Út úr skápnum sveitarstjórnarmenn!
Blessaður Ögmundur.
Í grein á heimasíðu þinni segir Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi VG að sveitarstjórnarmenn hafi “legið undir nokkru ámæli fyrir athafnaleysi, jafnvel sinnuleysi um velferð þeirra 45 þúsund grunnskólabarna sem enga kennslu fá – og hafa ekki fengið á fimmtu viku.” Ennfremur segir hann að á spjallsíðu vinstri grænna hafi “heyrst hljóð úr horni”, m.a. í sinn garð og annarra sveitarstjórnarmanna úr röðum VG. Og Árna finnst hljóð úr horni eðlilegt “því fimm vikna verkfall allra grunnskólakennara í landinu er grafalvarlegt mál og því von að spurt sé hvað við sveitarstjórnarmenn séum að hugsa.”
Sem félagi í VG fagna ég því að heyra loksins frá Árna Þór Sigurðssyni – það er lágmarkskrafa að menn geri grein fyrir sjónarmiðum sínum á opinberum vettvangi og ég tel að aðrir fulltrúar VG væru menn að meiri að taka hann sér til fyrirmyndar og opinbera afstöðu sína sem allra víðast og ekki bara á heimasíðu þinni. Ekki svo að skilja að hún sé ekki prýðileg heldur hitt að hún er því miður ekki enn orðin “blað allra landsmanna” eins og gamalgróinn samkeppnisaðili þinn á fjölmiðlamarkaðnum hefur löngum gert tilkall til. Afstaða VG og fulltrúa til kennaradeilunnar og til málefna menntamála barna almennt á sannarlega erindi til allra landsmanna. Það er aftur á móti allt annar handleggur að ég er ósammála Árna í flestu.
Og vel á minnst – og af því að ég er nú gildur limur í Vinstrihreyfingunni – getur þú vísað mér á “spjallsíðu” VG sem Árni Þór vísar í og þar með þeirrar umræðu sem þar hefur fram um framgöngu sveitarstjórnarmanna í kjaramálum kennara og málefnum barna og foreldra sem bíða þess með vaxandi óþreyju að skólar landsins taki til starfa á nýjan leik.
Kveðja, Örnólfur
Heill og sæll og þakka þér bréfið og vangaveltur þínar. Varðandi spjallrásina þá er hún samræðuvettvangurr félaga í VG og munu starfsmenn flokksins án efa taka þér ljúfmannlega þegar þú innir þá nánar eftir þessu.
Kveðja, Ögmundur