VARAFORMAÐUR VG: FYLGISAUKNINGIN MUN HAFA VARNALEG ÁHRIF
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs skrifar grein hér á síðuna þar sem hún leggur mat á kosningaúrslitin í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Hún telur að fylgisaukning VG muni hafa varanleg áhrif í íslenskum stjórnmálum en jafnframt megi ætla að þetta sé fyrirboði um breytt hugarfar þjóðarinnar: "Það er mín trú að þessi fjögurra prósentustiga fylgisaukning VG muni hafa varanleg áhrif í íslenskum stjórnmálum, ekki síst ef á eftir fylgir fylgisaukning í alþingiskosningum að ári. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er til alls líkleg að ári og vegna skýrrar málefnastöðu flokksins er hægt að líta á þá fylgisaukningu sem nú hefur orðið sem vísbendingu um breytt hugarfar þjóðarinnar."
Katrín minnir á að Vinstrihreyfingin grænt framboð hafi fengið 14 sveitarstjórnarmenn kosna af hreinum VG-listum en seinast hafi þeir aðeins verið fjórir. Einnig hafi VG verið áberandi víða í sameiginlegum listum sem sumum hafi vegnað vel, t.d. á Álftanesi, Grundarfirði, Ísafirði og Siglufirði/Ólafsfirði. Þá bendir Katrín á að VG sé orðið þriðja stærsta stjórnmálaafl landsins. " Það hljómar kannski ekki svo mikið að flokkur vaxi úr 9% fylgi í 13% en hafa verður í huga að Íslendingar eru íhaldssamir og kosningasveiflur um meira en þrjú prósentustig eru stórtíðindi. Enn fremur hafa sumir andstæðingar VG kallað flokkinn „10% flokk“, eins og fylgi hans í nokkrum kosningum sé orðið náttúrulögmál. Það náttúrulögmál hefur þá afsannast nú og mikilvægast af öllu er að það stafar af vaxandi innri styrk flokksins og hugarfarsbreytingu í umhverfismálum."
Grein Katrínar Jakobsdóttur er HÉR