UM ESB, KVÓTA OG SPILAKASSA
Sæll vertu Ögmundur minn kæri.
Mikið þykir mér vænt um hvernig þú vilt tækla framhaldsaðgerðir varðandi EB aðild, helst vildi ég sjá þig sópa henni út af borðinu. Þó að Össur hafi haldið því fram að við héldum fullu forræði yfir okkar landhelgi, þá stendur í samþykktum EB ríkja að sameiginleg nýting fiskistofna aðildarríkja skuli ákvörðuð í Brussel og frá því séu engin vikmörk, og hana nú. Er frekar rólegur á meðan Jón situr þar sem hann er og fagna jafnframt nýúthlutuðum byggðarkvóta frá hans ráðuneyti, glæst framtak.
Varðandi spilakassana þá er skelfilegt að 350.000 manna samfélag skuli getað framleitt spilafíkla í því magni sem raun ber vitni og kastað þeim síðan til meðferðaúrræða til framleiðenda þeirra. Það má fara um gjörvalla Skandnavíu án þess að rekast á spilakassa í hverri einustu sjoppu eða öðrum áningarstað. Þetta er ljótur blettur á afþreyingarmenningu okkar.
Nú, en Ísland er lýðræðisríki meðal hinna fremstu og því má forræðishyggja ekki heyrast nefnd á nafn eða bönn við einu og öðru lögð við, við erum öflug og því eigum við að getað valið og hafnað eins og markaðslögmálið gerir ráð fyrir. Fram undan eru hins vegar átök sem við munum ramma inn að hætti hússins. Kær kveðja til þín og þinna.
Óskar K Guðmundsson, fisksali.