VALDAKERFI INNAN SKJALDBORGAR-MÚRA
Heill og sæll Ögmundur.
Þetta bréf skrifa ég þér, þar sem Biskupstofa heyrir undir ráðuneyti þitt, eða er ekki svo? Ég geri ráð fyrir að þú sért í áfalli, sem flestir landsmenn, eftir að hafa orðið vitni að viðtali Þórhalls Gunnarssonar við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur í sjónvarpinu á sunnudagskvöldið. Guðrún Ebba steig þar fram fyrir skjöldu og opinberaði okkur sögu sína um nöturleg samskipti við biskupinn föður sinn. Það kalla ég sanna hetjudáð hennar, sem óvarins einstaklings. Að fela sig bakvið og innan skjaldborga er hinsvegar iðulega háttur gunga og drusla. Þar er ég að tala um allt valdakerfi stjórnsýslunnar í heild. Hér hefur orðið siðrof á mörgum vígstöðvum, fyrir og eftir Hrun. Fyrir mér er saga Guðrúnar Ebbu ekki einungis bundin við kynferðislegt ofbeldi, nauðgun, heldur andlega og kerfislæga vald-nauðgun sem ráðamenn og konur stunduðu og stunda enn. Skýrsla RNA er um meinin mörg, en saga Guðrúnar Ebbu holdgervði meinin sem skýrslan fjallar um, sem aðdraganda Hrunsins. Þess vegna sat fólk sem lamað, það skynjaði dýpt sársins, sem blæðir ógróið í okkur öllum og valdakerfi stjórnsýslunnar hefur nú öllu gleymt og veður áfram og ber sér á brjóst, "nei kannski ekki flatskjáirnir, en þið venjulega fólkið eruð samt sek og skulið blæða fyrir vald okkar ... áfram." Vald gerir þaulsetna ráðamenn og konur fyrr en síðar að týrönnum, sagði Thomas Jefferson. Hvort við köllum það vald-sýki, eða vald-níðingshátt er ekki aðal málið, heldur það hvernig hinir þaulsetnu tala tungum tveimur og vaða áfram í villu sinni og svíma og nota vald sitt til að dásama sig og láta dásama sig. Ég vil kalla það hópefli tossabandalaga hugmyndafræðilegra stofnana ríkis-valdakerfisins. Orwell skrifaði um Dýrabæ og mín niðurstaða er að margur er Dýrabær og víðar og þó nær en flesta grunar. En þar sem kerfið er meira eða minna enn óbreytt, þá er spurning mín til þín Ögmundur, hvað þú hyggst gera í þessu máli? Biskupstofa heyrir undir ráðuneyti þitt og er kannski ríki í ríkinu, en eitthvað hlýtur ráðherra að geta gert til að hindra alla þá þöggun og vald-níðslu sem virðist hafa viðgengist þar og viðgangist enn? Hvernig getur núverandi biskup setið áfram, sem stakk bréfi Guðrúnar Ebbu ofan í skúffu á sínum tíma og fór þar með að fordæmi strútsins, sem stingur höfði sínu í sandinn og fretar daunillt á fólk, sem ennþá reynir þó að varðveita sína barnatrú í anda Jesú Krists, um hið góða og hið réttláta og sanngjarna í hjarta hvers og eins?
Jón Jón Jónsson
Þakka þér bréfið. Það er rétt að Þjóðkirkjan heyrir undir mitt ráðuneyti en er algerlega sjálfstæð um mannaráðningar og sín innri málefni.
Kv.,
Ögmundur