VANDLIFAÐ
Þú fyrirgefur vonandi að ég trufli þig mikilsmetinn manninn. Ég las á síðunni þinni um Siðmennt: „Guðsótti og góðir siðir, segja menn. Óttinn við Guð er upphaf viskunnar. Það kenndi Gamla Testamentið. En hvað gerist ef óttinn er tekinn út úr jöfnunni? Ef Guð bregður sér frá? Verður þá allt stjórnlaust einsog í barnaskólabekk, þegar kennarinn fer fram? Eða getur verið að réttlætiskennd, heiðarleiki, samúð og kærleikur séu manninum eiginleg? Höfum við samvisku? Hvaðan kemur hún"?
Mér verður hugsað til þess þegar ég hlustaði á fortöluorð þín þegar þú varst í einu af „notendahlutverkum" þínum sem formaður BSRB og losa þurfti Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar undan óþægindum sem réttlætisbarátta samvisku minnar og vinnufélaga minna hafi kostað. Það eru alltaf leiðir til þess að nýta samvisku sína þvert á það sem öll þessi stóru orð eins og samúð, kærleikur og heiðarleiki eru. Og það sem meira er; það er afar einfalt að réttlæta það. Við gerum það „as we go along". Við erum svo fullkomin að það skeikar varla neinu.
Við völtum kannski yfir einn og einn vegfaranda í leiðinni en eins og þeir segja í verkalýðshreyfingunni: „Það þarf að hugsa um heildina". Þú heldur áfram og leysir málin hingað og þangað í leiðinni og það fer ekki fram hjá neinum að þar fer mikils metinn maður á ferð.
Þú skapar þína eigin samúð, heiðarleika og kærleika en manst kannski ekki alltaf hvar þú ætlaðir að setja viðmiðið enda svo frábær í alla staði... já og viðkunnalegur og með eindæmum huggulegur og vinamargur. Það er ekki alltaf sem við látum gott af okkur leiða þó við séum að reyna að krafsa í yfirborðsmennsku útdauðs húmanistans.
Nú hefur „fólkið" náð völdum, bæði í borg og ríki. Og hvað gerist? Allir sem einn hoppuðu kjörnir fulltrúar í hlutverk „óvinarins". Hvert einasta möppudýr og þau vondu öfl sem mikilvægt var að berja niður í eitt skipti fyrir öll eru núna andsetin af fólki sem er útbelgt af heiðarleika, samúð, samvisku og kærleika. Við hin sem gerðum ekkert af okkur nema að „gera rétt" verðum gleymd í kærleika „óspilltrar jarðarinnar" af því að við höfum hvorki þroska né skilning fyrir alla þessa fádæma visku.
Jóhannes Gunnarsson, vegfarandi
Sæll.
Þakka þér kveðjuna Jóhannes.
Hvað skal segja þegar menn opna sinn hug?
Það er stundum vandlifað.
M.kv.,
Ögmundur