Fara í efni

UM DÓMSMÁLA-RÁÐHERRANN OG HIRÐMENN HANS

Varla hafði aulabárður í hlutverki lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli fyrr látið hleypa eftirlýstum glæpamanni í flug til Lundúna en hann ákvað að standa að níðingsverki gegn 40 flóttamönnum á Íslandi,sem lengi mun frægt verða !
Innrás á 6.tug lögreglumanna í friðhelgar vistarverur 40 hælisleitenda á Suðurnesjum var rökstudd með því að þannig mætti flýta skrifstofustörfum hjá Útlendingastofnun. Híbýlin voru umkringd og ruðst inn til fólksins, sem hingað kom sumt  vegna reynslu af ofbeldisaðgerðum og mannréttindabrotum. Sumir urðu fyrir áfalli.
Lögreglustjórinn gumar af því að hafa haldlagt peninga þessa stóra hóps fórnarlamba, samtals 1.5 milljónir króna.
Í fjölmiðlum ver hann haldlagninguna með því að peningarnir séu "sennilega" vinnlaun fyrir svarta atvinnustarfsemi.
Glæpir gætu falist í flöskusöfnun, bílþvottum eða að slá grasbletti fyrir gamalmenni. Lögreglustjórinn veit ekki að sá sem veitir manni án atvinnuleyfis starf er miklu brotlegri en verkamaðurinn ! En nú skal þrælum refsað !
(Lengi hefur verið gagnrýnt að hælisleitendum eru allar sjálfsbjargir bannaðar á meðan mál eru í "skoðun" um mánaða og jafnvel árabil). Meginkrafan virðist vera að hælisleitendur séu snauðir og haldist í örbirgð á þeim skömmtunarseðlum sem þeim bjóðast.
Varla finnst svo galinn dómari á Reykjanesi að hann heimili geðþóttaránsferðir Lögreglustjórans í vasa íbúanna þar. Heimild fékkst víst til að haldleggja einkasjöl fólksins. Sá afsrakstur varð heldur magur, en ferðin var þó til fjár segja málpípur valdsins og þykjast nú bæta stöðu ríkissjóðs.
Á bls. 9 í Mbl.13.september er fullyrt að "túlkur" og "lögmaður hælisleitenda" hafi verið til kallaðir á  árasarstað- en þeir voru raunar allmargir á sama tíma. Hvert starfsmál "túlksins" var fylgir ekki sögu, né heldur hversu víða Ingjaldsfíflinn dreifðust á sömu stundu ! Þar gefur að líta það embættisálit, að nú verði matarpeningar dregnir af nokkrum flóttamannanna þar sem vasar þeirra hafi ekki verið galtómir við ofbeldisgjörðina.
Kjarni málsins er sá að í þessu tilviki er beitt níðingsbragði gegn hælisleitendum á  Íslandi. Þeim er valinn einkunn sem líklegir falsarar, lögbrjótar og svindlarar , jafnvel eituryfjaskúrkar og allur hópurinn fær harðan skell frá opinberu valdi, ólíkt fólk frá ólíkum heimshlutum, sem allt á þó að búa við fullkomin mannréttindi hér á landi. Þetta níðingsverk verður ekki afsakað eðabætt.
Skömmin verður minnismerki verksins.
Kveðja,
 Baldur Andrésson