Ungfrú Hornafjörður
Reykjavíkurfélag VG efndi til umræðufundar í gær um stjórnmál líðandi stundar og framtíðarspekúlasjónir. Framsögumenn voru Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands. Báðum tókst prýðilega upp fyrir sinn hatt. Hann var hins vegar ekki sömu gerðar eins og vænta mátti.
Hannes dvaldi við ýmsa þætti í sögu liðinna alda og benti á snertifleti í afstöðu og málflutningi frjálshyggjumanna annars vegar og "hugsjónasósíalista" hins vegar á öldinni sem leið. Hinir síðarnefndu hefðu ekki haft rangt fyrir sér í öllu! Síður en svo taldi Hannes. Eftir að kaldastríðspólitíkin væri liðin undir lok yrði að viðurkennast að hermangið hafi verið svartur blettur á þjóðinni og þá yrði heldur ekki framhjá því horft að uppbygging og framfarir á tuttugustu öld hefðu byggt á gegndarlausri rányrkju eins og umhverfissinnar nú á dögum hefðu opnað augu manna fyrir. Hannes fjallaði einnig um arðrán á alþýðu manna og vísaði þar í einokunarverslun og stórbændastétt, sem um aldir hefði ráðið lögum og lofum og aflað á kostnað fátækrar alþýðu. Tuttugasta öldin hafi verið mikið umbrotaskeið en svo var að skilja að það hafi ekki verið fyrr en undir það síðasta að verulega hafi farið að rofa til og skynsemin haldið innreið sína í íslenskt samfélag og efnahagskerfi. Hvenær skyldi það nú hafa verið nema að sjálfsögðu á vordögum árið 1991. Þá varð Davíð Oddsson forsætisráðherra landsins! Nú var farið að búa í haginn fyrir uppbyggingu á grundvelli markaðslögmála. Hannes féll þó ekki í þá gryfju að boða kenningu sína hráa og lagði sig í líma við að sýna að allar götur frá Adam Smith hefðu markaðshyggjumenn séð aðrar víddir í tilverunni en þær sem lúta að viðskiptasamböndum.
En hvað með framtíðina? "Milljóndollaraspurningin" sem brennur á allra vörum, sagði Hannes, er að sjálfsögðu sú hvað Davíð geri í haust. Heldur hann áfram eða hættir hann? Þessi spurning væri nú mál málanna. Ég tel að hann haldi áfram, sagði Hannes og bjart bros færðist yfir andlitið.
Katrín Jakobsdóttir kvaðst ekki telja þessa spurningu milljón dollara virði. Með fullri virðingu fyrir Davíð Oddssyni sem einstaklingi þá hvorki stæði né félli veröldin með þeim manni. Það sem máli skipti væri sú stefna sem fylgt væri við efnahagsstjórnina og á öðrum sviðum þjóðlífsins. Því miður væri ekki fyrirsjáanleg nein stefnubreyting þótt mannaskipti yrðu á stóli forsætisráðherra í haust. Þetta væri svipað og í fegurðarsamkeppnunum. Þar væri stuðst við tiltekna staðalþyngd og kvarða í líkamsbyggingu. Að þeim uppfylltum skipti ekki sköpum hvor stæði á verðlaunapallinum, ungfrú Reykjavík eða ungfrú Hornafjörður.
Katrín fjallaði um ýmsa þætti í samtímanum og vék sérstaklega að umræðunni um fjölmiðlamálið. Taldi hún mikið hafa skort á dýptina í þeirri umræðu og hefði þurft að hafa hana heildstæðari og láta hana taka til Ríkisútvarpsins einnig.
Þessi fundur var bráðskemmtilegur og vekjandi og eiga báðir frummælendur þakkir skildar fyrir skemmtilegt innlegg. Einhvern veginn stendur þó upp úr í endurminningunni tilhugsunin um allt það írafár og pústra í pólitíkinni nú um stundir vegna stólaskiptanna í haust. Þótt þeim sem næst standa finnist mikil tíðindi vera í vændum þá snýst þetta ekki um annað þegar allt kemur til alls en að ungfrú Reykjavík víkur fyrir ungfrú Hornafirði.