Fara í efni

Umskurður



Sæll Ögmundur.
Ég var að hlusta á kraftmikla ræðu þína í beinni útsendingu frá eldhúsdagsumræðum í sjónvarpinu. Flott og kraftmikil ræða. Ég hef fyrirspurn til þín. Ég las í Morgunblaðinu í morgun (12.mars) að Vinstri Grænir ætla að beita sér fyrir því að banna umskurð á stúlkubörnum á Íslandi. Vona ég innilega að sú tillaga nái í gegn og þetta skelfilega athæfi verði gert ólöglegt. En mín fyrirspurn er á þessa leið. Er ekki einnig full ástæða til að banna umskurð á sveinbörnum? Hafa Vinstri Grænir athugað með að gera það athæfi einnig ólöglegt?
Kveðja Hafþór.

Sæll Hafþór Örn.
Ég þakka þér hlý orð. Varðandi spurningu þína um umskurð þá beinist baráttan að því að banna umskurð stúlkna en ekki sveinbarna. Umskurður drengja er ekki sambærilegur við umskurð stúlkna sem er hræðileg limlesting og brot á mannréttindum sem verður að útrýma þegar í stað. Umskurður stúlkna er grimmdarverk sem aldrei verður réttlætt með skírskotun til fornra hefða og siða. Þetta kann að byggjast á gamalli hefð í sumum samfélögum en er svo alvarlegur ósiður að mannréttindasinnar um heim allan beina nú kröftum sínum að því að uppræta hann.
Kveðja, Ögmundur