ÚTÚRDÚR HÖLLU ODDNÝJAR OG VÍKINGS HEIÐARS
Snúinn er aftur á sjónvarpsskjáinn þáttur þeirra hjóna Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur og Víkings Heiðars Ólafssonar. Þar með hefur meðaltalsgæðastuðull Sjónvarpsins hækkað verulega og er það vel. Veitti ekki af kann sá að segja sem er orðinn þreyttur á myndum í Sjónvarpinu sem varað er við að börn og ungmenni sjái sökum ofbeldis og illvirkja.
Útúrdúr, einsog þátturinn heitir, segir mér tvennt. Í fyrsta lagi að hægt er að framleiða hágæðaefni með litlum tilkostnaði ef virkjaðir eru miklir hæfileikar og frjótt ímyndunarafl. Í öðru lagi að talað orð og tónar geta orðið skemmtilegt sjónvarpsefni ef framreitt er af hugkvæmni.
Skemmtilegar voru vangaveltur um hina "kollektívu hlustun" og hverju tíðarandinn fær ráðið í áheyrendasalnum svo og um ýmis tilbrigði þagnarinnar.
Útúrdúr er kannski réttnefni á þessum dagskrárlið að því leyti að þátturinn er frábrugðin því efni sem sem myndar uppistöðu sjónvarpsefnis sem hér er á boðstólum - eins konar útúrdúr frá hinu hefðbundna.
En fyrir þáttinn fær Sjónvarpið prik og bestu þakkir. Og þáttastjórnendurnir uppskera lof og þakkir.
Áður hef ég vikið að þáttum þeirra Víkings Heiðars og Höllu Oddnýjar, sbr. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/rettlaeting-ruv