VARAÐ VIÐ AÐ AFHENDA FJÁRFESTUM LEIFSSTÖÐ
Á Alþingi eru ófáir hagsmunagæslumenn fyrir fjármagnsöflun. Bæði sóknarmenn og í vörninni. Það er ekki einu sinni svo að í markinu hafi verið markvörður almennings.
Í frétt á DV – það er dv.is, segir:
“Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður og formaður Atvinnufjelagsins, hefur talsverðar áhyggjur af því að Fríhöfnin í Leifsstöð muni komast í hendur erlendra aðila.
Sigmar vekur athygli á þessu á Facebook-síðu sinni og spyr hvort íslenska þjóðin hafi fengið einhverjar fréttir af því að Fríhöfnin sé á leið í söluferli.”
Sjá nánar: https://www.dv.is/frettir/2024/10/24/simmi-vill-spyr-hvort-thjodin-viti-thetta-um-frihofnina/
DV segir réttilega að í janúar síðastliðnum hafi komið fram að Isavia hefði í hyggju að efna til forvals vegna væntanlegs útboðs á rekstri Fríhafnarinnar.
Sigmari Vilhjálmssyni svo og dv.is (sem er að sækja mjög í sig veðrið sem fjölmiðill) ber hins vegar að þakka að vekja athygli á þessu máli.
Það hefur einnig verið gert nánast án afláts á þessari heimasíðu allar götur frá því ákveðið var með skipulagsbreytingum að aðgreina rekstraeiningar flugstöðvarinnar til undirbúnings einkavæðingu.
Innan stjórnar Isavia komu þá fram efasemdarraddir - frá Framsókn! - og var málið borið undir oddvita ríkisstjórnarflokkanna þriggja sem gáfu grænt ljós á breytinguna.
Þetta er ein ástæða þess að farið var að tala um nauðsyn þess að stytta nafn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs með því að taka út vinstri og grænt og yrði þá til skammstöfun sem væri við hæfi.
Nú er hins vegar að verða viðsnúningur hjá VG og er það fagnaðarefni. Hvort það dugar fyrir komandi kosningar skal ósagt látið en hitt er ljóst að til framtíðar er þörf á endurreisn og nýreisn á vinstri kanti stjórnmálanna. Vinstri menn verða að ná vopnum sínum til framtíðar áður en landinu öllu verður stolið. Þetta er eitt dæmi um árangur gripdeildarmanna.
Margoft hefur verið vakin athygli á aðdragandanum af þessari fyrirsjáanlegu einkavæðingu sbr. það sem sjá má í neðangreindum slóðum.
Á Alþingi var enginn sem tók undir. Og enn gerir það enginn.
Sennilega hefði Simmi þurft að vera þar.
Eftirfarandi er brot af skrifum um Leifsstöð og Isavia á þessari heimasíðu og þá aðeins frá síðustu árum. Þau sýna hins vegar meðal annars hver ásetningur Sjálfstæðisflokksins hefur verið alla tíð. Fyrir vikið hefði VG og Framsókn átt að stöðva undirbúningsferlið. Þess í stað lögðu þessir flokkar blessun sína yfir það.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/isavia-er-enginn-i-markinu
https://www.ogmundur.is/is/greinar/thjonar-fjarmagnsins
https://www.ogmundur.is/is/greinar/rikisstjorninni-ber-ad-skipta-ut-stjornendum-isavia
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-stefna-ad-selja-leifsstod-ad-svo-stoddu-en
https://www.ogmundur.is/is/greinar/mjaltamenn
https://www.ogmundur.is/is/greinar/sjalfstaedisflokkurinn-minnir-a-hver-hann-er
https://www.ogmundur.is/is/greinar/sjavaraudlindina-til-thjodarinnar-og-stjornendur-isavia-fra
---------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.