VANESSA BEELEY Í MARS 2018 - HVAÐ SEGIR HÚN Í DESEMBER 2024?
Í mars 2018 var Vanessa Beeley, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, gestur minn á opnum fundi um stríðsátökin í Sýrlandi í fundaröðinni Til róttækrar skoðunar.
Við höfðum þá nokkrir einstaklingar nýlokið þýðingu bókar eftir Tim Anderson, Stríðið gegn Sýrlandi, The Dirty War on Syria.
Hvort tveggja olli talsverðu uppnámi í fjölmiðlum. Annars vegar fyrirlestur Vanessu, eða öllu heldur að henni skyldi hafa verið boðið að halda hér fyrirlestur þar sem hún beindi gagnrýni sinni einkum að Vesturveldunum svo og ýmsum ríkjum í Mið-Austrinu sem hún sagði heyja staðgengilsstríð í Sýrlandi til að knýja fram stjórnarskipti þar. Hins vegar þótti Tim Anderson í meira lagi fordæmanlegur því hann rakti í bók sinni rök fyrir því að aðkoma Sameinuðu þjóðanna að Sýrlandsstríðinu væri ekki sem skyldi. Mér þóttu rök hans og ítarlegar upplýsingar sem hann rakti í bók sinni vera sannfærandi. Það þótti ekki öllum, einkum þeim sem aldrei lásu bókina og höfðu meira að segja uppi heitstrengingar um að það myndu þeir aldrei gera.
Í fyrirlestri sínum í Reykjavík 2018 fjallaði Vanessa Beeley um stórveldapólitík og á hvern hátt hún léki Sýrlendinga grátt. Þar kæmu mjög við sögu deilur um hvar olíuleiðslur um Mið-Austurlönd skuli liggja.
Í viðtali við Rachel Blevins, sem lesendur geta nálgast á slóð hér að neðan, leiðir Vanessa getum að því að enn þurfi að horfa til olíuhagsmuna til að skilja atburðarásina í Sýrlandi, Líbanon, Ísrael og Palestínu og líklegt að bakatjaldamakk sem tengist Úkraínustríðinu einnig gæti varpað ljósi á framvinduna nú. Nema ljósi sé ekki varpað á neitt fremur en fyrri daginn, allt gerist á bak við tjöldin og mikið um ósannindi í fjölmiðlum sem óspart væru mataðir á lygum.
Í viðtalinu sem nálgast má hér gefur Vanessa Beeley sitt mat og sýn á gang mála: https://www.youtube.com/watch?v=HeLk9-CvsrE
--------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.