Fara í efni

Um kvótamálið

Jú sæll. Var að velta fyrir mér kvótamálinu. Þar sem lögmæti mitt liggur án alls efa með stjórnmálahreyfingu Vinstri grænna, þá brennur eitt á mér. Málið er það að hvernig ég get útlistað skýrmerkilega fyrir fólki réttmætinguna á því taka kvótann til baka. Það reynist mér ekki erfitt að skilja en fyrir þeim sem ég þarf að útskýra stend ég sjálfur oft á gati. Ég þekki smáútgerðarmenn sem hafa unnið harðri hendi við að kaupa sér kvóta undanfarin ár og komið sér upp ágætis útgerð. Hvað réttlætir það að þeir verði að skila fengnum hlut til baka, kvóta sem þeir hafa keypt sér og unnið fyrir hörðum höndum.
M.kv. Gunnar Sig

Sæll Gunnar.
Þarna kemur þú að erfiðu máli. Það sem réttlætir að kvótinn verði færður í hendur eiganda síns er réttlætismál hér og nú en einnig varðar þetta framtíðarhagsmuni þjóðarinnar. Hvort sem horft er til skamms eða langs tíma þarf að sjá til þess að eignarhald þjóðarinnar yfir sameiginlegum auðlindum okkar sé tryggt. Hins vegar hreyfir þú við mjög mikilvægu máli. Fjöldi útgerðarmanna hefur þurft að kaupa aflaheimildir dýrum dómum og auðvitað þarf að horfa til þeirrar skuldsetningar sem þeir hafa tekist á herðar. Þess vegna höfum við viljað fara mildilega í fyrningu kerfisins og láta þriðjung hins fyrnda kvóta hvíla hjá núvernadi útgerðarfélögum, gegn leigu að vísu, en heldur vægilegri en það gjald yrði sem sem kæmi til með að myndast á uppboðsmarkaði. Þetta ákvæði er beinlínis sniðið að þörfum þeirra aðila sem þú nefnir. Þegar horft er lengra fram í tímann sé ég það þó fyrir mér að allir sætu við sama borð að þessu leyti. Þetta er hins vegar mikilvæg skammtímaráðstöfun á meðan verið er að aðlaga kerfið breyttum aðstæðum. Mér finnst gott að þú bendir á þennan réttlætisvinkil en við skulum heldur ekki gleyma því að kvótakerfið hefur sett heil byggðarlög á kúpuna og í kerfinu er fjöldi útgerðarfyrirtækja að borga veiðleyfagjald dýrum dómum, ekki þó til þjóðarinnar heldur til kvótahafa sem hagnast á verðmætum sem þeir eiga í raun ekkert tilkall til.

Kveðja,Ögmundur