UM DVALAR- OG HJÚKRUNARHEIMILI ALDRAÐRA: RÉTT SKAL VERA RÉTT
Að undanförnu hefur farið fram nokkur umræða á síðum Morgunblaðsins um kosti og galla þess að fela einkaaðilum að reka velferðarþjónustuna á markaðsforsendum.
20. september sl. birtist ágæt úttekt á þessu undir flennisfyrirsögninni, Meira skattfé í einkareksturinn. Þar kom fram að hið einkarekna dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða, Sóltún, í Reykjavík taki til sín meira fjármagn úr skatthirslum almennings en stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Í greininni segir m.a. : "Óumdeilt er að daggjald Sóltúns er hærra en annarra áþekkra stofnana. Skýringanna er helst að leita í hærri rekstrarkostnaði hjá Sóltúni og kröfu hluthafa um jákvæða afkomu."
Viðbrögð við þessu birtust í viðtali við Önnu Birnu Jensdóttur, hjúkrunarforstjóra á Sóltúni laugardaginn 8. október. Ekki var ég sáttur við ýmsar staðhæfingar sem þar komu fram um rekstrarforsendur og skýringar á því að dvalarheimilum skuli vera mismunað eins gróflega og raun ber vitni.
Ég velti því fyrir mér hvort Morgunblaðið ætlaði að láta hér við sitja. Svo reyndist ekki og létti mér við það að sjá prýðilegt viðtal við Júlíus Rafnsson, framkvæmdastjóra á Grund í Morgunblaðinu sl. föstdag.
Hvers vegna skyldi mér hafa létt? Vegna þess að það er orðið leiðigjarnt að fjölmiðlar hirði ekki um sannleiksgildi yfirlýsinga talsmanna mismunandi hagsmunaaðila. Ég leyfi mér að fullyrða að iðulega er ráðist í ýmsar framkvæmdir og skipulagsbreytingar án þess að málavextir séu kannaðir - eða öllu heldur, vegna þess að málavextir hafa ekki verið kannaðir til hlítar. Menn halda einfaldlega með tilteknum málstað eða tilteknum málsaðilum - því miður virðast margir fréttamenn einnig haldnir þessum kvilla nema skýringin sé áhugaleysi eða leti. Það hlýtur að vera hlutverk fjölmiðla að leiða fram staðreyndir í hverju máli. Þess vegna þótti mér gott að þetta mál yrði ekki skilið eftir með mörgum spurningum ósvöruðum og jafnvel röngum og villandi yfirlýsingum. Rétt skal vera rétt!
Ég hvet alla áhugamenn um þetta málefni að kynna sér viðtölin við Önnu Birnu og Júlíus Rafnsson.
Hér að neðan birti ég bæði þessi viðtöl, fyrst fyrrnefnt viðtal við Önnu Birnu Jensdóttur. Ég hef oft tekið undir með henni um sitthvað í hennar áherslum þótt ekki geti ég verið sammála henni þegar kemur að hinum fjárhagslegu samanburðarfræðum. Síðan birti ég viðtalið Júlíus Rafnsson. Er ég mjög sammála greiningu hans. Ég vil þakka Morgunblaðinu fyrir sinn þátt í umræðu um þetta málefni nú síðustu vikurnar.
Umræddar greinar í Morgunblaðinu:
Laugardaginn 8. október, 2005 - Innlendar fréttir
Hjúkrunarforstjóri Sóltúns segir umræðuna um kostnað á öldrunarstofnunum vera villandi
Sóltún fylgir þörfum sjúklingannaEftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is ÖLDRUNARSTOFNANIR eru misjafnlega dýrar vegna þess að þeim er ætlað mismunandi hlutverk.
ÖLDRUNARSTOFNANIR eru misjafnlega dýrar vegna þess að þeim er ætlað mismunandi hlutverk. Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarforstjóri Sóltúns í Reykjavík, segir að umræðan hafi verið villandi, því almennt komi ekki fram að kostnaðurinn tengist því þjónustustigi og þeim verkefnum sem mismunandi stofnunum sé ætlað.
"Það kostar íbúana samt ekkert meira að búa í Sóltúni en á hverju öðru hjúkrunarheimili á Íslandi," segir hún. "Greiðsluþátttaka íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila er alls staðar eins og bundin í reglugerð samkvæmt ákvörðun Alþingis."
Anna Birna Jensdóttir segir að deildir Landspítala - háskólasjúkrahúss fái mismunandi fjárveitingar vegna þess að þær séu misdýrar. Sama eigi við um öldrunarstofnanir, og einkareknar stofnanir fái ekki meira fjármagn vegna þess að þær séu einkareknar. Ástæðan geti verið fleira starfsfólk og öðruvísi samsetning en hjá þeim sem sinni léttari verkefnum.
Mikill munur"Almenningur heldur gjarnan að hjúkrunarheimili og hjúkrunarheimili sé það sama en það er mikill munur á hjúkrunarheimilum," segir Anna Birna. Í Reykjavík séu til dæmis almennt veikari einstaklingar inni á hjúkrunarheimilum en úti á landsbyggðinni. Landspítali - háskólasjúkrahús hafi lengi átt erfitt með að koma frá sér sjúklingum sem þurfi meiri umönnun en meðalhjúkrunarheimili veiti. Á þeim forsendum hafi ríkið boðið út einkaframkvæmdarverkefni til að fá einhvern til þess að taka að sér þessa veikari einstaklinga, sem séu með fjölþættari vandamál og mælist með meiri hjúkrunarþarfir. Öldungur hf. hafi fengið verkefnið á grundvelli blindrar samkeppni, en verkefnið hafi falið í sér rekstur, þjónustuhugmynd og hönnun byggingar. Fylgt hafi nákvæm fyrirskrift frá ríkinu varðandi kröfur um þjónustu til handa verðandi íbúum heimilisins auk þess sem tilboðið hafi verið haft til hliðsjónar. "Þessi forskrift hefur ekki verið til neins staðar annars staðar á Íslandi," segir Anna Birna og leggur áherslu á að áður hafi ekki verið gerðar svona kröfulýsingar. "Það hefur sýnt sig að frá því við opnuðum hefur Landspítalinn getað sent frá sér þá einstaklinga sem áður ílentust á spítalanum og hjúkrunarþarfir þeirra mælast samkvæmt samræmdu mati mun hærri heldur en meðal einstaklinga á öðrum hjúkrunarheimilum. Það sést mjög greinilega að hingað koma þeir sjúklingar sem ætlað var að koma hingað. Þessu verkefni fylgja hærri daggjöld en meðalhjúkrunarheimili fær vegna þessara forsendna - það að fylgja þörfum sjúklinganna. Til þess að mæta þessum þörfum notum við féð til að manna starfsemina með hærra hlutfalli fagfólks heldur en meðalhjúkrunarheimili er með. Umræða sem stundum hefur heyrst, að tekjurnar fari sem gróði í vasa fjárfesta, á sér ekki stoð. Auknum hjúkrunarþörfum og meiri veikindum fylgir aukinn annar rekstrarkostnaður eins og til dæmis í lyfjum og öðrum hjúkrunarvörum. Allar samanburðartölur sýna að við þurfum að kosta mun meira til í þessum vöruflokkum heldur en aðrir."
Hún bendir jafnframt á að eigendur hafi lagt til hús og allan búnað, samkvæmt útboðinu, og leigja ríkinu í 27 ár. "Þetta er alveg nýtt á Íslandi. Áður gáfu menn sjálfseignarstofnunum og fjölskyldufyrirtækjum megnið af stofnkostnaði úr framkvæmdasjóði aldraða, sem er nefskattur sem hver einstaklingur greiðir visst gjald í með sköttum. Til allmargra ára gátu þessir aðilar líka sótt í Framkvæmdasjóðinn til viðhalds og endurbóta auk þess sem þeir hafa haft aðra tekjumöguleika."
Mismunandi rekstrarstaðaÞegar daggjöld eru borin saman segir Anna Birna mikilvægt að skoða mismunandi rekstrarstöðu hjúkrunarheimila. Margt sé öðruvísi í rekstrinum þegar hlutafélag eigi í hlut eða hjá sjálfseignarstofnunum, sem ríki og sveitarfélög búi við. "Sem hlutafélag þurfum við til dæmis að greiða virðisaukaskatt af stofnkostnaði byggingarinnar, af 1,4 milljörðum, og af allri aðkeyptri þjónustu, en allar aðrar heilbrigðisstofnanir fá undanþágu frá þeirri greiðslu. Það er drjúgur peningur og veitir okkur ekki eðlilega samkeppnisstöðu. Auk þess gerum við upp allar lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarfræðinga árlega. Allar aðrar heilbrigðisstofnanir geyma þetta og greiða síðan skuldbindinguna eftir því sem hver og einn fer á lífeyri."
Samið var um Sóltún árið 2000 og hjúkrunarheimilið opnað tveimur árum síðar. Um 200 manns eru í 114 stöðugildum og 92 íbúar.
"Margir sjá ofsjónum yfir því að fólk skuli eiga hér sérherbergi með baði en það er mat okkar hér og allra rannsóknaniðurstaðna að það séu lágmarks mannréttindi," segir Anna Birna Jensdóttir og leggst gegn því að horfið sé aftur til uppbyggingar fjölbýla. Hún bendir á að í nýlegri rannsókn Júlíönu Sigurveigar Guðjónsdóttur hafi meðal annars komið fram að það sem fari verst í fólk á hjúkrunarheimilum sé stöðug færsla þess innanhúss.
Vill leggja niður dvalarheimilinAnna Birna segir að markmiðið með Sóltúni sé að reyna að skapa verðugt líf hjá fólki, þó það búi við mikla fötlun og sé mjög háð öðrum. Öll umgjörðin miði að því að styðja við einstaklinginn þannig að hann haldi sjálfsvirðingu sinni og sjálfræði sínu eins og mögulegt sé. "Við segjum að það sem gert er á venjulegum heimilum sé hægt að gera í Sóltúni." Hún bætir við að þessi starfsemi fari fram í hjúkrunarrými en víða megi sjá hana í dvalarrými þar sem sé hressara fólk. "Ég tel reyndar að það eigi að leggja dvalarheimilin niður en efla þess í stað hjúkrunarrýmin og heimaþjónustuna. Það er tímanna tákn að við skulum eyða hundruðum milljóna í hótelþjónustu fyrir heilbrigt fólk. Þetta sést ekki lengur í nágrannalöndunum en svo skortir okkur verulega á heimaþjónustuna."
Föstudaginn 14. október, 2005 - Innlendar fréttir
Júlíus Rafnsson framkvæmdastjóri Grundar
Ekki sama mat til grundvallar á Sóltúni og öðrum heimilumEftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is
"ÉG ER ósáttur við ýmislegt sem fram kemur í viðtalinu þar sem sumt er klárlega rangt með farið," segir Júlíus Rafnsson, framkvæmdastjóri Grundar, og vísar þar til viðtals við Önnu Birnu Jensdóttur, hjúkrunarforstjóra Sóltúns í Reykjavík, sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag. Í viðtalinu við Önnu Birnu var haft eftir henni að greiðsluþátttaka íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila væri alls staðar eins og bundin í reglugerð samkvæmt ákvörðun Alþingis. Að sögn Júlíusar er þetta ekki rétt með farið og bendir hann máli sínu til stuðnings á að íbúar á Grund borgi t.d. ekki fyrir hárgreiðslu og fótsnyrtingu sem borga þurfi fyrir á öllum öðrum hjúkrunarheimilum að sögn Júlíusar. "Á Grund er hárgreiðsla og fótsnyrting inni í því gjaldi sem ríkið borgar fyrir hvern einstakling sem hér er. Þannig að þessi fullyrðing Önnu Birnu stenst því ekki."
Eðlilegra að allir væru með sama hjúkrunarmatHaft er eftir Önnu Birnu í viðtalinu að frá því Sóltún opnaði hafi það sýnt sig að Landspítalinn geti sent þangað einstaklinga sem áður ílentust á spítalanum. "Það er eflaust hárrétt og ég tek undir það," segir Júlíus en gerir síðan athugasemd við þau orð Önnu Birnu að hjúkrunarþarfir þessara einstaklinga mælist samkvæmt samræmdu mati mun hærri heldur en meðal einstaklinga á öðrum hjúkrunarheimilum. "Hér er rétt að árétta að þau möt sem lögð eru til grundvallar eru mismunandi eftir því hvort um Sóltún er að ræða eða önnur heimili. Þannig er Sóltún með allt annað hjúkrunarþyngdarmat en hin heimilin, en greiðslur til hjúkrunarheimila byggjast á þessu mati. Ég fullyrði það að matið sem notað er á öðrum heimilum sé fyrst og fremst öðruvísi en á Sóltúni til þess að ná niður hjúkrunarþyngd. Það hefur enginn getað sýnt mér fram á það að svo sé ekki," segir Júlíus og gagnrýnir það harðlega að ekki skuli vera sami greiðslugrunnur og RAI-matskerfi milli heimila. "Ef matið á Sóltúni er miklu hærra en annars staðar þá eiga þau að sjálfsögðu að fá hærri greiðslur sem því nemur, en greiðslugrunnurinn ætti að vera sá sami og hjá öllum heimilum. Almennt hjá öldrunarheimilum er grunnurinn ákveðin krónutala, en síðan hafa heimilin mismunandi daggjöld eftir hjúkrunarþyngd," segir Júlíus og tekur fram að sitt mat sé að munurinn á milli þess grunns sem Sóltún er með og þess grunns sem önnur heimili eru með sé óeðlilega mikill. Bendir hann í því samhengi á að Vífilsstaðir taki eins og Sóltún við 90% nýrra innlagna beint af spítala. "Munurinn á hjúkrunarþyngdinni samkvæmt mati milli þessara tveggja heimila sem taka við fólki af spítölum er erfitt að meta vegna þess að mismunandi RAI-mat er notað. Þannig er yfir 3.000 kr. munur á daggjaldi milli þess sem Vífilsstaðir fá miðað við Sóltún."
Finnst illa farið með framkvæmdasjóð aldraðraÍ samtali við Morgunblaðið tók Júlíus fram að sér fyndist aðferðarfræðin við húsnæðisuppbygginguna á Sóltúni, þ.e. að gera samning til 27 ára og borga húsaleigu, vera hið eðlilegasta mál. "Ég tel þetta vera góða aðferð og finnst að taka ætti þetta upp í mun meira mæli en verið hefur. Þannig að ég hvet stjórnvöld og sveitarfélög til að stofna til uppbyggingar húsnæðis með sama hætti og í Sóltúni," segir Júlíus, en gerir hins vegar athugasemd við þau ummæli Önnu Birnu að áður fyrr hafi menn gefið sjálfseignarstofnunum og fjölskyldufyrirtækjum megnið af stofnkostnaði við hjúkrunarheimili úr framkvæmdasjóði aldraðra.
"Þetta eru að mínu áliti fráleit ummæli. Þessi sjóður hrinti af stað verulegu átaki í uppbyggingu öldrunarstofnana á sínum tíma. Vissulega fékk t.d. Grund framlög af opinberu fé á upphafsárum sínum meðan öldrunarþjónustan var að þróast. En Grund hefur ekki fengið framlög úr framkvæmdasjóði aldraðra fyrr en 1999 og hefur frá þeim tíma og til dagsins í dag einungis fengið samtals 120 milljónir króna. Á síðustu árum erum við hins vegar búnir að vera í endurbótum upp á tæplega 900 milljónir króna, sem er fjármagnað með eigin fé en þó fyrst og fremst með lántökum," segir Júlíus og tekur fram að sér finnist stjórnvöld fara illa með framkvæmdasjóð aldraðra.
"Framkvæmdasjóður aldraðra er nefskattur á Íslendinga og um u.þ.b. einn milljarður sem kemur inn í hann á ári. Helmingur af þessum milljarði er notaður til rekstrar elliheimila," segir Júlíus og gerir einnig athugasemd við þau orð Önnu Birnu að leggja eigi dvalarheimili niður og efla í staðinn hjúkrunarrýmin og heimaþjónustuna. "Vissulega þarf að huga að fækkun dvalarrýma," segir Júlíus og bendir á að á Grund séu þó aðeins 50 þjónusturými á móti 187 hjúkrunarrýmum. "Hins vegar þarf að fara varlega í því að fækka dvalarrýmum, því annars gætu skapast vandamál annars staðar í almannaþjónustunni. Ég tel raunar að það sé vöntun á þjónustu dvalarrýma á höfuðborgarsvæðinu," segir Júlíus og bendir á að það séu fyrst og fremst einstæðingar af ýmsu tagi sem eru að koma inn í hin svokölluðu þjónusturými.
Að lokum gerir Júlíus athugasemd við ummæli Önnu Birnu er snúa að mismunandi rekstrarstöðu hjúkrunarheimila eftir því hvort um sé að ræða hlutafélag eða sjálfseignarstofnun.
Grund greiðir 10 milljónir króna í virðisaukaskattHaft er eftir Önnu Birnu að hlutafélag þurfi að greiða virðisaukaskatt af stofnkostnaði byggingar sem og allri aðkeyptri þjónustu, en að allar heilbrigðisstofnanir fái undanþágu frá þessari greiðslu. "Þetta er beinlínis rangt mál," segir Júlíus og vitnar máli sínu til stuðnings í handbók um virðisaukaskatt frá árinu 1998 þar sem segir í grein 12.4 að virðisaukaskattskyld starfsemi opinberra aðila skuli endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þeir hafi greitt við kaup á t.d. ræstingu, sorphreinsun, snjómokstri, þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arktitekta, lögfræðinga og löggiltra endurskoðenda. "Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 319 frá 1997 segir að sjálfseignarstofnanir falli undir þessi sömu ákvæði," segir Júlíus og bendir á að af byggingarkostnaði eins og nefndur er í viðtalinu við Önnu Birnu fái sjálfseignarstofnanir um 2% endurgreidd. "Af almennum rekstri eins og hjá Grund mun heimilið fyrir árið 2005 fá á bilinu 800-900 þúsund krónur endurgreiddar vegna virðisaukaskatts. En á sama tíma er heimilið að borga um 10 milljónir í virðisaukaskatt af starfseminni," segir Júlíus og gerir einnig athugasemd við þau ummæli Önnu Birnu að á Sóltúni geri menn upp allar lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarfræðinga árlega á meðan allar aðrar heilbrigðisstofnanir geymi þetta og greiði síðan skuldbindinguna eftir því sem hver og einn fari á lífeyri. "Ég verð að segja að ég skil varla slíka fullyrðingu því allar öldrunarstofnanir greiða árlega allar skuldbindingar sem lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga innheimtir hjá þeim og þar með greiða heimilin jafnóðum allar skuldbingar sínar," segir Júlíus að lokum.