Fara í efni

UM HEIÐARLEIKA OG HEILBRIGÐISKERFIÐ

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 10.03.09.
„NÚ SEM aldrei fyrr þurfum við sterka stjórnmálaleiðtoga sem eru tilbúnir að vinna af heilindum í þágu þjóðarinnar, byggja upp traust hennar með vönduðum vinnubrögðum og yfirveguðum málflutningi og umfram allt þurfum við málefnalega umræðu ... Hafi núverandi heilbrigðisráðherra betri hugmyndir um hvernig ná megi fram þeirri hagræðingarkröfu sem sett er á heilbrigðiskerfið er brýnt að hann kynni þjóðinni þær hugmyndir.“ Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, m.a. í grein sem hann birtir í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni, Kallað eftir heiðarleika af hálfu heilbrigðisráðherra.
Hvatning Guðlaugs Þórs um málefnaleg stjórnmál og heiðarleg vinnubrögð er góðra gjalda verð og honum sjálfum sem og okkur öllum verðugt íhugunarefni. Niðurskurði á útgjöldum til heilbrigðismála má mæta með margvíslegum hætti. Hefur mig og forvera minn í starfi greint nokkuð á um leiðir og áherslur.

Lyfin

Í fyrsta lagi getur verið um að ræða hreinar stjórnvaldsaðgerðir. Það á til dæmis við um útgjöld til lyfjakaupa, ákvarðanir um kostnaðarskiptingu notenda og almannatrygginga, ákvörðun smásöluverðs og heildsöluverðs, hvaða lyf er skylt að niðurgreiða og svo framvegis. Samkvæmt fjárlögum var heilbrigðisráðuneytinu gert að draga verulega úr útgjöldum vegna lyfja. Við stjórnarskiptin var sýnt að tveir mánuðir fjárlagaársins myndu líða án aðgerða. Ófullburða reglugerð lá á borði mínu þegar ég kom í ráðuneytið þar sem kveðið var á um eitt hundrað milljón króna sparnað. Ég lét endurgera hana með gerbreyttum áherslum sem voru félagslegri og sanngjarnari þótt sparnaðurinn yrði nú 650 milljónir sem næst aðallega með því að þvinga fram notkun á ódýrari lyfjum.

Fjárlögin

Í öðru lagi má ná niðurskurði með því að reisa hagræðingarkröfu á hendur einstökum heilbrigðisstofnunum. Þetta var gert með fjárlögum þessa árs sem samþykkt voru í lok desember. Þarna koma ráðherrar ekki mjög við sögu að öðru leyti en því að leggja mjög almennar línur. Þannig hef ég lagt áherslu á að kjörin verði jöfnuð innan veggja heilbrigðisstofnana, reynt að forðast uppsagnir og að þjónusta sé skert eins lítið og unnt er. Hjá því er hins vegar erfitt að komast þegar niðurskurðurinn er eins mikill og raun ber vitni. Hér hvílir ábyrgðin á stjórnendum og er hjákátlegt þegar ráðherrar reyna að hæla sjálfum sér fyrir vel unnin störf stjórnenda. Þeir bera hitann og þungann í þessu sambandi. Ráðherrar geta hins vegar lagt lóð á vogarskálar í erfiðum viðfangsefnum og reynt að glæða vilja til sameiginlegs átaks. Ég er sannfærður um að raunverulegur og varanlegur sparnaður verður aðeins til með víðtæku samstarfi.

Kerfisbreytingar

Það á líka við hvað snertir þriðja þáttinn sem ég vil nefna, en það eru kerfisbreytingar. Að þeim hefur verið unnið í langan tíma í heilbrigðiskerfinu. Þannig hefur verið stefnt að samruna heilbrigðisstofnana á stórum svæðum. Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók til starfa fyrir rúmum fjórum árum, á Austurlandi varð einnig samruni stofnana og annars staðar á landinu hafa samsvarandi breytingar verið í burðarliðnum. Óvissa og ósætti hefur hins vegar verið ríkjandi undanfarna mánuði og vil ég þar kenna um flausturslegum vinnubrögðum og stjórnun með valdboði. Ég hef reynt að skapa sátt um ákvörðunarferlið með því að gera það lýðræðislegra. Hvergi hefur verið fallið frá viðleitni til að draga úr útgjöldum þótt ákveðið hafi verið að fara lýðræðislegri leiðir. Margt hefur ágætlega verið unnið í tillögusmíð af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og sumra þeirra verktaka sem tekið hafa að sér einstaka verkþætti. Eftir stendur þó tvennt.

Ásetningur um sparnað

Í fyrsta lagi virðist mér fyrrverandi heilbrigðisráðherra gefa sér að ávinningurinn af einstökum kerfisbreytingum væri í hendi þegar aðeins var um markmiðssetningu – ágiskun – um fjárhagslegan ávinning að ræða. Þetta hef ég staðreynt. Nú er unnið að því að breyta óskhyggju í árangur. Í öðru lagi skiptir pólitíkin máli þegar stefnumótun í heilbrigðisþjónustunni er annars vegar. Ég hef þannig séð gögn sem sýna ótvírætt að stefnt var að því að koma á fót einkavæddu sjúkrahúsi á suðvesturhorni landsins. Um ágæti þessa er ég og fyrrverandi heilbrigðisráðherra á öndverðum meiði. Einkavinavæðingu á ekki að læða að okkur í skjóli víðtækra skipulagsbreytinga. Heiðarlegra hefði verið að selja viðkomandi aðila sjúkrahús og aftengja það ábyrgð skattborgaranna.

Pólitík og heiðarleiki

Ég hef bent á að einkavædd heilbrigðisþjónusta undir handarjaðri fjárfesta sé dýr og óhagkvæmur kostur. Frjálshyggjumenn telja slíka lausn hins vegar afar snjalla. Þarna er um að ræða ágreining og vil ég taka undir með Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þann ágreining á að ræða á málefnalegum forsendum. Það er líka nauðsynlegt og heiðarlegt gagnvart kjósendum að segja það hreint út hvert menn vilja stefna með heilbrigðisþjónustu landsmanna. Nokkuð þykir mér hafa skort á heiðarleika í því efni á undanförnum misserum.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.