Fara í efni

VALDATÍÐ DAVÍÐS ODDSSONAR

Valdatíð Davíðs
Valdatíð Davíðs

Þegar eru menn farnir að skrifa pólitíska sögu áratuganna sitt hvoru megin við aldamótin og eru margir áhugasamir um að koma sínu sjónarhorni á framfæri. Ekki er ég þar undanskilinn og tók því vel þegar ég var beðinn um að taka þátt í málfundi sem Politica, félag stjórnmálafræðinema við Háskóli Íslands stóð að síðastliðinn fimmtudag, það er fyrir réttri viku.

Yfirskriftin var Valdatíð Davíðs og var frummælendum ætlað að svara því hvort hún hefði verið til góðs eða ills.

Eins og vænta mátti voru svörin ekki á einn veg og réðu pólitískar áherslur frummælenda nokkru þar um eins og við var að búast. Ég hafði á orði að ég hefði undrast að frummælendur væru tveir af hægri væng stjórnmálanna en ég einn frá vinstri vængnum. Eftir á að hyggja hefði þetta þó sennilega verið vel ráðið með hliðsjón af þeim málstað sem frummælendum væri ætlað að axla!

Fundurinn var fyrir fullu húsi og fjörugur mjög. Sjálfum þótti mér hann bráðskemmtilegur og áhugavert að horfa til baka og svo aftur alveg inn í samtímann og reyna að öðlast skilning á framvindunni. Í upphafi framsögu minnar benti ég á að þótt ég væri fjórum árum eldri en annar frummælenda, Vilhjálmur Egilsson, og fimm árum eldri en hinn, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, þá værum við allir af sömu pólitísku kynslóðinni. Það á einnig við um Davíð Oddsson sem sjónir beindust nú að. Hann væri að vísu hálfu ári eldri en ég en fæddur á sama árinu, 1948.

Þegar þessi  kynslóð hafi stigið inn á vettvang stjórnmálanna, hver með sínum hætti á áttunda áratug síðustu aldar - allir að skríða eða nýskriðnir inn á þrítugsaldurinn -  var ólíkt um að litast því sem nú er. Fram undir lok áratugarins var félagshyggjan ríkjandi  í okkar heimshluta og helstu viðmiðunarríkjum. Ekki svo að skilja að félagshyggjuflokkar væru alls staðar við völd - heldur var tíðarandinn á hennar forsendum. Í anda samvinnu og félagshyggju höfðu stórstígustu framfarir fram til þessa átt sér stað og horfði ég þar til framfara á sviði tækni og vísinda en þó ekki síst til velferðarkerfanna sem nú tóku fyrir alvöru að þróast og þar með búa í haginn fyrir aukinni velsæld fyrir alla.

Þverpólitískri samstöðu um grunngildi jafnaðarsamfélagsins sögðu haukar frjálshyggjunnar stríð á hendur undir lok þessa áratugar. Hér á landi hafði Jónas Haralds skrifað herhvöt sína Endurreisn í anda frjálshyggju og annar kyndilberi sömu sjónarmiða steig skömmu síðar inn á vettvanginn. Sá maður hafði sett þá hugsun fram að í sumum löndum væri mikið til af börnum en lítið af peningum, annars staðar væri þetta öfugt, lítið af börnum en mikið af peningum. Í þessari staðreynd kynnu að liggja viðskiptatækifæri. Ég spurði Hannes Hólmstein hvort hann myndi hvar hann hefði skrifað þetta!
Ummæli af þessu tagi voru að sjálfsögðu sett fram til að ögra og hrista upp í fólki og hrekja það út úr vanahugsun. En takmarkið var augljóst: Að markaðsvæða hugsunina. Græðgi er góð sagði Thatcher, virkjum eignagleðina, sagði Davíð Oddsson.

Og þetta fólk var ekki eitt á báti. Það átti svo sannarlega við um Davíð Oddsson, sem ég er reyndar aldrei alveg viss um að hafi viljað þramma eins langt undir gunnfána nýfrjálshyggjunnar og margir pólitískir samferðamenn hans vildu gera. Eimreiðarhópurinn varð til og  Báknið burt, varð krafa dagsins. Samstöðuhugsun tuttugustu aldarinnar skyldi víkja fyrir þeirri hugsun að hver skari eld að eigin köku. Brauðmolakenningin þótt afbragð allra kenninga, látum hina ríku baka sín stóru brauð, þá munu molar hrjóta af borðum þeirra til og gleðja efnaminni hluta samfélagsins.

Þessi hugarfarsbylting gekk eftir - alla vega í heimi stofnanaveldisins. Nánast allt kerfið fór að tala tungumál markaðshyggju. Vinstrið sem hafði verið lifandi og fjörugt fram undir lok sjöunda áratugarins fór í dvala en þeim mun meira líf færðist í hægrið sem þá hafði verið lamað um langt skeið. Hægri sinnaðar hugmyndasmiðjur tóku að blómstra undir handarjaðri Thatchers og Reagans og samherja þeirra. Hingað til lands komu áróðursmeistarar stríðum straumi en ekkert bólaði nú á boðberum  vinstri sinnaðra sjónarmiða. Þar var nú allt orðið steindautt. Af sem áður var.

Á fundinum í Odda  fór ég yfir það hvernig umbylting þjóðfélagsins í  þessum anda hafi hafist á tíunda áratug síðustu aldar og vel inn í þessa öld undir verkstjórn Davíðs Oddssonar. Ég var sammála hinum frummælendum um að hann hefði verið afgerandi forystumaður, foringi ,einsog frummælendur sögðu. Gott ef þeir hneigðu sig ekki ögn við þessa játningu og að þar hafi tekið sig upp gamall vani.
Veikleiki Davíðsáranna  hefði að mínu mati ekki síst leynst í þessum ótvíræða styrk Davíðs Oddssonar: Baklandið hafi lotið honum í lotningu og farið að hans vilja í einu og öllu. Það þótti þeim Vilhjálmi og Hannesi  greinilega hafa verið afbragðsgott: Allir vissu alltaf hvernig hjólin áttu að snúast! Hvert bæri að stefna!
Ég nefndi dæmi um hve stórvarasamar slíkar aðstæður væru. En frá því væri skemmst að segja að á tíunda áratugnum og fram að Hruni hefði misskipting aukist verulega í íslensku þjóðfélagi, samhliða stórskaðlegri einkavæðingu sem hefði grafið undan jafnaðarsamfélaginu; árið 2004 hefðum við verið orðin eitt skuldsettasta efnahagskerfi heimsins og mætti rekja það til þess hömluleysis sem „nýfrjálshyggjan" hefði gert að sinni grundvallarhugsjón. 

Falleinkunn þessara ára ætti þó ekki heima hjá Davíð Oddsyni öðrum fremur, hún tæki til liðinna þriggja áratuga og hefðu fleiri en einn stjórnmálaflokkur, hvað þá einn stjórnmálamaður komið þar að. Það væri nefnilega ekki nóg að horfa í misskiptingu tekna. Spyrja yrði hvort auðveldara eða erfiðara væri nú en fyrr að vera tekjulítill og heilsulaus á Íslandi. Enginn vafi léki á því að það væri  erfiðara nú en áður. Í því væri falleinkunn fólgin. En þótt þarna væri ekki við einn einstakan stjórnmálamann að sakast, ekki heldur þann sem hafði verkstjórnina á hendi, þá var það engu að síður á þessum árum að gerð voru vasafjárlög fyrir öryrkja og sjúka á vegum ríkisstjórnar Íslands, svo allir mættu vita hvað þeir kostuðu samfélagið og nú þótti mikilvægt að sjúlklingar hefðu kostnaðarvitund.  Það voru kratar sem settu þá hugsun í öndvegi og endurspeglar það ljóslega innreið markaðshugsunar í stjórnmálin almennt. Á öllum sviðum skyldi hugsað að hætti verslunar og viðskipta - líka á spítalaganginum.

Á fundinum sagði ég líka ef ég man rétt, að það hlyti að vera umhugsunarefni fyrir hægri menn að fá svar við annarri spurningu sem þeim hefði löngum verið hugleikin. Spurningin væri þessi: Er auðveldara eða erfiðara að vera tekjulítill og eignast húsnæði? Við þekkjum svarið og er það að birtast í þeirri staðreynd að sífellt fleiri leita á rándýran leigumarkaðinn um húsnæði og duga þá engar skýringar um að ungt fólk langi frekar til að leigja en eignast. Þær skýringar duga alla vega ekki mér. Sjálfseignarstefna Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum er í andarslitrum - alla vega á hún í miklum erfiðleikum, nokkuð sem ég sannast sagna tel vera slæmt. Á valdatíma Davíðs tók að molna úr þessari stefnu. Það hygg ég að sé ótvírætt og vegur þar þyngst afnám félagslega íbúðakerfisins sem gerði morgu lágtekjufólki kleift að eignast íbúðir.

Ég rek ekki málflutning á þessum fundi í smáatriðum en ítreka við lesendur þessa pistils að hollt er að rifja upp söguna og reyna að læra af henni. Mér sýnist ekki veita af eins og nú er um að litast á vettvangi íslenskra stjórnmála. Þar virðast ráðandi öfl lítið hafa lært af ótvíræðum mistökum tíunda áratugarins og fyrstu árum þessarar aldar. Sennilega hafa hægri menn ekkert lært! Ég gæti meira að segja best trúað því að núverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu raunverulegri erindrekar fjármagnisins en umræddur forystumaður var. Um það eru ýmis teikn á lofti og horfi ég þar til markaðsvæðingar innviða samfélagsins og margvíslegrar fyrirgreiðslu.   

Þess vegna þarf félagslega sinnað fólk að reyna fyrir sitt leyti að læra af reynslunni. Hægri menn komu á þjóðfélagsbreytingum eftir langan aðdraganda og mikla vinnu, þrotlaust áróðursstarf. Þeir sögðu tíðarandanum stríð á hendur.
Þessa er nú þörf sem aldrei fyrr en nú með öfugum formerkjum, ekki í anda ójafnaðar heldur  í anda jafnaðar. Við megum ekki láta sérhyggjuna sundra samfélaginu einsog gerðist á áratugunum sitt hvoru megin við aldamótin.
Ömmi og Hanni 

Mynd frá fundinum sem fundargestur sendi.