Fara í efni

UPPLÝST VERÐI UM AÐKOMU ÍSLENDINGA AÐ INNRÁSINNI Í ÍRAK !


Dreift hefur verið á Alþingi þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt þremur öðrum þingmönnum VG þar sem farið er fram á að Alþingi samþykki að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að opinbera öll skjöl og allar upplýsingar sem liggja fyrir og snerta ákvörðun um að setja Ísland á lista „hinna viljugu þjóða"  sem ákafast studdu innrásina í Írak árið 2003.

Greint var frá listanum yfir „viljugar þjóðir",  „coalition of willing nations", á fundi með fréttamönnum í bandaríska utanríkisráðuneytinu, 18. mars 2003. Á fréttamannafundinum taldi talsmaður ráðuneytisins, Richard Boucher, upp þau ríki sem í hlut áttu, sagði að þau hefðu verið spurð hvert um sig og fengist hafi afgerandi svör.

Viljið þið skráningu?
Talsmaðurinn svarar:  „Það eru 30 ríki sem hafa samþykkt að verða hluti bandalagsins um skjóta afvopnun Íraks. Ég þyrfti segja að þetta eru ríki sem við höfum farið til og sagt, „Viljið þið skráningu á listann" og þau hafa sagt, „Já." Ég skal lesa þau upp fyrir ykkur í stafrófsröð, svo að við fáum hinn endanlega lista skrásettan. Þau eru: Afganistan, Albanía, Ástralía, Aserbaídsjan, Kólumbía, Tékkland, Danmörk, El Salvador, Erítrea, Eistland, Eþíópía, Georgía, Ungverjaland, Ísland, Ítalía, Japan, Kórea, Lettland, Litháen, Makedónía, Holland, Níkaragúa, Filippseyjar, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Spánn, Tyrkland, Bretland og Úsbekistan. Hvert ríki leggur sitt af mörkum á þann hátt sem það telur helst viðeigandi. Sum af þessum ríkjum, ég geri ráð fyrir að öll þessi ríki hafi talað opinberlega um hvað þau eru að gera. ...)

Ríkisstjórn, ráðherrar, embættismenn...?
Opinberlega hefur því verið haldið fram að á ríkisstjórnarfundi þennan sama dag hafi ákvörðun verið tekin um stuðning Íslands við innrásina. Það er augljóslega málum blandið og um það deilt að hvaða marki ríkisstjórnin yfirleitt kom að málinu eða einstakir ráðherrar eða embættismenn. Sama gegnir um aðkomu utanríkismálanefndar og Alþingis sem lögum samkvæmt hefði átt að upplýsa áður en svo afdrifarík ákvörðun var tekin. Um þessa þætti er margt á huldu þar sem engar opinberar almennar umræður fóru fram í aðdraganda ákvörðunar um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak.

Í Bretlandi og víðar fer nú fram rannsókn á hlut stjórnvalda og embættismanna og hefur komið fram við vitnaleiðslur að margt var öðruvísi en fram kom á yfirborðinu, meiri efasemdir um réttmæti innrásarinnar hafi verið í stjórnkerfinu en upplýst hefur verið um til þessa og blekkingum hafi verið beitt.

Framtíðarinnar vegna
Eðlilegt er að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna, svo að deilur þurfi ekki að fylgja okkur inn í framtíðina hvað staðreyndir máls áhrærir og er því með þessari þingsályktunartillögu óskað eftir aðgengi almennings að öllum skjölum og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir og varða ákvörðun um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak árið 2003.
Sjálf þingsályktunartillagan er hér: http://www.althingi.is/altext/138/s/0334.html