Fara í efni

UM HOLLENSKAN OG ÍSLENSKAN RÁÐHERRA


Einn ógeðfelldasti þátturinn í Icesave deilunni eru óheilindi Breta og Hollendinga sem sett hafa þvingu á Íslendinga en hafa alla tíð þóst saklausir af slíku.Við höfum séð hvernig þessi gömlu nýlenduríki hafa safnað liði í Evrópusambandinu og auk þess beitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir sig. Jafnvel Norðurlandaþjóðirnar, að Færeyingum undanskildum, hafa tekið þátt í þessum hráskinnaleik og var ömurlegt að fylgjast með Svíum í formennsku ráðherranefndar Evrópusambandsins slá taktinn til að samræma ofbeldið gegn Íslandi.
Þetta breytir því ekki að við þurfum að vega og meta kosti Íslands í stöðunni á yfirvegaðan hátt og horfa til þess sem er í kortunum í stjórnmálum færi svo að ríkisstjórnin spryngi vegna Icesave.  
Ég neita því ekki að maður þarf að halda sér fast þegar hollenski fjármálaráðherrann lýsir því yfir að nú megi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fara að losa um þumalskrúfurnar á Íslendingum. Fyrir nokkrum dögum var öllum slíkum tengingum afneitað! http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/10/19/bos_a_von_a_jakvaedum_vidbrogdum_ags/     

Í dag vorum við eina ferðina enn saman á BBC við Össur Skarphéðinsson að tala máli Íslands. Utanríkisráðherranum mæltist vel - málflutningurinn sannfærandi - og varð mér hugsað til þess hve illa Ísland hefur nýtt sóknarfæri sín á erlendri grundu til að tala beint til almennings. Smáfundir með ráðamönnum skipta litlu máli. Þeir eru viðkvæmir bara fyrir einu: Kjósendum sínum. Það er við þá sem við eigum að tala!