Umræður um afbrot og refsingar
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með viðbrögðum í samfélaginu og á þessari heimasíðu við Hæstaréttadóminum um tveggja ára fangelsisdóm Árna Johnsen. Sumir telja dóminn of þungan m.a. Hafsteinn í ágætum pistli hérna fyrir stuttu þar sem hann telur dóminn allt of þungan í samanburði við ofbeldisbrot af ýmsu tagi. Ögmundur tók undir þetta sjónarmið þegar hann segir að fyrir ofbeldisverk eigi að dæma mun þyngri refsingu en fyrir önnur brot svo sem stuld. Þetta eru skiljanleg viðbrögð og heyrast oft. Ofbeldisbrot stefna lífi okkar og heilsu í hættu meðan auðgunarbrotin snerta eingöngu forgengilega hluti sem ætíð er hægt að endurheimta meðan því er ekki alltaf að heilsa með líf okkar og limi.
Ef við miðum refsimatið við þá viðleitni að koma í veg fyrir afbrot megum við ekki gleyma því að mörg ofbeldisbrot eru persónulegir harmleikir framin í hita augnabliksins án mikillar fyrirhyggju. Sum auðgunarbrot eru aftur á móti fyrirfram hugsuð þar sem jafnvel sérfræðikunnátta eða starfsaðstaða er hagnýtt til að féfletta samborgarana, oft stórum fjárhæðum, og því eðlilegt að viðurlögin taki mið af þessum ásetningi. Í þessu samhengi er dómurinn yfir Árna Johnsen alls ekki fráleitur þar sem trúnaðarstarf er nýtt í eigin þágu, brotin standa yfir í talsverðan tíma og brotaásetningur virðist afdráttarlaus. Þó megum við ekki einblína of mikið á nauðvörn samfélagsins þungar refsingar í baráttunni við afbrot. Rannsóknir sýna að jafnvel stórhertar refsingar hafa almennt ekki meira en tímabundin áhrif í mesta lagi á tíðni brota. Ástæðurnar eru margþættar og markast að hluta til af brotunum sjálfum einsog umræða okkar um ofbeldisbrotin hérna að ofan sýnir svo og af brotamönnunum sjálfum. Ef viðkomandi er tengdur líferni afbrota hefur það t.a.m. sýnt sig að draga úr varnaðaráhrifum viðurlaga.
Hafsteinn minnist einnig á kynferðisbrot gagnvart börnum og þær miklu þjáningar sem brot af þessu tagi valda fórnarlambinu. Þetta er auðvelt að taka undir og einnig það sjónarmið að stórherða þurfi refsingar til að uppræta slíkan ófögnuð. Refislöggjöfin tekur þó tiltölulega hart á brotum af því tagi en dómaframkvæmdin hér hefur lengi miðast við lægri mörkin og því varla þörf á hækkun efri refsimarka nema sem táknræna vísbendingu til dómstóla um þyngri dóma. Refsiþyngd hefur þó ekki verið helsti vandinn í þessum málaflokki að mínu mati. Mál af þessu tagi hafa því miður lengi viðgengist í okkar samfélagi en hafa komið meira upp á yfirborðið á síðustu árum. Ýmislegt bendir til að þolendur kynferðisbrota hafi átt erfitt uppdráttar með að leita réttar síns innan réttarkerfisins sem birtist m.a. í því að tiltölulega lítill hluti mála sem kemur upp hjá yfirvöldum endar með dómi yfir geranda. Hertar refsingar munu ekki breyta þessari mynd. Jafnvel er möguleiki á að sifjaspell verði síður kært ef vitað er að brotin leiða til langrar fangelsisvistar yfir fjölskylduföður eða forráðamanni. Fremur en að einblína á að herða refsingar væri nær að huga að málsmeðferðinni sjálfri svo og margvíslegum meðferðarúrræðum fyrir brotamenn af þessu tagi enda sýnir sig einsog Ögmundur bendir réttilega á að margir þeirra hafa sjálfir verið beittir kynferðislegri misnotkun í æsku. Meðferð á þeim sem leita á börn hefur sýnt sig að bera árangur sérstaklega ef gripið er í taumana gagnvart yngra brotafólki og því brýnt að leita leiða af því tagi. Ekki síður verðum við að koma til móts við þolendur brotanna eins og Hafsteinn bendir á og ekki aðeins aðstoða þá við að ná fram rétti sínum heldur einnig félagslegri og sálrænni reisn sinni. Réttarvörslukerfið gegnir þó afar mikilvægu hlutverki varðandi uppljóstrun brota, skilvirka málsmeðferð og yfirvegað refsimat í samræmi við eðli afbrota.
Helgi Gunnlaugsson