnin eiga erfitt uppdráttar í samfélagi gróðahyggjunnar, og því miður er ekki góðs að vænta þegar helstu talsmenn samfélagsins horfa í átt að gullinu og ekki hinum æðri gildum, sjá jafnvel ekki sólina fyrir "athafnaskáldunum", sem mala gullið. Til þeirra virðast þeir líta sem bjargvætta þjóðarinnar – ef þá ekki þjóðanna.