ÚTIFUNDUR Í OSLÓ: ÞJÓÐARMORÐINU Á GAZA ER EKKI LOKIÐ
Útifundur við þinghúsið í Osló í dag til stuðning Palestínu var kröftugur og áhrifamikill. Fundarstjóri var Deepa Driver samstarfskona mín í Institute for the Public Interest (IPI) en það er stofnun eða samtök sem eru að fæðast smám saman. Áður hef ég minnst á IPI og mun gera betur síðar. Þriðji aðilinn sem stendur að þessari stofnun er John Jones og hafði hann veg og vanda að skipulagi þessa fundar í dag og einnig að því sem í vændum er hér í Osló.
Útifundurinn er haldinn í aðdraganda ráðstefnu í Osló á morgun sem Institute for the Public Interest stendur að ásamt norsk/sænsku friðarsamtökunum Lay Down Your Arms. Þar verður rætt um stríð og frið með áherslu á Palestínu og þjóðarmorðið á Gaza.
Á útifundinum í dag talaði Haim Bresheeth, prófessor, stjórnarmaður í Jewish Network for Palestine. Hann sést óljóst á myndinni ásamt Deepu Driver sem áður er nefnd.
Fleiri töluðu á þessum fundi, Geroge Katrougalos, sérfæðingur SÞ um alþjóðaskipan (International Order), fyrrum utanríkisráðherra Grikklands og um árabil þingmaður hjá Evrópuráðinu. Stefania Maurizi, rannsóknarblaðakona frá Ítalíu sem hefur rannsakað vopnaflutninga Evrópuríkja til Ísraels
Þarna talaði einng Dominique Pradalié, forseti Alþjóðasambands fréttamanna en meginstefið á fundinum sneri að fjölmiðlum og þeirri lífsnauðsyn að þeir verði ekki kæfðir og kúgaðir til að þegja um sannleikann. Á Gaza hefur fjöldi fréttamanna verið drepinn og sagði forseti Alþjóðasambands fréttamanna að fatnaður til að einkenna fréttamenn væri í Palestínu beinlínis orðinn hættulegur því Ísraelsher dræpi fréttamenn jafnvel öðrum fremur.
Þarna talaði einnig Raji Sourani forstöðumaður Mannréttindastofnunar Palestínu . Þá var þarna einnig í ræðustól Robert Lipton frá Jewish Voice for Peace í Bandaríkjunum. Enn er einn ræðumaður ónefndur, George Rashmawi, formaður heildarsamtaka Palestínumanna í Evrópu.
Þetta var öflug sveit og ræðurnar hver annarri betri.
Þjóðarmorðinu er ekki lokið var sagt á þessum fundi. Þótt skothríðinni linni um skeið er fólk á þessari stundu að deyja úr hungri og kulda á Gaza.
Fundarmönnum á köldum vetrardegi í Osló hætti að vera kalt.
---------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/