Fara í efni

VALKOSTIR VIÐ STJÓRNARMYNDUN


Ef stjórnarflokkarnir hefðu misst meirihluta á Alþingi hefðu stjórnarandstöðuflokkarnir, Vinstrihreyfingin grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn gengið til viðræðna um stjórnarmyndun. Ég hef trú á því að þessir flokkar hefðu náð saman um að mynda ríkisstjórn þrátt fyrir ágreining um ýmis mikilvæg málefni. Á þetta reyndi hins vegar ekki af þeirri einföldu ástæðu að ríkisstjórnin hélt velli þótt naumt væri.

Nú er sá möguleiki fyrir hendi að ríkisstjórnin sitji áfram. Það er dapurleg tilhugsun svo ekki sé meira sagt. Annar stjórnarflokkurinn fékk óneitanlega rautt spjald og augljóst að fyrrum stuðningsmenn flokksins líkaði ekki sú stefna sem hann fylgdi. Hér er að sjálfsögðu átt við Framsóknarflokkinn.

Þá blasir við að ríkisstjórn verður ekki mynduð án þátttöku eða með stuðningi annars stjórnarflokkanna.

Fyrsti möguleiki er þá ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna, þriggja eða tveggja, með Framsóknarflokki. Á þennan möguleika hefur aldrei verið látið reyna því Framsókn hefur haldið sig innandyra í Stjórnarráðinu og gert sig líklega til að halda sig þar áfram ef kostur er á því. Þetta hefur sett alla í biðstöðu enda hefur hvorugur formaður ríkisstjórnarflokkanna, þegar þetta er skrifað, sýnt frumkvæði (að því er ég best veit) gagnvart stjórnarandstöðuflokkunum um hugsanlega stjórnarmyndun.
Forsvarsmenn í Framsóknarflokknum sögðu fyrir kosningar að ef flokkurinn færi illa út úr kosningunum myndi hann ekki taka þátt í ríkisstjórn. Meðal annars í ljósi þessa komu fram vangaveltur um það hvort Framsókn væri reiðubúin að veita minnihlutastjórn VG og S stuðning, þ.e. myndi verja hana falli.
Ég benti á það í útvarpsviðtali að í Framsókn væru frá gamalli tíð félagslegir þræðir og ef áhugi væri að skerpa slíkar áherslur væri þetta tækifæri til þess. Auðvitað orkar það tvímælis að orða þessa hugsun. En þar sem nefnt hafði verið að Framsóknarflokkurinn stæði utan ríkisstjórnar byði hann afhroð í kosningunum – sem og varð reyndin – þótti mér í lagi að reifa þetta opinberlega. Ég er auk þess þeirrar skoðunar að þessi mál eigi ekki að  vera einkamál örfárra einstaklinga heldur eigi að ræða valkostina eins opinskátt og heiðarlega og kostur er.

Skemmst er frá því að segja að Framsókn brást ókvæða við – talaði um hlægilega hugmynd, dónaskap og þar fram eftir götunum.Talað var eins og flokkurinn hefði komið glansandi út úr kosningum, unnið stórsigur og hefði öll tromp á hendi. Allt var nú gleymt um að flokkurinn myndi hlusta á rödd kjósenda og standa utan Stjónarráðsins. Framsóknarflokkurinn var stórmóðgaður.

Ef Framsókn hefði viljað halla sér til vinstri gefur auga leið að flokkurinn hefði slitið stjórnarsamstarfinu hið bráðasta og lýst yfir vilja til samstarfs við fyrrverandi stjórnarandstöðu, annað hvort með því að láta reyna á aðild að ríkisstjórn eða með stuðningi við minnihlutastjórn.
Framsókn hefur engan áhuga sýnt á slíku. Mér hafa orðið það vonbrigði.

Því er ekkert að leyna - enda öllum augljóst - að bæði innan VG og Framsóknar eru uppi gagnstæð sjónarmið í ýmsum málum og þá sérstaklega hvað snertir virkjanir í þágu stóriðju. Framtíð orkugeirans er einnig ásteytingarsteinn. Önnur veigamikil ágreiningsmál mætti nefna. Í ýmsum öðrum málum eru áherslur flokkanna hins vegar náskyldar. Á þær höfum við viljað horfa og því ekki blásið samstarf við Framsókn út af borðinu eins og margoft hefur komið fram í máli mínu í fjölmiðlum að undanförnu.

Þá er sá kostur sem nú er hamrað á í fjölmiðlum, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Slík ríkisstjórn er hrikaleg tilhugsun, eða hvað hefði mönnum þótt um pólitískt hjónaband Margrétar Thatchers og Tony Blairs? Í þessari stjórn myndu opnast allar gáttir einkavæðingar og stóriðjustefnunni yrðu settar ófullnægjandi skorður.

Fram hefur komið í fréttum – og er því ómótmælt - að formaður Samfylkingarinnar hafi óskað eftir viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn um stjórnarsamstarf. Á þessu er og sagður mikill áhugi innan Samfylkingarinnar.

VG hefur ekki sett fram neinar óskir eða tilboð um stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, hefur hins vegar sagt að VG sé reiðubúið til könnunarviðræðna við Sjálfstæðisflokk. Þá hef ég sagt opinberlega að ég teldi betra fyrir þjóðina að mynduð yrði ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokks heldur en ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þetta þóttu Guðna Ágústssyni, varaformanni Framsóknarflokks mikil tíðindi þegar við ræddumst við í Kastljósi í gær. Ég held þó að það sem komið hafi Guðna helst á óvart var að heyra rætt um þessi mál á opinskáan hátt. Menn eru vanari pukursaðferðinni.

Ég hef aldrei farið í grafgötur með skoðanir mínar í þessum efnum. Ég hef ætíð viljað tryggja félagslegar áherslur í Stjórnarráðinu. Að sjálfsögðu ræðst það af aðstæðum hvernig það verður best gert en allar hugmyndir okkar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði ganga í þessa átt eins og hér hefur verið rakið.

Fréttir um þetta efni HÉR og HÉR