Fara í efni

UM STYTTINGU VEGA

Kópavogi 22. apríl 2012 Sæll Ögmundur.
Ekki er það gæfulegt fyrir Vinstri græna að þurfa að taka afstöðu til styttingar þjóðvegar1 um Húnaþing og Skagafjörð. Eftir að Jóni Bjarnasyni var úthýst úr ríkisstjórn er að vonum illt að ergja kjósendur í hans kjördæmi öllu meira nú um sinn og illt er að mismuna sveitarfélögum í þeim efnum hvar þjóðvegur 1 liggur. Ef vegurinn skal liggja í gegnum Blönduós og Varmahlíð um alla framtíð, þá er það ekki nema sanngirniskrafa að vegurinn verði færður aftur inn í þorpið á Djúpavogi og svo mætti bæta nokkrum kílómetrum við veginn með því að láta hann fara í gegnum Húsavík, um Tjörnes og Öxarfjörð og ná þannig Þórshöfn og Vopnafirði inn í kerfið. Þetta yrði svona byrjunin. Á sínum tíma var deilt um það hvar skyldi byggja nýja brú yfir Eyvindarána hjá Egilsstöðum. Margir voru þeir sem vildu hafa brúna neðar yfir ána og beina þannig umferð frá Seyðisfirði og þeim sem kæmu af Fagradal framhjá þéttbýlinu ef þeir ættu ekki erindi í Egilsstaði. En kaupfélagsvaldið með tilstirk framsóknar vildi fá alla umferðina framhjá verslunum sínum, hvort sem ferðamönnum og flutningabílstjórum líkaði betur eða verr. Því var brúin byggð á sama stað og sú gamla, sem var valin þarna staður þegar hestvagnar voru ennþá notaðir til flutninga og bílamenning á frumstigi. Þingeyingar þögðu þunnu hljóði þegar þjóðvegur 1 var fluttur frá hlaðinu á Grímsstöðum á Fjöllum og lagður skemmstu leið frá brúnni á Jökulsá á Fjöllum og austur á Biskups-háls. Möðrudalur er ekki lengur í þjóðleið eftir að vegurinn um Háreksstaðaheiði var lagður. Hvers eiga þeir að gjalda bem byggja þessar jarðir ef Blöndósingar og Skagfirðingar fá að hafa alla umferðina framhjá eldhúsglugganum hjá sér?
Mínar bestu kveðjur,
Sigurjón EVG í Hamraborginni