Fara í efni

UM UTANRÍKISMÁL OG ALDUR

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29/30.09.18.
Staðnæmumst við tvær nýlegar greinar þar sem utanríkismál og aldur koma við sögu. „Það steðja nýjar hættur að Íslandi í breyttum heimi" er fyrirsögnin á laugardagspistli Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra þessa blaðs, fyrir réttri viku. Tilefnið var fréttir af samningaviðræðum við erlenda fjárfesta um uppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn og að þar hefðu kínverskir fjárfestar komið við sögu.
Niðurlagsorðin í grein Styrmis eru þessi:„Sjálfstæði Íslands er hætta búin úr nýjum áttum í breyttum heimi. Sjálfstæði Íslands getur reyndar líka verið í hættu vegna þess að nýjar kynslóðir stjórnmálamanna virðast ekki hafa næga þekkingu á okkar eigin sögu til þess að skilja hvað er að gerast í kringum okkur hvort sem um er að ræða orkupakka ESB eða kínverska stórveldið sem læðist með veggjum í viðleitni við að endurheimta fyrri stöðu Kína á heimsbyggðinni. Þá er ekki um annað að ræða en að hin aldna sveit rísi upp!"
Þar kom aldurinn.

Ég skildi þessi orð svo að lífsreynslan ætti að hafa kennt okkur að varast það að undirgangast, hvort heldur væri, miðstýrða markaðskreddu eða ítök erlendrar valdstjórnar í innviðum Íslands. Þessu er ég sammála.
Sjálfum hafði mér brugðið við að lesa hraustlega yfirlýsingu ágæts sveitarstjórnarmanns sem greinilega gaf lítið fyrir varnaðarorð úr ranni reynslunnar en honum hafði mælst svo: "Auðvitað þekkjum við umræðuna um hina stórhættulegu. "auðmenn" sem vilja komast í fjárfestingar. Við óttumst hins vegar ekki aðkomu þeirra að hinu öfluga Ölfusi."

Um hin skrifin, sem fjalla um útlönd og aldur, hef ég meiri efasemdir. Þar er því fagnað sérstaklega, og þykir mikið þroskamerki af hálfu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem nú fari með forsætisráðuneytið, að leyfð hafi verið á Íslandi "myndarleg" heræfing NATÓ og önnur slík, væntanlega enn myndarlegri, í bígerð. Hér er vísað í leiðara Morgunblaðsins frá 25. september: "Flokkur fullorðnast". 

Ég get mér þess til að höfundur leiðarans sé vel að sér í stjórnmálum kalda stríðsins enda sækir hann þangað í gamalkunna þrætubók. Heimurinn sé að vísu breyttur en vinirnir hinir sömu og vélarnar til varnar óbreyttar. Þar hafi ekkert breyst, eða öllu heldur, þar megi ekkert breytast!

Þarna ætla ég að leyfa mér að efast um að rétt sé að leggja að jöfnu aldur og yfirvegun því staðreyndin er sú að heimurinn er ekki samur og áður var og þar hefur margt breyst og riðlast, sem aftur kallar á breytt viðhorf, tæki og tól.

Í vikunni sem leið var sýndur í Sjónvarpinu þáttur sem tekinn var í Írak um ofbeldið sem kynlífsþrælar Íslamska ríkisins höfðu sætt á yfirráðasvæði ISIS í Norður-Írak og Norðaustur-Sýrlandi fyrir fáeinum misserum. Rætt var við konu sem hafði mátt þola slíkt ofbeldi en einnig var rætt við ISIS-liða, geranda í ofbeldinu. Bæði viðtölin voru hrollvekjandi, hvort á sinn hátt.  Sjálfum finnst mér það slæm tilhugsun að "við", þ.e. bandamenn Íslands, skuli hafa stutt ISIS á þessu örlagaríka tímaskeiði.

Samkvæmt þrætubók kalda stríðsins var í framangreindum leiðara spurt hvar Vinstrihreyfingin grænt framboð hefði verið þegar ráðist var á Líbíu um árið; hvort VG hafi ekki setið þá í ríkisstjórn. Mikið rétt, en ófá voru þau sem mótmæltu, höfðu með öðrum orðum ekki fullorðnast samkvæmt kenningum leiðarahöfundar.
Í kjölfar þess að reynt var að eitra fyrir manni að nafni Sergei Skripal í enska bænum Salisbury fyrr á árinu ákvað hin fullorðna ríkisstjórn, sem nú situr, að afpanta miða á HM í fótbolta í Rússlandi. Sennilega ekki vegna þess að Skripal hafi verið valinn, af öllum fórnarlömbum ofbeldis í heiminum, til að taka upp hanskann fyrir. Skripal þessi var njósnari Rússa sem síðan seldi Bretum þjónustu sína til að njósna um sína fyrri húsbændur. Við stóðum með öðrum orðum varla  með fórnarlambinu Skripal heldur bandamönnum okkar í NATÓ sem í heimi hinna fullorðnu bar að sýna stuðning.

En hve langt erum við reiðubúin að ganga til að sýna Trump slíka hollustu, einræðisherranum Erdogan, May, Merkel eða Macron?
Hversu fullorðin viljum við verða?