Um Imbu góðu og Árna dverg
Í grein í Mbl. 28. des. leggst Samfylkingarmaðurinn Valdimar Leó Friðriksson á hnén og kvittar rækilega undir þá persónudýrkun sem tröllríður íslenskum stjórnmálum þessa dagana. Víst er að almenningi er ekki skemmt við lesturinn enda kominn með upp í kok af ofurmennapólitíkinni. En grein Valdimars er eftirtektarverð vegna þess að hún afhjúpar svo vel þann barnalega málflutning sem “foringjakomplexinn” er reistur á. Játningarnar eru einlægar, röksemdafærslan minnir á lítil börn. Hver man ekki eftir að hafa sagt eitthvað á þessa leið í æsku: “Pabbi minn er miklu stærri er pabbi þinn.”
Í grein Valdimars takast tvær persónur á, annars vegar Ingibjörg Sólrún borgarstjóri og hún er góð og stór, hins vegar vondi og vinstri-græni dvergurinn Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar. Árni er ljótur og svikull, hann er að reyna að vippa Imbu úr borgarstjórastólnum, hann “hefur reynt að setja Ingibjörgu, vinsælasta stjórnmálamanni landsins, afarkosti”. Lesandinn hlýtur að hrífast með og spyrja í heilagri vandlætingu; hvað vill dvergurinn upp á dekk, “þessi óþekkti (óþekki)” pólitíkus sem á sér enga réttlætingu, ekkert bakland? Já, mikill er nú munurinn á Imbu og Árna. Höfundurinn Valdimar segir orðrétt: “Við hlið Ingibjargar er Árni dvergur í stjórnmálum. Hann hefur farið fram með miklu offorsi … og telur sig njóta trausts kjósenda þrátt fyrir að vera í flokki sem er varla til.” Árni er sem sagt margfaldur dvergur og ofsafenginn í ofanálag. Þvílíkt fatlafól! Árni er ekki bara dvergur í pólitík; hann er líka dvergur í pólitískum skilningi og þar á ofan er flokkurinn hans dvergvaxinn. Allt á sömu bókina lært.
Árni er undirförull, hefur ekki haft vit á að halda sér á mottunni við fótskör meistarans, og uppsker eins og til var sáð. Já, eitt sinn skal hver dvergur deyja. Árni tekur eigin gröf og á þá bara eftir að moka yfir sjálfan sig. En leiðtoginn Ingibjörg vex og dafnar og verður sterkari við hvern þann rýting sem rekinn er í bak hennar. Geislar sólar streyma um Ingibjörgu eins og gullið fljót með fögrum fossum og glitrandi gljúfrum. Og ekki verður betur séð en sólin hafi breytt um braut og snúist nú aðeins um Imbu og hennar fólk. Imba hefur áunnið sér óskoraða hylli. Það fer ekki á milli mála að oss er mikill foringi fæddur: Imba er stærst, Imba er sterkust, Imba er best. Í greinarlok krýpur Valdimar frammi fyrir foringjanum, fram undan er yfirnáttúruleg og óhjákvæmileg atburðarás:
Ingibjörg Sólrún er einn af framtíðarleiðtogum Samfylkingarinnar og tilvonandi forsætisráðherra. Það er einfaldlega vilji kjósenda og ekkert getur komið í veg fyrir það nú þegar peningamenn eru að mjólka almenning í skjóli Sjálfstæðisflokksins.
Allt er þetta í guðspjallastíl og raunar einnig að hætti seinni tíma guðfræðinga sem skrumskældu kenningar Karls Marx: Spádómarnir munu rætast, ekkert mannlegt vald getur stöðvað framvinduna!
Hin stjórnlausa dýrkun á sterka og alvitra leiðtoganum á rætur að rekja til einræðisins þar sem andstæðingarnir eru níddir niður í svaðið, eru andleg eða líkamleg fatlafól nema hvort tveggja sé, og eiga sér engra kosta völ. Þeir eiga í besta falli að þegja. Málefni og rökræða um þau eru einskis virði, leiðtoginn veit allt og getur allt miklu betur en aðrir. Hinn óskeikuli foringi, sem veður yfir allt og alla á skítugum skónum með innantómu bauli og slagorðum, er því í fullkomnu ósamræmi við lýðræðið sem byggist m.a á því að borin sé virðing fyrir minnihlutanum og skoðunum hans. Sorglegar staðreyndir en sannar og umhugsunarverðar fyrir alla sem lýðræðinu unna.
Í ljósi þessa er rétt að spyrja Valdimar og félaga hans í Samfylkingunni: Er ekki tími til kominn að Samfylkingarfólk fari að hugsa sinn gang? Getur ekki verið að meira að segja Ingibjörg Sólrún sjálf sé orðin þreytt á öllum hnébeygjunum og oflofinu? Er ekki tími til kominn að huga að þeim málefnum sem flokkurinn ætlar að bera á borð fyrir kjósendur í komandi kosningum. Hvað á að bjóða almenningi, hinum óbreyttu dvergum, upp á? Trakteringarnar eru vægast sagt ólystugar þessa dagana. Fyrir utan leiðtogadýrkunina beinir Valdimar athyglinni að einhverjum óskilgreindum peningamönnum sem eru með mjaltavélar sínar á almenningi og er sannast sagna ekki beysinn málflutningur þegar öllu er á botninn hvolft. Öllum er hins vegar ljóst að misskipting hefur vaxið með ævintýralegum hraða hér á landi í tíð þriggja ríkisstjórna undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Og hefur þá engu breytt hvort Alþýðuflokkurinn, gamla Samfylkingin, eða Framsóknarflokkurinn hefur verið í slagtogi með honum. En hverju er um að kenna, eru einhver yfirnáttúruleg öfl að verki? Nei, hin óheftu markaðsöfl hafa ráðið mestu um þróunina, hin ósýnilega hönd markaðarins hefur birst landsmönnum í öllu sínu veldi. Og sjaldan þreytast forystumenn Samfylkingarinnar á að lofa hið nýja, opna og frjálsa hagkerfi sem skipað hefur “peningamönnum allra landa” í öndvegi. Fátt bendir því til að Samfylkingin ætli að draga úr sogkraftinum í mjaltavélunum. A.m.k. eru almannafyrirtæki ekki að þvælast fyrir forystunni. Bankarnir og Landssíminn eru á leiðinni í mjólkurbrúsana og næst á dagskránni er raforkan og kalda vatnið. Það er sannarlega tímabært fyrir forystu Samfylkingarinnar að breyta um kúrs og taka höndum saman við “dvergana” í VG um velferðarstjórn þar sem hagsmunir almennings verða hafðir í fyrirrúmi. Eða af hverju þurfa Árni og Ingibjörg endilega að vera óvinir?
Með nýárskveðju, Björn Á Björnsson