Út í hafsauga með frjálshyggjudekur Ingibjargar Sólrúnar
Ég tek undir með Árna Guðmundssyni að það er sorglegt að sjá hugmyndirnar sem komu fyrir skömmu úr Samfylkingunni um að einkavæða grunnskólana. Undarlegast er að sjá þær kynntar undir forystu Ingibjargar S. Gísladóttur sem hluta af nýsköpun pólitískrar hugmyndafræði Samfylkingarinnar. Varla getur þetta orðið jafnaðarstefnan sem hún boðaði fyrir 21. öldina? Ég las líka viðtal við hana í Viðskiptablaðinu þar sem ég skildi ekki betur en Ingibjörg væri að boða stuðning Samfylkingarinnar við skólagjöld í grunnnámi í háskólum. Ég skil þetta ekki. Fyrir mér er það nýfrjálshyggjan endurborin þegar lagt er til að einkavæddur grunnskóli á borð við Áslandsskóla og skólagjöld í háskólanámi verði hluti af jafnaðarstefnu framtíðar. Ærlegir Samfylkingarmenn verða að henda þessu út í hafsauga. Málflutningur af þessu tagi mun hafa vond áhrif fyrir allan vinstri vænginn því hann blæs lífi i frjálshyggjuruglið sem ég hélt að væri búið að ganga frá. Ég veit ekki hvort þessi skrítna pólitík er liður í að ná völdum í Samfylkingunni en það er að minnsta kosti ljóst hvar við gamlir Hafnfirðingar munum standa. Ég bæti því svo við að ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki nóg að Samfylkingin og Vinstri-grænir vinni saman, heldur vil ég að flokkarnir sameinist. Össur er heiðarlegur jafnaðarmaður á nokkuð góðu pólitísku róli og við róttækir menn í og utan vinstri flokka getum sannarlega unnið með honum. En frjálshyggjuhugmyndir eins og þær sem Ingibjörg S. Gísladóttir er að boða koma algerlega í veg fyrir möguleika á samvinnu á vinstri vængnum.
Magnús Trausti.