UMBOÐSMAÐUR ALÞINGIS Á OPNUM FUNDI
15.11.2013
Í dag var embætti Umboðsmanns Alþingis tekið fyrir á fundi hjá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Farið var yfir fjárhagslega stöðu embættisins og ýmis áhersluatriði í starfi þess.
Ég stýrði fundinum sem formaður nefndarinnar og sagði ég í upphafi á þá leið að það væri við hæfi að hafa þennan fund á opinni sjónvarpsrás þannig að allir gætu fylgst með honum. Þetta embætti ætti að tryggja réttindi borgaranna í opinni stjórnsýslu og þegar embættið væri sjálft til umræðu þyrfti einnig það að gerast á opinn gagnsæjan hátt.
Fundurinn var mjög upplýsandi. Þegar á heildina er litið hefur raungildi fjárveitinga til embættisns haldist óbreytt á undanförnum árum. Á þessu fjárlagaári kom tímabundið framlag til að vinna upp hala og standa straum af kostnaði við fræðsluefni. Nú er hins vegar gert ráð fyrir niðurskurði. Það myndi hafa í för með sér mannfækkun hjá embættinu og lengri biðtíma eftir úrlausn mála sem eru til meðferðar.
Forsætisnenfd Alþingis hefur gert tillögu um að úr þessu verði bætt. Á fundinum hvöttu einstakir þingmenn til þess að svo yrði gert.
Hér er slóð þar sem sjá má fundinn í dag: http://www.althingi.is/altext/upptokur/nefndafundur/?faerslunr=26