Útvarp Reykjavík, klukkan er 7, nú verða sagðar fréttir:
Fréttirnar les Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Í fréttum er þetta helst: Rífandi gangur er á afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins. Mikil ánægja er meðal stjórnarandstöðunnar með þá lýðræðislegu meðferð sem frumvarpið hefur fengið og er það mál manna að sjaldan hafi þinginu verið betur stjórnað. Forseti þingsins, Halldór Blöndal, hefur auk lýðræðislegra vinnubragða tekið upp þá skemmtilegu nýbreytni að fara í “falinn hlut” með stjórnarandstöðuþingmönnum og við þann leik hefur hann einkum notað dagskrá þingsins. Er það samdóma álit þingmanna að leikurinn sem tekur að lágmarki um 90 mínútur, vegna þess hve forseti er fundvís á ýmsa króka og kima, hafi stóreflt starfsandann og margfaldað skilvirkni þingsins.
Öryggisventill þjóðarinnar, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hefur breytt ferðaáætlun sinni og er væntanlegur til landsins í kvöld. Opinberri heimsókn ventilsins til Mexíkó er lokið sem betur fer og samkvæmt ferðaáætlun var förinni heitið beint til Kaupmannahafnar, en auðvitað með viðkomu í París, en í Köben ætlaði hann að spóka sig í konunglegu brúðkaupi á föstudag. Nú hefur áætluninni verið breytt sem fyrr segir og skreppur nú forsetinn heim ásamt föruneyti frá París til Íslands síðar í dag.
Baugstíðindin öll með tölu, 1, 2 og 3, hafa borið út þá gróusögu að Ólafur íhugi alvarlega að skrifa ekki undir fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar og það sé ástæðan fyrir flandri hans til og frá íslenskri efnahagslögsögu. Hið sanna er hins vegar að Ólafur á eftir að kaupa brúðkaupsgjöfina og er það ástæðan fyrir hinni óvæntu heimkomu. Örnólfur Thorson, skrifstofustjóri öryggisventilsembættisins, sagði í viðtali við fréttastofuna að brúðkaupsgjöfin til Danaprins og heitkonu hans yrði að vera þjóðleg og slíkt lægi ekki á lausu í verslunum Parísar.
“Ég dreg þér Baug á fingur” segir í frægum dægurlagatexta og kom hann mörgum í hug eftir að hafa hlýtt á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur játa einokunarhring Jóns Ásgeirs ást sína á Alþingi í gærkvöldi. Talaði hún um lasergeislafrumvarp sem beint væri með markvissum hætti að einu fyrirtæki og sem ætti að koma fyrir kattarnef. Í framhaldi af þessari endemis “laser beam” kenningu kastaði forseti þingsins fram þessari stöku, sem vakti mikla kátínu þingheims:
Ástin er eins og lasergeisli,
ástin er segulstál.
Af litlum og vesælum neista ræfli
verður oft mikið bál.
Og þá að veðrinu: Kl. 7 í morgun var 6 stiga hiti í Reykjavík samkvæmt mælinum í Valhöll. Mælir flokksins á Akureyri sýndi 7 stig og á Egilsstöðum 9.
Fréttir verða næst lesnar kl. 8. En þangað til, passið ykkur á undirróðrinum, hlustendur góðir, og verið stilltir á stöð Flokksins. Fyrsta lagið sem við hlýðum á nú í morgunsárið er á nýjum geisladiski kórs sjálfstæðiskvenna. Lag og ljóð er eftir háttvirtan forsætisráðherra, Davíð Oddsson, og nefnist “Shame on you, Baugur”.
Kveðja, Jón