ÚR GLESRHÚSI FRÚ INGIBJARGAR
Fjölmiðlar ríkisins stukku á það þegar hringt var og tilkynnt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, væri tilbúin að tjá sig um Evrópusambandið og Icesave, konan sem þorði ekki að greiða atkvæði með EES samningnum á sínum tíma. Og hún fékk að mala, mest til að upphefja sjálfa sig, en líka að niðurlægja aðra. Ekki félaga sína sem fóru land úr landi til að skapa forsendur fyrir því að íslenskir bankamenn gætu platað útlenda sparifjáreigendur til að leggja fé inn á íslenska reikninga, nei hún lagði sig fram um að niðurlægja Jón Bjarnason, ráðherra, og draga í efa væntanlegar embættisfærslur hans vegna skoðana hans á Evrópusambandinu. Getur þessi kona ekki hætt afskiptum af stjórnmálum, eða pólitískum viðskiptamálum? Mér hefur stundum fundist hryggilegt að sjá hönnuði útrásarinnar, þá sem lögðu grunn að regluverkinu sem búið er að koma landinu á hausinn, tjá sig og setja fram meiningar um endurreisnina og gildir þá einu hvort þetta eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Egilsson, Þór Sigfússon, eða Árni Páll Árnason. Þeir ættu stundum að temja sér að þegja, eins og Björgvin G. Sigurðsson, sem hefur látið lítið fara fyrir sér opinberlega. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem á átján mánuðum ferðaðist meira, en aðrir utanríkisráðherrar hafa nokkru sinni gert á jafn stuttum tíma hlýtur að spyrja sig, í einrúmi, hvað hún hefði getað gert öðru vísi sem gagnast hefði mátt íslensku alþýðufólki. Og fjölmiðlarnir mættu gjarnan byrja á að spyrja hana spjörum úr um embættisfærsluna fyrir hrun og hennar þátt í blekkingaleik stjórnvalda og bankamanna. Í hennar stöðu segir það mikla raunasögu að hún skuli nota takmarkaðan tíma sinn til að skíta út samstarfsflokk Samfylkingar og ákveðinn ráðherra VG fyrir væntanlega embættisfærslu. Guð forði þjóðinni frá því að draumur þessa fyrrverandi ráðherra um að leiða ESB viðræðurnar verði að veruleika. Mér finnst að kæmi slík tillaga fram þá slítið þið stjórnarsamstarfinu Ögmundur. Þar fyrir utan má Icesave ekki fara óbreytt í gegn.
Kveðja,
Hafsteinn