UM VENESÚELA Á TRÖPPUM STJÓRNARRÁÐSINS
Ég er enginn sérfræðingur í sögu Venesúela. Hvorki um fortíð né samtíð.
Ég hef þó fylgst nokkuð með þróun mála þar, ekki síst eftir að Húgó Chavez komst til áhrifa og valda um aldamótin síðustu á þeirri forsendu að hann vildi jafna kjörin í landinu og nýta olíuauðinn í þágu fátækrar alþýðu Venesúela – láta hann ekki allan renna til auðstéttar landsins og olíuauðhringa.
Og svo mikið veit ég, að hvergi í veröldinni – í engu ríki á jarðarkringlunni – er meiri olíu að finna en einmitt í Venesúela, nokkuð sem John Bolton öryggismálafulltrúa Trumps Bandaríkjaforseta, var vel kunnugt um þegar hann lýsti því yfir á dögunum að það hlyti að vera sérstakt kappsmál að koma þessum auði tryggilega í hendur bandarískra olíufyrirtækja; kappsmál fyrir Bandaríkin og að sjálfsögðu íbúa Venesúela líka. Allir myndu græða ef við fáum alla olína, var boðskapur Johns Boltons.
Þetta veit ég þó. En svo er eitt sem ég hef grun um, nefnilega að óvíða hafi ráðamenn í einu ríki treyst sér til að ljá því stuðning að skipt yrði um ríkisstjórn í fjarlægu landi, að eins lítt athuguðu máli og þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hringdi í stjórnmálamann í Venesúela til að segja honum að ríkisstjórn Íslands ætlaði honum forsetaembættið í landi sínu. Sá sem sæti fyrir á fleti yrði að víkja enda hvorki sér að skapi né vini sínum Pompeo, utanríkisráðherra Trumps.
Yfirlýsingar þeirra Boltons og Guðlaugs eru staðreyndir á borði og vissulega merkilegar fyrir samtímasöguna.
En hvaða staðreyndir fleiri þekkjum við? Við vitum að ef heimsauðvaldið beitir ríki efnahagsþvingunum þá hefur það áhrif.
Það hefur áhrif ef söluandvirði af útflutningsafurðum er fryst á erlendri grundu.
Það hefur áhrif þegar milliríkjaverslun er torvelduð og endurfjármögnun lána stöðvuð; þegar hald er lagt á erlendar eignir, lyf fást ekki keypt eða ýmsar aðrar nauðsynjar, að ekki sé á það minnst þegar hrein spellvirki eru unnin eins og Venesúela hefur fengið að kenna á. Um allt þetta má lesa í gagnrýnum fjölmiðlum, ofbeldi bæði af efnahagslegum toga og svo bein skemmdarverk til að eyðleggja, valda erfiðleikum og upplausn í þessu aðþrengda landi.
Efnahagsþvinganirnar gagnvart Venesúela eru af þeirri stærðargráðu að sérfræðingar hjá Sameinuðu þjóðunum segja þær ekki standast grundvallarreglur um mannréttindi og séu auk þess alvarlegt brot á alþjóðalögum.
Idriss Jazairy, sérstakur sendiherra á skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, sem rannsakar neikvæð áhrif einhliða refsiaðgerða, sagði í yfirlýsingu hinn 31. janúar síðastliðinn að aðgerðir Bandaríkjanna, sem miðuðu að því að fella ríkisstjórn Venesúela, væru ólöglegar og myndu hafa skelfilegar afleiðingar fyrir almenning í Venesúela.
70 einstaklingar, margir heimsins bestu andans menn, með í broddi fylkingar Noam Chomsky, John Pilger, Tim Anderson, Sujata Fernandes og fleiri og fleiri, sendu frá sér yfirlýsingu í lok janúar þar sem Bandaríkjastjórn er vöruð við hvers kyns íhlutun í Venesúela hvað þá að þvinga fram stjórnarskipti. Þetta myndi leiða til enn meira ofbeldis og mannlegrar þjáningar en þegar er við að etja. Orðrétt segir í yfirlýsingu 70-menninganna:
“Í Venesúela hefur lengi verið djúp gjá á milli ríkra og fátækra og einnig á milli kynþátta. Þessi gjá hefur dýpkað á undanförnum árum og má að hluta til rekja það til þess að stjórnarandstaðan hefur reynt, að áeggjan Bandaríkjanna, að fella ríkisstjórn Madúros forseta með valdi. Stjórnarandstaðan hefur verið sundruð að þessu leyti en Bandaríkjastjórn hefur stutt við bakið á harðlínuöflum sem kynt hafa undir ofbeldisfullum mótmælum á götum úti og valdatöku hersins.”
70-menningarnir segja að lausnin sé ekki að koma einum frá og öðrum að, því eftir sem áður yrði þjóðin klofin og það séu friðsamlegar lausnir sem þörf sé á við slíkar aðstæður. Tilraunir til samninga hafi verið reyndar og er vísað í tilboð Páfagarðs haustið 2016 um að annast milligöngu. Sú tilraun hafi hins vegar ekki notið velvildar Bandaríkjastjórnar nema síður væri og hafi því farið út um þúfur.
Í Washington hafi menn viljað valdbeitingu. “Ef hins vegar Trump og bandamenn” svo aftur sé vitnað beint í orðsendingu 70-menninganna, “… ef Trump og bandamenn” - og takið eftir, hér er talað til okkar, því við erum í hópi bandamanna - “ef Trump og bandamenn halda fast við óábyrga stefnu sína gagnvart Venesúela, eru liklegustu afleiðingarnar blóðbað og ringulreið. Bandaríkjastjórn ætti að hafa dregið sína lærdóma af stjórnarskiptum með valdbeitingu í Írak, Sýrlandi, Líbíu og að sjálfsögðu af löngum og blóði drifnum valdbeitingarferli við stjórnarskipti í Rómönsku Ameríku.”
En nú spyr ég, hvað er til ráða? Getum við eitthvað gert? Það finnst utanríkisráðherra Íslands. Honum finnst að Ísland hafi hlutverki að gegna. Ekki með því að leggjast á réttlætis- og friðarsveif heldur til stuðnings ofbeldisöflunum.
Þegar ég byrjaði í fréttamennsku hjá Ríkissjónvarpinu fyrir um fjörutíu árum sinnti ég erlendum fréttum. Rómanska Ameríka kom mjög við sögu og þá ekki síst Mið-Ameríka. Ég minnist hrikalegra ofbeldisverka dauðasveita ríkisstjórnarinnar í El Salvador. Einhvern tímann var ég með þátt um ofbeldisverkin sem voru svo ljót að foreldrar voru beðnir um að halda börnum sínum frá skjánum. Sjálfum þótti mér þetta hræðilegt.
Það þótti hins vegar Ellliot Abrams ekki. Sá maður gerðist aðstoðar-utanríkisráðherra Reagans árið 1981 á því sem kallað var svið mannréttinda- og mannúðarmála. Hann tók að sér að hvítþvo stjórnvöld í El Salvador af ofbeldisverkum og sýna fram á að hlutdeild Bandaríkjanna væri engin. Löngu síðar, á tíunda áratugnum, komst sannleiksnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna að því að yfirgnæfandi meirihluti 22.000 morða og hryðjuverka í borgarastyrjöldinni í El Salvador hefðu verið framin af hersveitum sem Reagan-stjórnin veitti stuðning.
Abrams var hins vegar alltaf staffírugur og sagði að árangur stjórnvalda í El Salvador hefði verið stórkostlegur - "fabulous achievement".
Elliot Abrams nefni ég nú til sögunnar því í þann mund sem utanríkisráðherra Íslands skipaði nýjan forseta í Venesúela, kölluðu þeir Donald Trump forseti og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þennan sama Elliot Abrams að nýju til starfa, nú sem sérstakan fulltrúa sinn í málefnum Venesúela.
Haft var eftir Elliot Abrams að hann gæti varla beðið eftir því að hefja störf!
Við söfnumst hér saman til að mótmæla heimsvaldastefnu; ofbeldi og yfirgangi heimsauðvaldsins.
Við söfnumst hér saman til að mótmæla yfirgangi og ofbeldi Bandaríkjastjórnar og fylgifiska þeirra í NATÓ.
Og síðast en ekki síst þá er það engin tilviljun að við söfnumst saman fyrir framan Stjórnarráð Íslands.
Það gerum við til að mótmæla hlutdeild íslenskra stjórnvalda í valdaráni í Venesúela.
En eitt er víst að það rán fer ekki fram í okkar nafni.
Ekki í okkar nafni!