Fara í efni

UNDIRLÆGJUHÁTTUR STÓRIÐJUAFLANNA AFHJÚPAÐUR !

Sæll Ögmundur !
Haffi sem stundum er að skrifa inn á síðunni hjá þér er að undrast á ráðstefnunni sem Steingrímur J. vakti athygli á í Mogganum og velta fyrir sér liðinu sem þar á að safna saman undir merkjum stóriðjustefnunnar og útsölu á orkunni og náttúrunni. Mér finnst þetta nú allt saman frekar einfalt. Liðið sem hefur bullandi efasemdir um það að við Íslendingar getum yfir leitt klárað okkur sjálfir og rekið hér okkar eigið og gott samfélag leggst alltaf flatt ef einhverjir útlendingar sýna okkur áhuga. Nú finnst mönnum svo merkilegt að Economist skuli hafa uppgötvað Ísland að ólíklegasta fólk leggur nafn sitt við svona útsölu kynningu á landinu og náttúrunni. Nóg ódýr orka á útsöluverði og skattaafslættir í kaupbæti. "Komiði bara, við erum til sölu og ekki á hæsta verði, nei heldur á útsöluverði". Þetta er það sem verið er að segja á mannamáli. Svo er því logið blákalt að Ísland eigi óþrjótandi eða ómælanlega orku, nóg fyrir alla Evrópu og hún sé öll alveg svakalega umhverfisvæn.

 Það er aldeilis kostaboð að fá að koma og hlusta á Halldór, Árna fjármálaráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu tala undir þessum formerkjum, í einn dag, fyrir 160 þúsund eða meira. Eru það ekki eins og hálfs mánaðar laun hjá starfsfólki á elliheimilunum? Í hvaða heimi lifir þetta fólk? Heldur það að allir Íslendingar séu sálarlausir asnar sem sé skítsama um landið og falli flatir fyrir því að einhverjir útlendingar vilji koma hér og kaupa upp orkuna og spilla náttúrunni með afslætti í boði Framsóknar ? Halda menn virkilega að málflutningur Halldórs Ásgrímssonar verði áhugaverðari þó að það kosti 160 -170. þúsund krónur inn? Hefur engum dottið í hug að borga mönnum svipað fyrir að leggja það á sig að hlusta á hann?

 Mér finnst ég næstum búa í einhverju bananalýðveldi þegar svona hlutir afhjúpa undirlægjuhátt ríkisstjórnarinnar og stóriðjuaflanna hér í þessu landi. Og svo kemur formaður Samfylkingarinnar og er svona slaufa á þessu öllu saman og til þess að þetta séu nú ekki allt saman kallar. Eins gott að hún er gjaldgeng í félagsskapnum og studdi Kárahnjúkavirkjun. Svo virðist þetta lið vilja að við göngum inn í Evrópusambandið sem endurspeglar sömu minnimáttarkennd og vantrú á að við getum klárað okkur sjálf án erlendra álvera og stjórnar frá Brussel. Það er hins vegar eitt sem vekur athygli mína að sjálf Álgerður er ekki með í prógramminu. Er hún að klikka á stefnunni eða ekki lengur nógu fín fyrir liðið?
Nei, ætli maður flytji ekki bara aftur til Svíþjóðar.
S. Pálsson   

Þakka þér bréfið S.Pálsson. Fyrir alla muni ekki fara aftur til Svíþjóðar. Við skulum safna liði og og breyta um kúrs í Stjórnarráðinu. Það gerist aðeins með því að VG fái stóraukinn styrk. Vinnum að því að svo verði!
Kveðja,
Ögmundur