UM BARTSÝNISMENN OG BÖLSÝNISMENN
Forsætisráðherra þjóðarinnar hélt venju samkvæmt ræðu á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Um sumt var ræðan ágæt, tilvitnanir í þjóðskáldin íslensku og spakmæli frá fyrri tíð. Framtíðarsýn forsætisráðherrans er hins vegar ekkert sérstaklega íslensk, miklu frekar bandarísk; forsætisráðherra sér það fyrir sér að fyrirtæki taki yfir verkefni í menningu, listum og samfélagsþjónustu sem fram til þessa hafa verið á vegum samfélagsins. Hálfnöturlegt er að heyra þennan boðskap frá Austurvelli á þjóðhátíðardaginn.
Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra varð í ræðu sinni nokkuð tíðrætt um bjartsýnismennn og bölmóðsmenn. Ef menn horfðu hálfa öld aftur í tímann, hvers myndu menn þá minnast, spurði Halldór. Bjartsýnismenn myndu minnast þess að Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin 1955, bölmóðsmenn myndu minnast rigningarsumarsins það ár.
Sjálfur hefði ég haldið að sæmilega yfirvegað fólk hefði minnst hvoru tveggja án þess að taka það sérstaklega inn á sig, að það hafi verið venju fremur vætusamt árið sem þau ánægjulegu tíðindi urðu að Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum.
Ef við hins vegar notuðum hina svarthvítu formúlu Halldórs forsætisráðherra og reyndum samkvæmt henni að gera okkur í hugarlund hvernig fólk komi til með að hugsa eftir hálfa öld, þá myndu eflaust einhverjir rifja upp að sumarið 2005 hefði verið venju fremur sólríkt. Aðrir myndu minnast þess að þetta hafi verið fyrsta heila árið sem Halldór Ásgrímsson gegndi stöðu forsætisráðherra. Eftir stæði þá að gera það upp hvorn hópinn ætti að telja til bjartsýnisfólks og hvorn bölmóðsmenn. Kannski verðum við svo heppin að hafa þá – eins og nú - við völdin forsætisráðherra sem kann skil á svörum við spurningum af þessu tagi.