ÚTHLUTUNARSTJÓRI NEFSKATTS, EINKAVINAVÆÐING FRAMUNDAN?
Sæll Ögmundur.
Ég er tilneydd að vekja athygli þín á því hvernig RÚV frumvarpið er hugsað í reynd úr því aðrir gera það ekki. Þrátt fyrir langar umræður og strangar hafa menn ekki komið auga á hvernig frumvarpshöfundurinn, lögmaður af virtari sortinni, hugsar sér þetta dæmi. Í stuttu máli snýst málið um að tryggja einakaðilum hlutdeild í nefskattinum sem almenningur verður þvingaður til að greiða. Þetta gerist með því að RÚV verður skipt í almannaþjónustufyrirtæki og samkeppnisrekstur með fullri aðgreiningu. Undir samkeppnishattinum getur RÚV, eða útvarpsstjóri, ákveðið að stofna fyrirtæki með öðrum, og nú skal ég taka fyrir þig dæmi: Morgunblaðið, Síminn og Páll Magnússon ákveða að koma á fót framleiðslufyrirtæki sem hefur að markmiði að framleiða íslenskan spennuþátt í tíu þáttum. Morgunblaðið leggur fram 100 milljónir króna í fyrirtækið, Síminn 100 milljónir og Páll Magnússon leggur til aðstöðu, tæki og “know how” sjónvarpsins fyrir 100 milljónir króna. Fyrirtækið Mosírúv framleiðir svo þessa tíu þætti sem fjármagnaðir eru af KB banka. En þá þarf að fá einhevrn til að kaupa þættina og greiða bæði hagnað og fjármagnskostnað! 365 miðlarnir hafa ekki áhuga og þættirnir seljast ekki fyrsta kastið á erlendum vettvangi. Kemur þá ekki sjónvarpið sterkt inn. Páll Magnússon ákveður að kaupa þættina tíu af Mosírúv fyrir hluta af nefskattinum sem öllum er gert að reiða fram. Það er ekkert vandamál að verja slík kaup. Þættirnir eru íslenskir og uppfylla skilgreiningu “public service”. Eina vandamálið er kannski að verja það flokkspólitískt að leggja fyrst á nefskatt og búa svo þannig um hnútana að einkafyrirtæki geta nánast orðið áskrifendur að hluta þessa sama nefskatts. Með sýningar- og dagskrárvaldi RÚV (“public service” hlutans) og möguleikanum á að stofna framleiðslufyrirtæki vegna skemmtiefnis, eða frétta (ekkert útilokar það), í samstarfi við einkaaðila verður til tvíhöfða þurs og afskaplega valdamikill útvarpsstjóri. Þetta gæti skýrt hlutleysislegt yfirbragð Morgunblaðsins í RÚV málinu og afstöðu margra þeirra sem vilja selja RÚV. Hvað finnst þér um þessa framtíðarsýn Ögmundur? Að skattleggja fyrst lýðinn, einkavinavæða svo nefskattinn og hella svo “public service” glassúr yfir tertuna!
Kv.
Ólína
Þakka þér bréfið Ólína. Þú spyrð hvað mér finnist um þessar vangaveltur. Mér finnst þær athyglisverðar. Mjög athyglisverðar.
Kv.
Ögmundur