Fara í efni

UM EINSTAKLINGSÁBYRGÐ OG SAMÁBYRGÐ

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.08.17.
Ég minnist þess að hafa gengið út af nefndarfundi á Alþingi þegar krafist var trúnaðar um mál sem ég taldi að trúnaður ætti ekki að ríkja um. Ég sagði að væru mér færðar upplýsingarnar á fundinum myndi ég ekki gangast undir trúnað. Þeir sem í hlut áttu vildu við svo búið ekki leysa frá skjóðunni og ákvað ég þá að ganga af fundi. Gerði ég opinberlega grein fyrir þessari afstöðu minni. Umræðuefnið á fundinum var orkuverð.

Í vikunni gerðist hins vegar sá furðulegi atburður að út af fundi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis gengu nefndarmenn sem vildu ekki fá vitneskju um efnisþætti máls sem var til umfjöllunar! Í þessu átti að vera fólgin einhvers konar prinsipafstaða, nefnilega að mótmæla því að upplýsingarnar sem átti að reiða fram hefðu þýðingu - og ef þá einhverja, þá væru þær beinlínis afvegaleiðandi og ekki til þess fallnar að stuðla að óhlutdrægri nálgun. Þannig skildi ég þetta.

Málefnið var uppreist æru einstaklings sem brotið hafði alvarlega á börnum og unglingum en hafði öðlast endurnýjaðan rétt sem lögmaður fyrir tilstuðlan stjórnvalda.

Nú skal játað að málið er margslungið.

Í fyrsta lagi hljómar undarlega að þeir aðilar sem eiga að taka upplýsta ákvörðun um hugsanlega endurskoðun á lögum vilji ekki fá á sitt vinnsluborð allar upplýsingar sem málið varðar. Í mínum huga er þetta í hæsta máta óábyrgt. Það mál sem um ræðir hefur valdið straumhvörfum í þjóðfélagsumræðunni og hlýtur í því ljósi að þurfa að skoðast sérstaklega.

Í öðru lagi má um það deila hvort yfirleitt sé rétt að krefjast leyndar um einhverja þætti þessa tiltekna máls og þá sérstaklega hverjir skrifuðu undir meðmæli þess efnis að viðkomandi einstaklingur yrði gerður laus allra mála.

Á þessu stigi er ekki úr vegi að leiða hugann að grundvallarspurningu: Skipta leikendur og gerendur í kerfinu einhverju máli, hverjir þeir eru, nöfn þeirra og kennitölur?

Hér vegast á tvö sjónarmið.

Í fyrsta lagi er ekkert kerfi án nafns og kennitölu. Ekkert kerfi þrífst án gerenda - án þess að einhverjir láti það þrífast með verkum sínum. Ekkert alræðiskerfi hefði þannig mátt starfrækja án þeirra sem báru það uppi með gjörðum sínum. Í þessum skilningi getur enginn hlaupist undan siðferðilegri ábyrgð sinni.

Á hinn bóginn er einnig hægt að koma sameiginlegri siðferðilegri ábyrgð á herðar einstaklinga að ósekju. Frægur að endemum varð Landsdómur sem vildi láta einn mann axla pólitíska ábyrgð á stefnu sem hlotið hafði lýðræðislegt heilsufarsvottorð í kosningum. Annað dæmi er tvískinnungur þeirra sem samþykkja lög og reglur um hælisleitendur en gagnrýna síðan þá sem ætlað er það hlutverk að framfylgja þeim.

Varðandi uppreist æru, sem svo er kölluð, hafa menn komið sér saman um ákveðið fyrirkomulag. Til að það fái gengið upp þarf að fullnægja formsatriðum, að fyrir liggi meðmæli og að tilteknir aðilar staðfesti með undirskrift sinni að ferlið sé á þann veg sem lög og reglur kveða á um. Sé þannig litið á málið, hætta nöfn og kennitölur að skipta máli og gætu vissulega verið afvegaleiðandi í almennri umræðu um fyrirkomulagið.

Hitt er nú orðið morgunljóst, að barátta þeirra sem vilja breytt fyrirkomulag hefur skilað árangri. Fyrir þeirra tilstuðlan virðist nú vera vilji til að breyta lögum þannig að barnaníðingur geti aldrei öðlast rétt til að gegna varðstöðu í réttarkerfinu. Þegar upp er staðið er þetta það eina sem hefur raunverulega þýðingu.

Þegar þessum sigri er náð má segja að annað sé fremur til þess fallið að þjóna gægjuþörf og löngun til að geta haft þá til sýnis sem mundað hafa penna sinn í þessu ógæfumáli og þar með axlað þá ábyrgð sem í reynd hvíldi á okkur öllum sem samfélagi.