Fara í efni

UM LANDSPÍTALA OG HEILSU-VERNDARSTÖÐ

Sæll Ögmundur.
Hvað finnst þér um það að nú séu uppi hugmyndir um að breyta Heilsuverndarstöðinni í Icelandair-hótel? Mér brá amk. þegar ég sá þessa fyrirsögn á forsíðu Fr.bl.5.2.2010. Það sem mér finnst sérstaklega ömurlegt við þetta er að á sama tíma eru uppi hugmyndir um að byggja "monster" í miðbænum. Það "monster" - með tilheyrandi ógurlegum gatna-slaufum og vafningum - er ætlað að hýsa nýjan Landsspítala.
Ég get fullyrt að þetta er ekki staðurinn fyrir þann gríðarlega byggingar-massa, sem fyrirhugaður er. Ég get líka fullyrt að það er kol-röng hugsun og snar-galin að fara í þannig bruðl og trölla-framkvæmd, meðan verið er að skera niður í velferðar- og heilbrigðismálum.
Mér sýnist því eina vitið að menn fari að þora að viðurkenna nýjan veruleika og að sníða sér stakk eftir vexti og þá eiga menn að nýta þær byggingar sem fyrir eru á svæðinu og þar horfi ég sérstaklega til þess gull-fallega húss sem var sérhannað fyrir heilbrigðisþjónustu: Heilsuverndarstöðina. Að rífa innan úr því sálina, yrði til stór-skammar. Og fá í staðinn "monster" í miðbæinn!
Nei, fjandakornið! Við hljótum að vera búin að fá nóg af "hipp" og "kúl" kjaftæðinu í bland við ferkantaða excel-hugsun gróðapunganna og gadd-freðinna heila kerfis-kalla. Viðurkennum nú nýjan veruleika og sníðum okkur stakk eftir vexti og setjum velferðina og heilbrigðið í forgang. Svo minni ég alltaf á, að margt smátt gerir eitt stórt...eitt risastórt og blómlegt og þannig er búskapur þjóðarinnar bestur...og fallegastur í vit-rænunni.
Pétur Örn Björnsson