Fara í efni

VANÞAKKLÁTI FLÓTTAMAÐURINN

“Eitt sinn sagði kona ein í kirkju í Oklohoma : ”Ég skil þetta vel. Þú komst hingað í leit að betra lífi.” Ég hélt það myndi líða yfir mig – betra lífi?! Í Isfahan vorum við með litlar, gular rósir, sundlaug. Í miðri stofunni heima var glerhólkur, inni í honum stóð tré. Það var tré inni hjá mér og þarna voru næfurþunnar hendurnar á Morvarid, níræðri vinkonu minni og fóstru úr þorpinu, ávaxtaleðrið hennar ömmu og snitselið á Hótel Koorosh og súr kirsuber og ávaxtalundir, búgarður – líf mitt í Íran var ævintýri líkast. Í Oklohoma bjuggum við í íbúðablokk sem ætluð var bláfátæku, réttlausu fólki. Lífið var eitt stórt, grátt bílastæði með sólbökuðum sígarettustubbum … Æska mín fór öll í að komast burt frá þessum stað. Betra lif? Orð konunnar sátu föst eins og eyrnamergur. Smám saman fannst mér þessi linnulausa frásögn mín verða ódýr sölumennska … “

Dina Nayeri, rithöfundur frá Íran, nú bandarískur ríkisborgari, komst vissulega burt frá bílaplaninu í Oklohoma. Henni átti eftir að hlotnast margvísleg viðurkenning, þar á meðal gráður frá virtum menntastofnunum í Bandaríkjunum, Princeton og Harvard, og gerast eftirsóttur rithöfundur.
Sigurganga Dinu Nayeri er langt frá því að vera dæmigerð fyrir fólk á flótta. Til að takast það sem henni tókst á endanum að gera úr eigin lífi krafðist mikillar staðfestu auk að sjálfsögðu ríkulegra hæfileika og síðast en ekki síst að hafa trú á sjálfa sig – sjálfsvirðingar. Það hlýtur að vera hægara sagt en gert að varðveita hana svo mjög sem að henni er vegið. Þrátt fyrir allt mótlætið í æsku á langvinnum flótta varð hún aldrei beisk, aldrei “vanþakkláti flóttamaðurinn” en það er titillinn á nýútkominni bók hennar sem bókaútgáfan Angústúra gefur út.

En þótt Dinu Neyeri verði ekki lýst sem vanþakklátri manneskju varð hún heldur aldrei undirgefin þeim sem veittu henni og öðrum hælisleitendum aðstoð. Sjálf flúði hún ásamt móður sinni og bróður frá Íran. Ofsóknirnar a hendur móður hennar, sem var kristinn aktívisti en fyrst og fremst sjálfstæð, hæfileikarík kona, þróuðust á þann veg að tilvera hennar varð óþolandi og undir lokin var lífi hennar ógnað.

Ég ætla ekki að rekja það sem fram kemur í þessari lærdómsríku bók heldur aðeins hvetja sem flesta til að lesa hana. Ég las bókina hægt og hugsaði mikið. Lesandinn kemst einfaldlega ekki hjá því að hugsa – og endurmeta sitthvað sem hann áður hugsaði. Bókin á með öðrum orðum erindi, eins og stundum er sagt, og mætti gjarnan verða hluti af samfélagssfræðslu í skólum. Yrði hún án efa gagnleg lesning og kveikja að umræðu sem verður að fara fram. Í lögreglunámi ætti þessi bók að vera skyldulesning og á vinnuborði sérhvers starfsmanns í stjórnsýslunni sem kemur að málefnum flóttamanna.

Hvað þurfum við að vita um hælisleitendur til þess að koma fram við þá eins og vera ber? Og hvað með framhaldið hvað varðar þau sem koma til að vera? Hvað viljum við, hvað vilja aðkomumenn? Hvað meinum við með fjölmenningu og hvað með aðlögun? “Aðlögunin er ekki eins og ferðamennska,” segir höfundur Vanþakkláta flóttamannsins, “engin dagsferð”.

Þessi bók svarar mörgun áleitnum spurningum að einhverju leyti en ekki síður vekur hún spurningar sem er knýjandi að svara. Það má eiginlega orða það þannig að við þurfum á spurningunum að halda til þess að geta mótað svör okkar af yfirvegun og viti.

Tilvitninina í upphafi valdi ég vegna þess að hún segir svo margt. Spurt er af góðviljuðu yfirlæti en jafnframt vanþekkingu, í rauninni botnlausu skilningsleysi, á því hvers vegna fólk flýr ofsóknir og ofbeldi heima fyrir. Hjá hælisleitandanum, þeim sem sækir um alþjóðlega vernd, er flótti að heiman miklu meira en leit að betra lífi. Oftar en ekki er það með trega að sagt er skilið við gulu rósirnar og alla vinina, kirsuberin og ávaxtalundina …

Að sjáfsögðu eiga ekki allir hælisleitendur gott líf að baki með ilmandi rósum í fjölskyldu- og vinafaðmi. En samt betra líf á marga lund en hlutskipti hælisleitandans í langvinnri, stundum óendanlegri, bið hans í þrengingum og óvissu.

Ég lærði margt á því að lesa Vanþakkláta flóttamanninn og þar var margt vel sagt. Til dæmis um það hverjum eigi að trúa og hverju eigi að trúa. Eitt megi vita nokkurn veginn fyrir víst, að móðir sem setur barnið sitt um borð í bátskrifli á Miðjarðarhafinu í þeirri von að komast megi með það í höfn þar sem skjól sé að hafa; að sú móðir er engan að blekkja,“þar er sannleikurinn að verki,“ segir Dina Nayeri.
Um sumt lærði ég að hugsa upp á nýtt. Sennilega var það markmið höfundar, að hugsa upp á nýtt um sitt eigið líf og fá lesendur til að gera það sama, hugsa upp á nýtt um vanda fólks á flótta.

Takk Angústúra eina ferðina enn. Takk Bjarni Jónsson fyrir frábæra þýðingu.