UMRÆÐA SEM VERÐUR AÐ HALDA ÁFRAM!
Sæll Ögmundur.
Í dag var haldin ráðstefna á vegum Landverndar í ráðstefnusal Þjóðminjasafns í tilefni af 80 ára afmæli Harðar Bergmanns. Hann er höfundur fjölmargra rita um samfélagsrýni, m.a.: „Umbúðarþjóðfélagið", 1989 og „Að vera eða sýnast: gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins", 2007, alveg ótrúleg þjóðfélagsgreining á ástandinu í samfélaginu á Íslandi sem varð staðfest í bankahruninu.
Þessa bók hefði íslenska þjóðin átt að kynna sér gaumgæfilega og lesa fyrir kosningarnar 2007. Þessi ráðstefna var hreint frábær. Egill Helgason blaðamaður og þáttastjórnandi var fundarstjóri fyrri hluta ráðstefnunnar.
Mikla athygli vakti erindi Svans Kristjánssonar sem fór stigvaxandi og var nánast dómsdagur yfir spillingunni sem fylgt hefur klíkustjórnmálum undir pilsfaldi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hann hafði til hliðsjónar hvernig lýðræðið og spurningin um nýja stjórnarskrá og þjóðaratkvæði geta skipt miklu.
Núverandi stjórnvöld vilja kæfa þessa umræðu og hafa fengið afturhaldsaman lögfræðiprófessor að leiða stjórnarskrármálið áfram en hætt er við að þessi endurskoðun stjórnarskrárinnar verði vart nema svipur hjá sjón.
Þorbjörn Broddason fór hægar af stað en vakti athygli á ýmsum punktum hjá Herði sem á sér hliðstæður í ritum erlendra fræðimanna. Hápunkturinn í erindi Þorbjarnar var yfirlit um valdatíma flokkanna 3ja á árunum 1944-2009: Sjálfstæðisflokks 84%, Framsóknarflokks 14% og Alþýðuflokks undir hlutleysi Sjálfstæðisflokks 2%. Þessir flokkar hafa stöðugt verið sem framkvæmdarvald að seilast inn á valdssvið löggjafarvaldsins og hafa auk þess dómsvaldið meira og minna í vasanum.
Þá flutti margt ungt fólk erindi mörg mjög athyglisverð með nýstárlegar nálganir að viðfangsefninu sem var samfélagsrýni í skjóli rita Harðar Bergmanns.
Óhætt má fullyrða að ungt fólk á Íslandi er meðvitað um að samfélag okkar er meingallað og það vill gera sitt til að koma þjóðfélagsþróuninni í betra horf. Mér fannst miður að sjá ekki fleiri á þessari ráðstefnu. Nánast öll sæti voru setin auk aukasæta en nokkuð pláss hefði verið til að fjölga lausum sætum. Þessi þjóðfélagsumræða VERÐUR að halda áfram.
Guðjón Jensson