Vafrað um á kaupþingi.is
Til umræðu í fjölmiðlum hafa verið launakjör forstjóra Kaupþings. Þau námu 70 milljónum króna í fyrra. Þar af voru 58 milljónir í kaupauka. Morgunblaðið á sunnudag upplýsir að 20% séu greidd í lífeyrissjóð. Síðan eru önnur vildarkjör tilgreind. En uppsagnarfresturinn er sex mánuðir. Mér skilst að það þyki þungir kostir. Og vissulega er svo borið saman við starfslokasamning Þórarins V. Þórarinssonar upp á tæpar 40 milljónir. Að sögn var það til að greiða fyrir tvö og hálft ár í starfi.
Mál af þessum toga eru jafnan rædd af mikilli óskammfeilni af hlutaðeigandi ábyrgðarmönnum. Þeir vilja ýta óþægilegri umræðu út af borðinu þegar í stað enda á almenningur að þeirra dómi ekki að vera með nefið ofan í gullkoppum hinnar nýju og vaxandi yfirstéttar sem frjálshyggjan hefur alið af sér. Þegar Friðrik Pálsson fyrrverandi stjórnarformaður Landssímans hf réttlætti það fyrir sjónvarpsáhorfendum á sínum tíma að það væri eðlilegasti hlutur í heimi að greiða fyrrverandi forstjóra Símans hátt í fjóra milljónatugi þá sagði hann að þetta væri tíðkað erlendis og reyndar væri þetta fyrirkomulag að berast til Íslands. En þegar fréttamaðurinn bað hann að nefna dæmi þar um sneri hann snúðugt upp á sig. “Hvaðan getur þú nefnt slík dæmi?”, spurði fréttamaðurinn. “Ég nefni engin slík dæmi”, svaraði Friðrik að bragði.
Svipuð eru viðbrögðin hjá stjórnarformanni Kaupþings nú, hann vísar út í hinn stóra og mikla heim sem almenningur ku víst vera svo fáfróður um. Þessu til mótvægis væri kannski ráð að stærðfræðikennsla í grunnskólum tæki eitthvert mið af þörfum hins nýja atvinnulífs; að börnin fengju forstjóralaunin upp á borðið til alls kyns útreikninga og gætu síðan frætt foreldrana um stöðu mála í tískustraumum forstjóralaunanna. Allt um það, stjórnarformaður Kaupþings segir laun forstjóra fyrirtækisins vera hæfileg, raunar í lægri kantinum miðað við erlenda kollega hans en í þokkalegum takt við útlendra manna háttu. Ekki efast ég um að ofurkjör sem þessi séu til siðs hjá útlendum peningabröskurum. En hvorki eru þau siðleg né heiðarleg og reyndar er fullt tilefni til að hafa þung orð um háttalag manna sem ráðstafa fjármunum sem þeim er treyst fyrir á þennan hátt. Einn ver annan enda er þetta meira og minna sami hópurinn. Einum er sagt upp hér, hann fær þá vel útilátinn starfslokasamning og semur síðan við næsta mann, þann sem var látinn víkja fyrir honum sjálfum á nýjum vettvangi.
Í opinberum stofnunum viðgengust svokölluð biðlaun þar sem einstaklingar fengu laun í sex mánuði eða tólf, allt eftir því hve lengi þeir höfðu verið í starfi. Þetta átti við ef viðkomandi fékk ekki nýtt starf og miðuðust biðlaunin við mánaðargreiðslur í gamla starfinu. Þetta fyrirkomulag þótti mikið hneykslunarefni og var afnumið. Þarna var hins vegar um að ræða réttmætar greiðslur og er hollt að rifja það upp að helstu gagnrýnendur þessa kerfis voru sömu aðilar og nú maka krókinn í einkavæddum ríkisfyrirtækjum.
En hver voru rökin fyrir því að greiða forstjóra Kaupþings svona góðan bónus. Jú, hann hafði gert það svo gott fyrir fyrirtækið. Kaupþing hafði hagnast svo vel undir hans stjórn. Fréttamaður spurði stjórnarformann Kaupþings hvort þetta væru verðlaun fyrir verslun með Frjálsa fjárfestingarbankann þar sem hagnaður Kaupþings nam litlum 1500 milljónum. “Það er mikil einföldun að segja að hagnaðurinn af Frjálsa fjárfestingarbankanum eigi einhvern verulegan þátt í þessu” sagði stjórnarformaðurinn. Engu að síður viðurkenndi hann að þarna hefði “gróft talað” verið um 1500 milljóna króna hagnað að ræða. Hann vildi þó gera sem allra minnst úr söluhagnaðinum vegna bankans og rökstuddi mál sitt með eftirfarandi hætti: “En auðvitað græddi fyrirtækið sko vel á hérna ýmsum öðrum þáttum og tapaði á enn öðrum.” En hvað skyldi þetta annað hafa verið? Af einhverjum ástæðum virðist stjórnarformaðurinn eiga erfitt með að tjá sig um aðra liði í bókhaldinu.
Þetta gefur tilefni til að skyggnast inn í veröld Kaupþings. Það getur maður gert með því að heimsækja heimasíðuna kaupþing.is. Þar er forvitnilegt að vafra um. Á forsíðunni berja Kaupþingsmenn sér á brjóst fyrir 3000 milljóna hagnað eftir skatta. Síðan er rétt að halda áfram og inn á lífeyrissjóða-síðurnar. Þar er hægt að slá upp gengi eða arðsemi og sjá hvernig þeir hafa verið ávaxtaðir. Þar blasa við stórar mínustölur (dæmi: Ævileið I í séreignarsjóði Kaupþings, mínus 28,02: Ævileið II, mínus 16,12 og þannig koll af kolli, ekki alls staðar tap en allt of víða þar sem lífeyrissjóðir í vörslu Kaupþings eiga í hlut). Nú er það alveg rétt sem bent hefur verið á að gengi hlutabréfa sveiflast eftir ganginum í efnahagslífinu og ef til vill er engin ástæða til að örvænta þótt um einhvern tíma séu þessir sjóðir með neikvæðri ávöxtun. Það er heldur ekkert óeðlilegt að þetta gerist í sjóðum í vörslu Kaupþings fremur en annarra. En þegar það gerist ár eftir ár að lífeyrissjóðir sem eru í fóstri hjá Kaupþingi eru í miklum mínus á sama tíma og Kaupþing skilar myljandi gróða til eigenda sinna horfir málið öðruvísi við.
Við slíkar aðstæður hljóta menn að hrökkva við þegar forstjóri fyrirtækisins er verðlaunaður með tugum milljóna fyrir stórkostlegan árangur í starfi. Menn hljóta að spyrja: Er verið að hafa einhvern að fífli? Eða er málið ef til vill alvarlegra en svo?