“ÚT ÚR KÓFINU”: VANGAVELTUR UM MILDA OG HARÐA AÐFÖR AÐ VEIRUNNI
Almennt séð hef ég verið ánægður með nálgun íslenskra heilbrigðisyfirvalda í viðureigninni við kórónaveiruna. Þau hafa til þessa reynt að forðast að grípa til eins strangra aðgerða og þau ríki hafa gert sem lengst hafa gengið, það er að loka landamærum og setja útgöngubann. Ég hef viljað hafa í heiðri það sjónarmið að halda atvinnulífinu gangandi eins og kostur er því fullkomið stopp þar kæmi fljótlega í bakið á okkur og gæti leitt til þess að heibrigðiskerfið hryndi fyrr en síðar.
Sú hugsun gerist hins vegar ágeng að þetta kunni að vera röng nálgun. Í morgun var hvatt til að senda barnabörnin í skóla nema í þeim bekkjum þar sem vitað er að smit hafi komið upp í fjölskyldum barnanna. Er þetta rétt? Er þessi milda leið ef til vill of mild? Hvers vegna ekki loka skólunum alveg? Margt bendir til þess að þrátt fyrir ströngustu aðgerðir kunni veiran að fara hraðar en við ráðum við. Spyr sá sem ekki veit en telur að alltaf sé hollt að heyra rök með og móti.
Ég hef staðnæmst við athygilsverð skrif í þessu sambandi, annars vegar eru það skrif Hauks Más Helgasonar um”leiðirnar tvær út úr kófinu” og hins vegar viðtal blaðamannsins Erics Lluents við Mathew Fox, prófessor í faraldsfræði við háskóla í Boston í Bandaríkjunum þar sem hann gagnrýnir nálgun íslenskra stjórnvalda. Hér er viðtalið á ensku: https://elfaro.is/2020/03/20/matthew-fox-on-covid19-the-approach-that-iceland-has-chosen-to-take-is-a-risky-strategy/, og íslensk þýðing þess hér: http://thannigad.com/2020/03/21/su-nalgun-sem-island-hefur-valid-er-ad-vissu-leyti-ahaettusom-vidtal-vid-matthew-fox-faraldursfraeding-vid-boston-haskola/.
Hér er fyrrnefnd grein Hauks Más Helgasonar: http://thannigad.com/2020/03/22/peningana-eda-lifid/
Myndin að ofan er tekin af heimasíðu HMH.