VALD TIL SÝNIS
02.02.2015
Birtist í helgarblaði Morgnblaðsins 01.02.15.
Nýlega kom ég í Colosseum, fjölleikahús Rómverja til forna. Það rúmaði á sinni tíð sjötíu þúsund áhorfendur. Þeim var skipað á bekk eftir þjóðfélagsstöðu, keisarinn og aðrir ráðamenn í bestu sætum en efst voru þeir sem neðst stóðu í þjóðfélagsstiganum. Boðskap sýninganna í Colosseum var þó ekki síst beint að þeim. Leikarnir stóðu að jafnaði daglangt. Sýningarnar samanstóðu af því að sjá gladíatora berjast. Þar gat verið um að ræða skilmingaþræla eða frjálsa stríðsmenn sem höfðu atvinnu af sýningum og nutu margir mikillar hylli. Síðan voru villidýr látin berjast, bæði sín á milli og við menn. Þeir sem stóðu andspænis óðu ljóni eða tígrisdýri á leikvanginum í Colosseum voru dauðans matur. Leiðsögukona sagði að dýrin hefðu verið fönguð í Afríku og Asíu, haldið við gott viðurværi í Róm þar til einhverjum dögum fyrir leikana að þau hefðu verið flutt í gryfjur undir sjálfu sviðinu, þar sem var myrkur og þrengsli. Þegar villidýrunum hafi verið hrundið inn á sviðið trylltum, þyrstum og hungruðum, þar sem hin mennsku fórnarlömb biðu, hafi ekki verið að leikslokum að spyrja.
Um miðjan dag hafi aftökurnar farið fram. Brotamenn hafi verið hálfshöggnir eða pyntaðir til dauðs. Oft krossfestir, stundum þannig að höfuðið vissi niður. Hlutskipti kristinna manna hafi iðulega verið þetta á fyrstu dögum keisaraveldisins áður en kristnin var leyfð. Þessum hluta dagskrárinnar hafi einkum verið beint að efri svölunum, fólki þar til viðvörunar: Þetta gæti orðið ykkar hlutskipti!Ég minnist kvikmyndar sem fjallaði sannsögulega um valdbeitingu ríkisvalds. Í verksmiðju hafði verið efnt til andófs og verkfalls. Öllum verkamönnunum hafði þá verið safnað saman á eins konar hringlaga leikvang með upphækkuðum áhorfendasætum. Þar var þeim skipað að sitja. Síðan komu hermenn í pallbíl með krana aftan á. Foringinn horfði upp í áhorfendabekkina. Verkamennirnir og þar með áhorfendur kvikmyndarinnar biðu þess að reynt yrði að finna forsprakka andófsins. Ekkert slíkt gerðist. Fljótlega fór flokkur hermanna upp í áhorfendastúkurnar og tíndi út fáeina verkamenn, greinilega af handahófi. Þeir voru leiddir að pallbílnum og án málalenginga hengdir í krana hans. Lífvana líkunum var síðan hent upp á bílpallinn og hermennirnir hurfu á braut. Verkamennirnir hófu vinnu að nýju.
Boðskapurinn var skýr. Það væri ekki nóg að taka ekki þátt í andófi. Þú yrðir að koma í veg fyrir að það yfirleitt ætti sér stað vildirðu vera öruggur.
Í Guantanamó hafa Bandaríkjamenn haldið mönnum án dóms og laga og beitt þá pyntingum. Þetta átti aldrei að fara leynt. Ofbeldið var ætlað heiminum til sýnis, skilaboðin skýr: Ef þið farið ekki að okkar vilja standið þið utan réttarríkis, engin lög og reglur gilda um ykkur frekar en um þá sem biðu örlaga sinna á leikvanginum í Colosseum forðum daga.
Valdið er varasamt á vorum dögum engu síður en í árdaga.
Nýlega kom ég í Colosseum, fjölleikahús Rómverja til forna. Það rúmaði á sinni tíð sjötíu þúsund áhorfendur. Þeim var skipað á bekk eftir þjóðfélagsstöðu, keisarinn og aðrir ráðamenn í bestu sætum en efst voru þeir sem neðst stóðu í þjóðfélagsstiganum. Boðskap sýninganna í Colosseum var þó ekki síst beint að þeim. Leikarnir stóðu að jafnaði daglangt. Sýningarnar samanstóðu af því að sjá gladíatora berjast. Þar gat verið um að ræða skilmingaþræla eða frjálsa stríðsmenn sem höfðu atvinnu af sýningum og nutu margir mikillar hylli. Síðan voru villidýr látin berjast, bæði sín á milli og við menn. Þeir sem stóðu andspænis óðu ljóni eða tígrisdýri á leikvanginum í Colosseum voru dauðans matur. Leiðsögukona sagði að dýrin hefðu verið fönguð í Afríku og Asíu, haldið við gott viðurværi í Róm þar til einhverjum dögum fyrir leikana að þau hefðu verið flutt í gryfjur undir sjálfu sviðinu, þar sem var myrkur og þrengsli. Þegar villidýrunum hafi verið hrundið inn á sviðið trylltum, þyrstum og hungruðum, þar sem hin mennsku fórnarlömb biðu, hafi ekki verið að leikslokum að spyrja.
Um miðjan dag hafi aftökurnar farið fram. Brotamenn hafi verið hálfshöggnir eða pyntaðir til dauðs. Oft krossfestir, stundum þannig að höfuðið vissi niður. Hlutskipti kristinna manna hafi iðulega verið þetta á fyrstu dögum keisaraveldisins áður en kristnin var leyfð. Þessum hluta dagskrárinnar hafi einkum verið beint að efri svölunum, fólki þar til viðvörunar: Þetta gæti orðið ykkar hlutskipti!Ég minnist kvikmyndar sem fjallaði sannsögulega um valdbeitingu ríkisvalds. Í verksmiðju hafði verið efnt til andófs og verkfalls. Öllum verkamönnunum hafði þá verið safnað saman á eins konar hringlaga leikvang með upphækkuðum áhorfendasætum. Þar var þeim skipað að sitja. Síðan komu hermenn í pallbíl með krana aftan á. Foringinn horfði upp í áhorfendabekkina. Verkamennirnir og þar með áhorfendur kvikmyndarinnar biðu þess að reynt yrði að finna forsprakka andófsins. Ekkert slíkt gerðist. Fljótlega fór flokkur hermanna upp í áhorfendastúkurnar og tíndi út fáeina verkamenn, greinilega af handahófi. Þeir voru leiddir að pallbílnum og án málalenginga hengdir í krana hans. Lífvana líkunum var síðan hent upp á bílpallinn og hermennirnir hurfu á braut. Verkamennirnir hófu vinnu að nýju.
Boðskapurinn var skýr. Það væri ekki nóg að taka ekki þátt í andófi. Þú yrðir að koma í veg fyrir að það yfirleitt ætti sér stað vildirðu vera öruggur.
Í Guantanamó hafa Bandaríkjamenn haldið mönnum án dóms og laga og beitt þá pyntingum. Þetta átti aldrei að fara leynt. Ofbeldið var ætlað heiminum til sýnis, skilaboðin skýr: Ef þið farið ekki að okkar vilja standið þið utan réttarríkis, engin lög og reglur gilda um ykkur frekar en um þá sem biðu örlaga sinna á leikvanginum í Colosseum forðum daga.
Valdið er varasamt á vorum dögum engu síður en í árdaga.