UTANRÍKISRÁÐHERRA FÆRT HVÍTA BANDIÐ
Alvarlegasta ógn sem steðjar að mannkyninu er án efa misskiptingin í heiminum og sú örbirgð sem hrjáir drjúgan hluta mannkynsins. Á hverjum degi deyja 30 þúsund börn af völdum fátæktar. Í dag, 1. júlí, er fyrsti baráttudagurinn af nokkrum sem kenndur er við „hvíta bandið“, tákn um þá herör sem skorin verður upp um allan heim af verkalýðssamtökum, félagasamtökum og almenningi gegn þessu misrétti. BSRB tekur þátt í þessu átaki bæði beint og með aðild sinni að alþjóðasamtökum launafólks sem beita sér af alefli í þessari baráttu. Davíð Oddssyni, utanríkisráðherra, var í dag afhent ályktun stjónar BSRB þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þeirri viðleitni að brúa bilið á milli ríkra og snauðra í heiminum. Í samþykkt BSRB segir “að orsakir fátæktar” séu “margslungnar og að forðast beri alhæfingu í þeim efnum. Forsenda þess að fjármunir í almannaþágu nýtist sem skyldi er opið og upplýst lýðræðissamfélag”.
Í ályktun BSRB er gagnrýnisorðum beint að Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Þótt fagna beri niðurfellingu skulda hjá sumum fátækustu ríkjum heimsins fylgi sá böggull skammrifi að þeim séu sett skilyrði sem þvingi þau að selja verðmætar eignir sínar og einkavæða grunnþjónustu samfélagsins. Þar komi fyrrnefndar stofnanir við sögu: “Skilyrði þeirra hafa jafnan verið að „þiggjendurnir“ markaðsvæði efnahagskerfi sín og einkavæði þar með ýmsa grunnþjónustu samfélagsins. Þetta hefur þýtt að fátækar og skuldugar þjóðir hafa sett opinberar rafmagns- og vatnsveitur á markað og annað það sem fjölþjóðlegir auðhringir vilja eignast og hagnast á.”
BSRB hvetur íslensk stjórnvöld til þess að tryggja “að fulltrúar Íslands í alþjóðastofnunum og alþjóðasamstarfi beiti sér af alefli til stuðnings fátækum þjóðum og er þar lykilatriði að við stillum okkur jafnan upp við hlið þeirra sem vilja verja almannaþjónustuna fyrir gróðaöflum og vilja efla hana og bæta í þágu almannahagsmuna. Ávinningurinn af niðurfellingu skulda á að skila sér í bættum hag almennings, ekki í auknum gróða stórfyrirtækja. Þá leggur stjórn
Á vefsíðu BSRB, bsrb.is er að finna í heild sinni ályktun bandalagsins sem afhent var utanríkisráðherra í dag og einnig vefslóðir alþjóðasamtaka sem aðild eiga að þessu átaki, auk margvíslegra upplýsinga um misskiptingu auðsins í heiminum.
Sjá ályktun BSRB í heild sinni
Sjá grein um Útkall á alheimsvísu: Aðgerðir gegn fáttækt á vef BSRB en þar er að finna margar sláandi staðreyndir um fátæktina í heiminum