UM KIRKJU, RÍKI, SKÓLA OG VG
Sæll Ögmundur.
Nú á sér mikil umræða um aðskilnað skóla og kirkju. En aðskilnaður skóla og kirkju var einmitt málamiðlunin á landsfundi VG í hitteðfyrra þegar þjóðkirkjumálið var til umfjöllunar. Ég hef ekki heyrt eitt einasta orð frá þér (sem varst þó lykilmaður í þessari málamiðlun) né öðrum kjörnum fulltrúum okkar á alþingi um þetta mál síðan. Þetta er nokkuð sérstakt einkum nú þegar virkilega er verið að takast á um þessi mál í samfélaginu. Hvað veldur þessari djúpu þögn?
Kveðja,
Tumi Kolbeinsson
Ekki er það nú svo að ekkert hafi heyrst frá mér eða öðrum um þessi efni – þannig kom þetta ítrekað upp í kosningabaráttunni – og sótti ég meðal annars eins konar ráðstefnu um þetta efni, svokallaða Vinaleið kirkjunnar inn í skólakerfið. Tók ég þá sem jafnan upp einarða afstöðu í anda okkar samþykktar sem þú réttilega bendir á að sé í reynd aðskilnaður kirkju og skóla. Auk þess vil ég benda á að á þingi hafa einstakir þingmenn viðrað skoðanir sínar um aðskilnað ríkis og kirkju sem alls ekki eru þó á einn veg. Þar stendur hnífurinn í kúnni, afstaða manna er einsaklingsbundin í þessu efni og þykir mér persónulega mikilvægt að virða það.
Í umræðu á alþingi í dag bar þessi mál á góma og gerði ég þar grein fyrir afstöðu minni með eftirfarandi hætti: „Hæstv. forseti. Á Íslandi er sem kunnugt er samband á milli ríkis og kirkju en jafnframt ríkir trúfrelsi í landinu Á hið síðara hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt ríka áherslu í ályktunum sínum. Síðasti landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ályktaði um þetta efni og áréttaði að virða bæri trúfrelsi að fullu og það væri grundvallaratriði að jafna stöðu trúar- og lífsskoðunarfélaga. Öll löggjöf og stjórnsýsla þyrfti að miðast við þetta. Enn fremur segir í ályktuninni, með leyfi forseta: „Landsfundurinn telur mikilvægt að í skólum sé gætt fyllsta hlutleysis gagnvart trúarbrögðum og afstöðu til trúar. Fundurinn leggur áherslu á jafnan rétt einstaklinga og hópa sem aðhyllast mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð. Landsfundurinn telur að trúfélögum eða öðrum þeim aðilum sem hafa heimild til að gefa hjón saman með tilheyrandi samfélagslegum skuldbindingum beri skylda til að mismuna ekki fólki á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar eða lífsskoðana.“ Nú er það svo í okkar flokki að einstaklingar hafa mismunandi skoðanir á sambandi ríkis og kirkju og margir hafa mjög ríkar skoðanir í þeim efnum og það er virt. En stefna flokksins og þær áherslur sem við leggjum ríkastar fram er að stuðla að skilningi, gagnkvæmri virðingu og umburðarlyndi. Þess vegna viljum við efla fræðslu um trúmál, um siðfræði, um heimspeki í skólum landsins því að þekkingin og skilningurinn er forsenda umburðarlyndis.“
Hér má nálgast umræðuna alla: http://www.althingi.is/altext/135/12/l12152918.sgml
Með kveðju,
Ögmundur